Veiðin í minni laxveiðiánum skiptist í tvö horn. Margar þeirra hafa gefið mun betri veiði en á sama tíma í fyrra á meðan að aðrar eru að eiga erfitt ár. Hér að neðan má sjá stöðuna í 28 laxveiðiám, samanborið við veiðina í fyrra. Átján þeirra eru með betri veiði en var raunin síðasta sumar.
Nokkrar ár skera sig úr hvað varðar aukningu. Mýrarkvísl gaf bestu veiðina, af þessum ám í síðustu viku eða fimmtíu laxa. Þar höfðu veiðst 250 laxar að kvöldi miðvikudags, þegar stöðutakan fór fram. Á sama tíma í fyrra voru 110 laxar bókaðir. Þetta er mögnuð aukning og ekki síst í ljósi þess að Mýrarkvíslin er öflug síðsumarsár. Lokatalan í henni í fyrra var 283 laxar. Sumarið 2022 fór hún í 272 laxa. Hún mun líkast til toppa þessar tölur fyrir mánaðamót og þá er allur september eftir.
Við höfum áður minnst á Andakílsá sem hefur verið mjög góð í sumar. Hún er löngu komin yfir heildarveiði síðasta árs, sem var reyndar lélegt sumar í Andakílnum. Hins vegar stefnir í að hún fari yfir töluna frá 2022 sem ágætt ár þar.
Hrútafjarðará er einnig á flugi miðað við síðasta ár. Það var reyndar eitt versta ár sem hún hefur átt og skilaði ekki nema 185 löxum. Hún er nú komin yfir þrjú hundruð laxa. Sveiflur í Hrútafjarðará eru afar miklar og hefur hún gefið veiði upp á 860 laxa sumarið 2015 en farið niður í 126 laxa í byrjun aldarinnar. Nú er gott ár í Hrútu og september oft sterkur þar.
Svo er það hin hliðin á peningnum. Árnar sem ekki eru að standa undir nafni þetta sumarið. Sá listi er mun styttri. Blanda má muna sinn fífil fegurri og hefur ekki gefið nema 283 laxa í sumar. Sveiflur í henni eru raunar líka miklar eins og í Hrútafjarðará.
Leirvogsá, Fnjóská og Affallið eru allar langt undir samanburðartölum frá því í fyrra. Sérstaklega vekur Affallið upp spurningar en vikuveiðin þar var ekki nema sjö laxar og er veiðin aðeins brot af því sem hún var í fyrra. Nú eru komnir á land 42 laxar en voru 146 um svipað leiti í fyrra.
Veiðitölurnar miðast við veiði að loknum veiðidegi 21. ágúst. Dálkur tvö er veiði í þessum ám á sama tíma í fyrra. Raunar munar tveimur dögum því angling.is birtir alltaf tölur á fimmtudögum og það bar upp á 23. ágúst í fyrra. Allar þessar ár eiga því tvo daga inni. Þriðji dálkurinn er svo fjöldi veiddra laxa vikuna 14. – 21. ágúst. Síðasti dálkurinn segir til um prósentubreytingu milli ára, þar sem sú tala er tiltæk.
Vatnasvæði Veiddir laxar 2023 Vikan Breyting %
Svalbarðsá 335 252 27 --
Skjálfandafljót 317 -- 45 --
Andakílsá 316 106 17 --
Haukadalsá 305 201 24 53%
Sandá í Þistilfirði 305 257 33 21%
Hrútafjarðará 299 78 44 291%
Flókadalsá 285 164 25 --
Blanda 283 353 12 -21%
Hítará 280 244 20 -2%
Miðfjarðará í Bakkaf. 273 178 26 54%
Hólsá Austurbakki 251 364 14 --
Mýrarkvísl 250 110 50 --
Straumfjarðará 235 194 23 23%
Hafralónsá 219 252 22 -13%
Brennan 195 121 9 59%
Leirvogsá 184 248 13 -24%
Úlfarsá (Korpa) 180 122 16 55%
Straumar 164 87 7 91%
Miðá í Dölum 153 73 13 107%
Flekkudalsá 123 -- 3 --
Fnjóská 122 228 23 --
Gljúfurá í Borgarf. 119 79 8 --
Skuggi 77 67 1 --
Laugardalsá 71 -- 11 --
Fljótaá 58 86 19 -29%
Svartá í Húnavatnss. 56 65 4 -1%
Affall 42 146 7 --
Þverá í Fljótshlíð * 38 23 17 --
Þar með er tæmdur listinn sem angling.is birti í gær. Misjafnt er hvað er til af gögnum yfir þær ár sem eru neðarlega á listanum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |