Nú raðast þeir inn stórlaxarnir

Stefán Elí Stefánsson með 101 sentímetra hænginn úr Dalsárósi í …
Stefán Elí Stefánsson með 101 sentímetra hænginn úr Dalsárósi í Víðidalsá í morgun. Tími þeirra stóru er runninn upp. Ljósmynd/Ívar Bragason

Stórlaxatíminn er runninn upp. Þessi tími, þegar haustið læðist að er oft kallað krókódílatími. Stóri hængurinn er orðinn árásárgjarni og ver sitt svæði af hörku. Þá eru flugur veiðimanna meira áreiti en áður. 101 sentímetra fiskur veiddist áðan í Dalsárósi í Víðidalsá, en þar hafa margir af þeim allra stærstu átt lögheimili í gegnum áratugina.

Annar slíkur veiddist í Kjarará í fyrradag á veiðistaðnum með magnaða nafninu, Hellgate. Sá var mældur 101 sentímeter. Jafn stórum fiski var landað í Þórunnarhyl 29. ágúst.

Tónlistarmenn hafa verið áberandi við veiðar í sumar og ekki síst blásturshljóðfæraleikarar þegar kemur að stórlöxum. Ásgeir Steingrímsson, trompetleikari upplifði ævintýri í Hofsá í gær þegar hann landaði stærsta laxi sumarsins til þessa í ánni. En byrjum á Dalsárósi.

Stefán Elí Stefánsson var ásamt Ívari Bragasyni, einum öflugasta leiðsögumanni árinnar í sumar á svæði eitt. Þeir komu að Dalsárósi og Guðjón, félagi Stefáns tók fyrsta rennslið. Áttatíu sentímetra hrygna tók nánast strax og var landað og sleppt. Þá var komið að Stefáni sem hefur kynnst nokkrum löxum í yfirstærð í gegnum tíðina. „Við vorum búnir að vera eingöngu í smáflugum og ákváðum að taka þetta aðeins undir yfirborðið. Blá Metallica kvart tommu túba með litlum kón. Við völdum þessa í sameiningu og það var bara í fimmta eða sjötta kasti sem þessi tók fyrir miðjum hyl,“ upplýsti Stefán í samtali við Sporðaköst skömmu eftir að búið var að landa og sleppa höfðingjanum.

Viðureignin var tíðindalítil og tók ekki nema um fimmtán mínútur. Oft streða laxar af þessari stærð yfir í bakkann í landinu fjær og þá getur voðinn verið vís en Stefán spilaði leikinn af yfirvegun og reynsla hans kom að góðum notum. Laxinum var svo strandað og teknar myndir eins og ber að gera með laxa af þessari stærð. Málbandsmyndir og vídeó voru send til staðfestingar. Veiðin hafði verið fremur róleg hjá þeim félögum en aðstæður í morgun upp á tíu sagði Ívar Bragason leiðsögumaður í samtali við Sporðaköst. „Þetta er ekki búið. Við erum að færa okkur á efri hlutann og eigum þar spennandi staði,“ upplýsti hann ánægður með þessa byrjun.

Stærsti laxinn úr Hofsá til þessa í sumar. Ásgeir Steingrímsson …
Stærsti laxinn úr Hofsá til þessa í sumar. Ásgeir Steingrímsson leitaði í reynslubankann úr Aðaldalnum og það gafst vel. Langahvammshylur eða Cambus uppi á efsta svæði, geymdi stórlaxinn. Ljósmynd/Ásgeir Steingrímsson

Allir steinar í Hofsá sleipir og ávalir

Hofsárævintýrið sem vitnað er til hér að ofan átti sér stað í gær í veiðistaðnum Langahvammshyl. Fram til þessa var stærsti laxinn 97 sentímetrar og veiddist hann 11. ágúst í Kúttneshyl. Ásgeir Steingrímsson og félagi hans komu að Langahvammshyl og þá leitaði Ásgeir í reynslubankann úr Aðaldal. „Það skein upp og var komin glampandi sól og blár himinn. Þá dettur mér nú alltaf í hug Laxá blá. Góðviðrisfluga. Ég fór að leiðbeiningum og óð út í til að geta kastað á þá steina sem lax leggst gjarnan við. Þarna er erfitt að vaða og allir steinar í Hofsá eru ávalir og sleipir,“ hlær trompetleikarinn.

Hann varð strax var við fisk, en sá lax reif í fluguna en sat ekki í honum. Ásgeir vissi sem er að hann myndi ekki koma aftur. Hann kom sér aðeins lengra út og nokkru neðar til að ná góðu reki á stein sem er á kafi, nokkru neðar. „Við sáum þegar stór lax kom á fleygiferð og hrifsaði fluguna. Ég var rólegur aldrei þessu vant og hann tók og festist á.  Flugan var öfugu megin í honum, sáum við síðar. Hann hefði átt að fara frá mér og flugan að sitja í hægra kjaftviki en af því að það var steinn fyrir þannig að hann sneri að mér og flugan var í raun öfugu megin í honum allan tímann. Hefði ég vitað það strax þá hefði ég verið stressaðri í viðureigninni. En það útskýrir það að í tvígang hélt ég að hann væri búinn og sneri upp kviðnum en þá hef ég togað svo fast í hann að hann hefur rúllað á bakið af því að flugan sat hinu megin í honum.“

Laxinn stökk ekki en þeir sáu hann vel í yfirborðinu og áttuðu sig á að þetta væri mjög stór fiskur. Mögulega hundrað sentímetrar. Ásgeir vissi að mjög stór lax hafði tapast á þessum stað fyrr í sumar. Sá hafði farið fyrir stein og tekið út alla línu veiðimannsins og krókarnir réttust upp og laxinn fór sína leið. „Svo rauk hann niður og fyrir stein og ég mundi gamalt ráð af Mjósundi í Aðaldalnum. Þegar þeir ætla fram af þá er ráð að gefa allt slakt og þá stoppa þeir. Það gekk eftir og hann stoppaði en svo stökk hann fimmtíu metrum neðar en við áttum von á. Þá náði ég að vaða að steininum og línan losnaði. Þá var ég þakklátur fyrir að steinarnir í Hofsá eru ávalir og sleipir og því línan rann yfir steininn og ég náði aftur beinu sambandi við hann.“

Á þessum tímapunkti var viðureignin orðin tvísýn. Laxinn var kominn niður eina hundrað og fimmtíu metra frá tökustaðnum og við blöstu flúðir og stórgrýti. „Ég vissi að ef hann næði þangað, þá væri leikurinn tapaður. Hann ætlaði þangað en ég tók hraustlega á honum og náði honum til baka. Þarna vorum við báðir orðnir nokkuð þreyttir. Ég náði að teyma hann upp og þá jókst okkur bjartsýni á nýjan leik og við á endanum náðum að háfa hann eftir smá áhættuatriði við háfinn,“ brosir Ásgeir.

Eins og hjá Duplantis hinum sænska 

Laxinn var mældur 99 sentímetrar og hefur ekki sést mikið af þeirri stærð síðustu ár. Ásgeir segir að fiskurinn hafi verið mjög þykkur en þeir gleymdu að mæla ummálið á honum. Eins og fyrr segir er þetta stærsti lax úr Hofsá til þessa í sumar og jafnframt sá stærsti sem Ásgeir hefur veitt á flugu á sínum ferli. „Þetta var mikil hamingja. Hann náði ekkimeter. Ég hugsaði með mér að ég myndi bara hafa þetta eins og sænski stangastökkvarinn,Duplantis. Ég hækka bara um einnsentímeter í einu. Stærsti flugulaxinn minn til þessa var 98. Ágætt að hækka bara um einn og þá á égmeterinn eftir.“

Stórlaxinn úr Þórunnarhyl í Þverá/Kjarará, áður Kjarrá. Þessi tók Frances …
Stórlaxinn úr Þórunnarhyl í Þverá/Kjarará, áður Kjarrá. Þessi tók Frances rauða. Sambærilegur fiskur veiddist í Hellgate í Kjarará. Báðir mældir 101 sentímeter. Ljósmynd/Starir

Framundan er tími þeirra stærstu. Til að fiskur fáist skráður á hundraðkallalistann þarf að senda staðfestingu á Sporðaköst og ljósmynd sem sýnir mælinguna.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert