Veðurguðirnir ekki bara til bölvunar

Hann er á í Núpsá í Miðfirði. Auðvitað er rigning. …
Hann er á í Núpsá í Miðfirði. Auðvitað er rigning. Miðfjarðará hefur gefið tvöfalda veiði á við sama tíma í fyrra. Hún er komin yfir 1.700 laxa en 23. ágúst í fyrra var hún í 898 löxum. Ljósmynd/Sporðaköst

Veðurguðirnir virðast hafa gleymt Íslandi þegar kom að því að uppfæra vor í sumar. Vonin um sólríkt og hlýtt sumar varð að engu. Margir bölva þessu ástandi en þó má finna jákvæða hluti þrátt fyrir allt. Vatn í öllum laxveiðiám hefur verið gott og jafnvel mikið á köflum. Þessi góða vatnsstaða hefur jákvæð áhrif á veiðina og reynsluboltinn Ásgeir Heiðar sagði nýlega í samtali við Sporðaköst að hann hefði aldrei á sínum ferli upplifað jafn góðar aðstæður til laxveiða eins og í sumar. Var hann þar að vísa til þeirrar drjúgmiklu rigningar sem landsmenn hafa búið við. Fátt er eftirsóknarverðara en að koma að vatnsmikilli laxveiðiá sem er að sjatna eftir góða rigningu. Víst er að Laxá í Dölum og Stóra Laxá hafa svo sannarlega notið góðs af þessari veðráttu eins og sjá má á listanum hér að neðan yfir veiðina í helstu laxveiðiánum.

Í Ytri–Rangá hefur verið stöðug og góð veiði síðustu vikur. Hún gaf tæplega fjögur hundruð laxa í síðustu viku og er það fjórða vikan í röð þar sem hún er með fjögur hundruð laxa eða meira.

Miðfjarðará fór yfir tvö hundruð laxa í síðustu viku og Þverá/Kjarará var með 175 laxa. Selá og Hofsá fóru einnig vel yfir hundrað laxa og eru á svipuðu róli og í fyrra, sem var gott ár fyrir austan.

Finnur Harðarson leigutaki og landeigandi að Stóru Laxá hefur góða …
Finnur Harðarson leigutaki og landeigandi að Stóru Laxá hefur góða ástæðu til að brosa. Í fyrra voru komnir á land 192 laxar úr Stóru Laxá 23. ágúst. Í dag stendur hún í 460 löxum. Gott og mikið vatn skiptir öllu máli í Stóru. Ljósmynd/Stóra Laxá

Þá er gaman að bera saman stöðuna í Langá og Jöklu miðað við veiðina á sama tíma í fyrra. Laxá í Dölum toppar þó allar hinar í aukningu milli ára. 23. ágúst í fyrra höfðu veiðst 208 laxar í henni. Nú er komin í 737. Þá komum við að upphafsorðum þessarar fréttar. Laxá hefur notið góðs af úrkomuörlæti veðurguðanna og laxinn gengið upp í Laxá hindrunarlítið og ekki þurft að bíða haustrigninga. Þær hafa verið í allt sumar. Viðbúið er því að haustveiðin verði minni en oft áður. Hins vegar er veiðin nú þegar orðin meiri en í allt fyrrasumar og afar líklegt að þetta verði besta veiðisumar í Dölunum frá 2018.

Meirihluti þeirra vatnasvæða sem eru á listanum eru þegar búin að skila meiri veiði en allt árið í fyrra. Þau svæði sem ekki hafa þegar toppað 2023 eiga stutt í það eða munu gera það vel fyrir lok veiðitímans.

Langt er síðan að jafn illa hefur gengið að selja veiðileyfi á Íslandi og fyrir þetta veiðisumar. Gildir þá einu hvort var um að ræða erlenda veiðimenn eða íslenska. Þetta sumar mun án efa gera það að verkum að fleiri verða tilbúnir til að kaupa leyfi næsta sumar. Vissulega mun þó skipta máli að verðin haldi ekki áfram að hækka með þeim hætti sem verið hefur undanfarin ár.

Hér er listi yfir tuttugu og tvær efstu árnar. Listinn er nú farinn að taka á sig afgerandi mynd og veiðin víðast hvar betri en á sama tíma í fyrra. Í nokkrum ám er hún mun betri, jafnvel miklu betri. Fyrsti dálkurinn er talan í viðkomandi á í lok dags, 21. ágúst. Dálkur tvö, veiðin í fyrra segir til um hver talan var í loks dags 23. ágúst í fyrra. Þriðji dálkurinn er svo veiðin vikuna 14. til 21. ágúst, samkvæmt tölum frá angling.is sem er vefur Landssambands veiðifélaga. Fjórði og síðasti dálkurinn segir til um prósentubreytingu milli ára miðað við 23. ágúst 2023 þar sem þær upplýsingar eru fáanlegar.  

Vatnasvæði          Í sumar          2023          Vikuveiðin    Breyting í %

Ytri–Rangá            2536             2159                398               --  

Þverá/Kjarará        1909              983                 175             95%

Miðfjarðará           1701               898                 213            98%

Norðurá                1384               773                  94             78% 

Eystri–Rangá         1254             1584                 137               --

Selá í Vopnafirði     1037               951                142            12%

Langá á Mýrum       913               477                  73             94%

Jökla                      843               437                  90             96%

Hofsá                     801               847                 129             -3%

Laxá á Ásum           771              515                   57               --

Laxá í Dölum          737               208                   83              --

Urriðafoss               719*             661                   --               --

Grímsá                   702                378                 77               --

Haffjarðará             702                789                 77               --

Elliðaár                  690                 470                53              50%

Laxá í Aðaldal         651                 504                67              29%

Víðidalsá                593                 422                 42              49%

Laxá í Kjós             591                 245                 39             115%

Laxá í Leirársveit     585                  274                48              --

Vatnsdalsá             491                  258                46               --

Stóra Laxá             451                  192                46               --

Við skoðum fleiri ár á morgun og hvernig veiðin hefur gengið í þeim í sumar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.
100 cm Laxá í Aðaldal Björgvin Krauni Viðarsson 9. ágúst 9.8.
101 cm Víðidalsá N/A 30. júlí 30.7.
100 cm Mýrarkvísl Tim Racie 23. júlí 23.7.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert