„Er enn með gæsahúð í litla skrokknum“

Hannes Gústafsson dæsir eftir átökin. Hann er hér með eitt …
Hannes Gústafsson dæsir eftir átökin. Hann er hér með eitt af þremur tröllum sem hann fékk í Villanum. Sjóbirtingshrygna sem mældist 93 sentímetrar. Ljósmynd/Hlynur Jensson

Draumastundin í veiði kemur þegar þú átt síst von á. Hannes Gústafsson ríflega fimmtugur Eyjamaður upplifði það í síðustu viku í Eldvatninu í Meðallandi. Hann landaði þremur sjóbirtingum í yfirstærð á tæpum þremur klukkustundum. Braut veiðistöngina og í tvígang réttu birtingar úr króknum eftir mikil átök.

Hannes sem af mörgum er kallaður Hanni harði var eins og fyrr segir í Eldvatninu með mági sínum Hlyni Jenssyni en þeir hafa veitt saman í yfir þrjátíu ár. Þeir áttu veiðistaðinn Villa þegar nokkuð var liðið á dag og samkvæmt skiptingunni sem þeir félagar höfðu sett upp áttu þeir staðinn í þrjá klukkutíma. Villinn er í hugum margra einn af skemmtilegustu veiðistöðunum í Eldvatni, þó af mörgum sé að taka.

„Ég byrjaði á að veiða niður fyrir mig með Copper John. Það var ekkert búið að vera að gerast í Villanum hjá hollinu fram til þessa. En þetta er svo yndislegur veiðistaður að við ætluðum að njóta þess að veiða hann í þrjá tíma. Fljótlega setti ég í fisk sem greinilega var mjög stór. Hann beygði krókinn hjá mér og ég missti hann. Hlynur fór efst í Villann og setti fljótlega í fisk og hann var líka greinilega í yfirstærð og hann missir hann og fær upp beygðan krókinn,“ hlær Hannes.

Stöngin brotin eftir fyrsta bardaga. Það stöðvaði ekki Hanna harða. …
Stöngin brotin eftir fyrsta bardaga. Það stöðvaði ekki Hanna harða. Ný stöng var vígð og sú átti eftir að reynast vel. Ljósmynd/Hlynur Jensson

Hanni var ekki á þeim buxunum að gefast upp. Hann var með töng á sér og rétti krókinn upp aftur. „Heyrðu. Innan tíu mínútna er ég kominn með 85 til 88 sentímetra fisk á stöngina. Ég barðist við hann í yfir tuttugu mínútur og kom honum í land. Þegar ég var að gera mig kláran að mæla hann og búinn að taka í sporðinn á honum þá missti ég takið. Fiskurinn braut stöngina og sleit úr sér Copper Johninn sem var aftur orðinn boginn. Við Hlynur vorum báðir búnir að koma við hann og vorum sammála um að þetta hefði verið 85 til 88 sentímetra fiskur.“

Hanni viðurkennir að á þessum tímapunkti hafi góð ráð verið dýr. Hann sagði við Hlyn að þeir skyldu vera alveg slakir og renna heim í veiðihús og sækja Sage veiðistöngina og hjólið sem hann hafði keypt í fyrra en aldrei notað. Það verður úr og aftur mættu þeir gallvaskir í Villann.

„Ég var vopnaður nýju Sage stönginni og beygði Copper John púpuna aftur með tönginni. Ég veit að þetta er ótrúleg saga en gaman að deila þessu. En höfum það á hreinu að stöngin var einhenda fyrir línu sjö.“

Þeir skiptu með sér verkum. Hlynur fór efst í veiðistaðinn og Hanni neðst, en Villinn er mjög stór staður og leikur einn að veiða þar á tvær stangir. „Ég ákvað með sjálfum mér að veiða þetta andstreymis. Ná flugunni niður með kantinum, sem ég og gerði. Ég fékk strax viðbragð og sá stóran svartan skugga á hreyfingu. Já, okei hann er þarna. Og ég fann strax að þetta var stærri gerðin. Fiskurinn rauk niður og ætlaði að fara á milli eyjanna eins og þeir gera stundum þarna. Ég tók fast á honum og náði honum inn fyrir eyju tvö og náði að lempa hann í smá stund en þá tók hann aðra roku og nú langt niður á undirlínu. Ég bölvaði hressilega en þetta hafðist og eftir rúman hálftíma landaði ég 93ja sentímetra hrygnu. Strandaði henni og það var enginn háfur. Mér finnst það algert bjútí að vera ekki með háf heldur taka þetta alla leið og ekki vera að háfa eins og einhver vitleysingur. Ég vil fá allt út úr þessu.“

Eftir að hrygnunni var sleppt settust mágarnir í brekkuna og þurftu aðeins að meðtaka þessu mögnuðu veiði. Kaffisopi og kex. Þarna var hálftími eftir og þeir ákváðu að taka eitt rennsli í viðbót. Með þá ákvörðun að leiðarljósi stilltu þeir sér aftur upp.

Og svo kom sá stærsti. 94 sentímetra hængur. Þrennan fullkomnuð …
Og svo kom sá stærsti. 94 sentímetra hængur. Þrennan fullkomnuð og allir úr Villanum. Ljósmynd/Hlynur Jensson

„Eftir svona fimm eða sex köst þá bara BANG. Aftur taka og þá byrjaði bardagi dauðans og það reyndist vera hængurinn. Hann stökk fyrst sex sinnum og tók svo strauið og ætlaði út fyrir eyjar eins og þeir gera þarna, sérstaklega þeir stóru. Ég sagði við Hlyn að ég yrði bara að taka á honum, hvort sem hann færi eða ekki. Eftir fjörutíu mínútna bardaga lá þessi líka gullfallegi hængur á bakkanum. 94 sentímetrar.“

Þetta eru tveir stærstu birtingar sem hafa veiðst í haust, í það minnsta sem Sporðaköst vita um.

„Já og menn vilja meina það að þessi sería 94, 93 og þessi 85 til 88, sé algert Íslandsmet í sjóbirtingsveiði. Stærsta laxahrygna sem ég hef veitt var 93 sentímetra sem ég fékk í Hofsá í Vopnafirði. Ég er enn með gæsahúð í litla skrokknum þegar ég hugsa um þetta,“ segir Hanni og dæsir af vellíðan og ánægju.

Hlynur Jensson með þennan líka flotta birting úr Hundavaði í …
Hlynur Jensson með þennan líka flotta birting úr Hundavaði í Eldvatni. Glænýr og fallegt eintak. Ljósmynd/Hannes Gústafsson

„Svo var svo gaman að upplifa þetta með veiðifélögum sínum til svo margra ára. Menn samfögnuðu með mér og þeir voru svo yndislegir. Kristján Geir, Bjartur Ari og Gunnar faðir Kristjáns. Þeir hafa aldrei áður séð svona veiði. Svo var svo gaman að Hlynur veiðifélagi minn til þriggja áratuga var með mér í þessu. Yndislegir drengir allir saman,“ segir Hanni og er hættur að vera harður. Frekar svolítið meyr. Hann hristir það hratt af sér.

„Strákarnir segja að þetta sé heimsmet í sjóbirtingsveiði. Ég held að það sé rétt hjá þeim. Af því að þetta er Ólympíuár benti ég þeim á að kalla mig frekar Ólympíumeistara og það væri þá fyrsta gull Vestmannaeyja og Íslands,“ hlær Hanni.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert