Selá yfir þúsund – Met í Jöklu

Daði Þorsteinsson með þúsundasta laxinn úr Selá. Hilmir Víglundsson er …
Daði Þorsteinsson með þúsundasta laxinn úr Selá. Hilmir Víglundsson er kátur enda glæsilegur lax úr Bjarnarhyl sem markaði þessi tímamót. Ljósmynd/Stefán Hrafnsson

Það sem af er veiðitímabilinu hafa sex laxveiðisvæði gefið meira en þúsund laxa og ljóst að þeim á eftir að fjölga. Þannig var Selá í Vopnafirði nýlega að bóka þúsundasta laxinn og er það heldur fyrr en í fyrra. Samt átti Selá ágætt sumar 2023. 

Þúsundasti laxinn sem veiddist í Selá í sumar kom í hlut Daða Þorsteinssonar og með honum var reynsluboltinn Hilmir Víglundsson sem er án efa einn af reyndustu Selármönnum á lífi í dag. Stefán Hrafnsson var leiðsögumaðurinn þeirra. Við Bjarnarhyl var því mikil uppsöfnuð veiðireynsla þegar Daði setti undir White wing númer tólf. Þeir voru klókir, eða reynslan talaði sínu máli. Þeir byrjuðu neðarlega í hylnum þar sem stærri laxinn heldur sig gjarnan. Stórhættulegt er að kasta efst í Bjarnarhyl. Þá er veiðimaður fljótur að setja í tvo smálaxa og reglan í Selá er sú að einungis má veiða tvo laxa í sama hyl. Daði byrjaði því neðarlega. Fljótlega velti gerðarlegur lax sér yfir fluguna og var á. Þegar upp var staðið reyndist þetta 85 sentímetra hrygna sem reyndist þúsundasti laxinn í Selá í sumar. 

Jóhann Gunnar Arnarsson, eða Jói „bötler“ veitingastjóri í Selá beið ekki boðanna. Hann reif upp pönnukökuuppskriftina sem hann hefur notað þegar þörf er á slíku góðgæti á Bessastöðum. Daði Þorsteinsson og Hilmir Víglundsson hafa báðir staðfest að pönnukökurnar frá „bötlernum,“ bæði upprúllaðar með sykri og ekki síður rjómapönnukökurnar hafi verið hnossgæti. Pönnukökubakstur til að halda upp á merkislaxa er góður og þjóðlegur siður og hefur breiðst út milli veiðihúsa. Hvað er betra en að bjóða upp á pönnukökur við merkisatburði? Ein ábending frá Sporðaköstum. Þær þurfa helst að vera volgar þegar þær eru bornar fram. Allavega þessar upprúlluðu. Þá skora menn tíu af tíu mögulegum. 

Þau svæði sem þegar eru komin yfir þúsund laxa eru, Þverá/Kjarará, Miðfjarðará, Norðurá, Selá og svo auðvitað báðar Rangárnar. Afar líklegt er að í þennan hóp bætist Langá og Jökla sem sló met í veiði í gær. Nú hafa veiðst þar 816 laxar og töluvert er eftir af veiðitímanum. Besta skráða veiði í Jöklu til þessa var sumarið 2015 þegar hún gaf 815 laxa.

Jökla komst í 816 laxa í gær. Þar með er …
Jökla komst í 816 laxa í gær. Þar með er staðfest metveiði í henni. 815 var mesta veiði sem hún hafði gefið og var það sumarið 2015. Þröstur Elliðason leigutaki fylgist grannt með stöðu Hálslóns og nú stefnir í yfirfall um miðjan september. Ljósmynd/Þröstur Elliðason

Hvort Jökla nær fjögurra stafa tölu í fyrsta skipti er eins og að fylgjast með spennutrylli. Annars vegar er það Þröstur Elliðason, leigutaki sem fylgist grannt með stöðu Hálslóns í þeirri von að yfirborð þess hækki ekki hratt. Hins vegar eru það Landsvirkjunarmenn sem gera allt sem þeir geta til að tryggja góða stöðu lónsins. Nú eru horfur þær að Landsvirkjun nái þessu markmiði sínu um miðjan september. Mikil aukning vatns í lóninu síðustu daga er eitthvað sem fær hárin á höfði Þrastar til að rísa. Landsvirkjunarmenn gleðjast hins vegar, eðlilega þar sem hinn títt nefndi orkuskortur hefur verið yfirvofandi síðustu misseri. Komi til yfirfalls mun það eins og flestir veiðimenn þekkja gera Jöklu óveiðandi og þá fer veiðin fyrst og fremst fram í hliðarám hennar. Hins vegar komu svo nýjar tölur í morgun yfir rennsli og þá eru allt eins líkur á að ekki komi til yfirfalls. Það er ljóst að bæði Þröstur og Landsvikjunarmenn eru stöðugt á „refresh“ takkanum og upplifa ólíkar tilfinningar þegar breytingar sjást á stöðunni.

Lax númer 816 sem veiddist í Jöklu í gær var 90 sentímetra hrygna, nýgengin, að sögn Þrastar. Gott hlutfall af stórlaxi hefur verið í aflanum síðustu daga og nokkrir lúsugir laxar, þannig að hann er enn að ganga fyrir austan. „Já. Er þetta staðfest?“ spurði Þröstur á móti þegar Sporðaköst óskuðu honum til hamingju með metið. „Ég var ekki með gögnin fyrir framan mig. Þetta þýðir bara eitt. Við opnum kampavín í kvöld,“ sagði hann kátur.

Afar líklegt verður að teljast að Hofsá í Vopnafirði nái að fara yfir þúsund laxa annað árið í röð. Hún stendur nú í 784 löxum og hafa tveir síðustu dagar gefið 33 laxa. Það yrði þriðja árið í röð sem hún gefur meira en þúsund laxa, eftir átta ára lægð þar á undan.

Einungis fimm laxveiðiár gáfu meira en þúsund laxa í fyrra. Það voru Miðfjarðará, Þverá/Kjarará, Selá og Hofsá í Vopnafirði og Norðurá. Báðar Rangárnar fóru vel yfir þá tölu og gott betur. 

Langá á Mýrum stefnir hraðbyri í að ná þúsund löxum. Stóð í gærkvöldi í ríflega níu hundruð fiskum og síðustu þrír dagar hafa gefið 35 laxa. Það verður því að teljast nánast öruggt að hún nái fjögurra stafa tölu.

Svo eru það árnar sem þekktar eru fyrir góða haustveiði, eins og Laxá í Dölum og Laxá í Kjós svo einhverjar sé nefndar. Þær eiga báðar langt í land með að ná þúsund löxum en september er oft sterkasti mánuðurinn í veiði í þessum ám. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert