Stórtenórinn Elmar Gilbertsson setti í og landaði fallegum laxi í Laxá í Dölum seinnipartinn í gær. Ekki ýkja merkilegt, en þegar betur var gáð reyndist þessi lax þúsundasti laxinn í sumar. Það var því tenórinn sem smellti Daladrottningunni í fjögurra stafa tölu.
Hollið sem hefur verið að veiðum síðustu daga hafði sett sér það markmið að ná Laxá í fjögurra stafa tölu og var ekki laust við að nokkur keppnisandi hafi einkennt stemminguna þegar menn hófu veiðar á fimmtudag. Hollið var undir stjórn og forystu heimamanns sem jafnframt er einn af leiðsögumönnum við ána. Það er lögreglumaðurinn Skjöldur Skjaldarson, en félagar hans kalla hann gjarnan Leiðsögumanninn, með stóru elli.
Það eru ár og dagar síðan Laxá í Dölum náði þúsund löxum í ágúst, þó svo að það hafi verið síðasti dagur mánaðarins. Spennandi verður að sjá hver lokatalan verður í sumar því á árum áður þegar Laxá náði þessum áfanga var leyft að drepa þann fisk sem veiddist. Nú er búið að sleppa nánast öllum laxi sem veiðst hefur. Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur sem sérstaklega þekkir til á Vesturlandi og þar með í Dölunum hefur sagt að þegar aðstæður væru réttar gætu Dalirnir farið í tvö þúsund laxa. Hæpið er að það gangi eftir í ár en staðan er góð.
September hefur oft verið besti mánuður í Laxá í Dölum. Í fyrra var áin í 330 löxum á þessum tíma. Aukningin er því gríðarleg milli ára.
Stutt er í að Jökla nái þessum sama áfanga og gera má ráð fyrir því að Hofsá fari líka yfir þúsund laxa þegar líður nær hausti.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |