Hátt hlufall af stórfiski í aflanum

Tekist á við stóran sjóbirting í veiðistaðnum Villa í Eldvatni. …
Tekist á við stóran sjóbirting í veiðistaðnum Villa í Eldvatni. 93 og 94 sentímetrar birtingar hafa veiðst þar í ágúst. Einn skemmtilegasti og gjöfulasti tíminn er þegar byrjar að skyggja. Húmið gefur oft góða veiði. Ljósmynd/Sporðaköst

Hlutfall af stórum sjóbirtingum í Eldvatni í Meðallandi hefur verið eftirtektarvert í upphafi veiðitímabils. Í ágúst eru komnir hátt í níutíu sjóbirtingar á land og er þriðji hver fiskur þar, sem gæti flokkast sem stór birtingur. 

Þrjátíu birtingar sem mælast 75 sentímetrar eða meira hafa veiðst þar af eru tveir sem eru yfir níutíu sentímetrar. Þá má segja að sjóbirtingur sem er yfir sjötíu sentímetrar sé virkilega flottur fiskur. Fiskar sem ná áttatíu sentímetrum eru mjög stórir. Fari þeir yfir níu tíu sentímetra eru það orðnir sannkallaðir draumafiskar.

Síðustu ár hafa verið mjög misjöfn hvað varðar stærðarhlutföll á sjóbirtingi. Síðasta haust var mun minna af þessum allra stærstu en var árin tvö á undan. Í vorveiðinni í ár var ekki mikið af þessum stærstu en til þess tekið hversu mikið var af smáum og milli stórum birtingi. Þessir fyrstu dagar í Eldvatninu gefa góð fyrirheit um bæði stærð og magn.

Svo gerast ævintýri inn á milli. Þannig gaf veiðistaðurinn Villi í Eldvatni 93 og 94 sentímetra fiska sama daginn. Báðir tóku þeir púpuna Copper John. Þetta var par og hængurinn mældist 94 og hrygnan 93. Aðstæður voru eins og þær gerast bestar. Skýjað, hægur vindur og hiti tíu gráður.

Losað úr fallegum sjóbirtingi sem tók Black Ghost. Honum var …
Losað úr fallegum sjóbirtingi sem tók Black Ghost. Honum var sleppt eins og öllum birtingi í Eldvatni. Ljósmynd/Sporðaköst

Veiði í Eldvatninu eins og mörgum öðrum ám hefur þróast yfir það að vera að stórum hluta og jafnvel stærstum hluta andstreymis púpuveiði og flugur eins og Copper John, Squirmy wormy hafa skilað mörgum fiskum. Ekki fyrir svo mörgum árum var það straumflugurnar sem menn reyndu helst og gáfu stóran hluta aflans. Auðvitað eru þær að gefa enn í dag en púpur eru í öllum efstu sætum þegar skoðað er hvaða flugur hafa gefið mest. Þannig eru fjórar gjöfulustu flugurnar í ár í Eldvatni púpur. Duracell, Squirmy wormy, Pheasant Tail og Copper John hafa gefið mest. Í fimmta sæti er svo hin klassíska straumfluga, Black Ghost.

Veiða og sleppa sem tekin var upp í Eldvatni fyrir þó nokkrum árum er að skila þessum stóru fiskum og hækkandi hlutfalli þeirra. Það er þekkt að birtingurinn kemur oft til að hrygna og nú hefur hann um nokkurra ára skeið fengið möguleika á að stækka. Það sama sést í öðrum ám á svæðinu.

Sjóbirtingsveiðin er rétt að byrja og stendur víðast hvar fram í október. Oftar en ekki er september og jafnvel síðla september besti tíminn. Þessi veiði í Eldvatninu gefur góð fyrirheit um veiðitímann. Þá hafa Sporðaköst einnig frétt af góðu magni af fiski að ganga í Vatnamótin. Haustið 2022 var einstaklega gott þegar horft er til sjóbirtings. Tugir af fiskum um og yfir níutíu sentímetra veiddust. Forvitnilegt verður að sjá hvort slíkt haust kemur aftur. Byrjunin í Eldvatni er í það minnsta áhugaverð.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert