Átta ár komnar yfir þúsund laxa í sumar

Menn hafa glaðst yfir minni fiskum en þessum. Ragnar Atli …
Menn hafa glaðst yfir minni fiskum en þessum. Ragnar Atli Tómasson var hæst ánægður með þennan 90 sentímetra hæng sem hann fékk í Langhyl í Laxá á Ásum, á rauðan Frances. Ásarnir fara líkast til yfir þúsund laxa í sumar. Ljósmynd/Theodór K. Erlingsson

Átta laxveiðiár á landinu hafa náð fjögurra stafa tölu og útlit er fyrir tvær til þrjár bætist í þann hóp. Þá eru þrjár ár komnar yfir tvö þúsund laxa. Svona góð veiði hefur ekki sést á Íslandi frá sumrinu 2018.

Þær ár sem komnar eru yfir þúsund laxa eru, Ytri– og Eystri-Rangá sem byggja alfarið á seiðasleppingum. Svo eru það Þverá/Kjarará, Miðfjarðará, Norðurá, Selá, Laxá í Dölum og Langá. Þær ár sem munu ná þúsund laxa markinu á næstu dögum og vikum eru, Jökla, Hofsá og ef að líkum lætur Laxá á Ásum en hún fór síðast í þúsund laxa sumarið 2017.

Þessi langþráða aukning í veiði er tvíeggjað sverð. Sala til útlendinga og annarra sem halda uppi dýrasta tímanum í bestu veiðiánum, var orðin verulega erfið. Langt er síðan að lausar stangir voru í flestum ám á landinu á besta tíma, þegar veiðisumarið hófst. Íslenskir veiðimenn sáu jafnvel fyrir sér verðlækkanir og þar með möguleika á að komast í betri veiði fyrir lægri upphæðir. Þær vonir eru að engu orðnar. Íslensk laxveiði mun seljast vel í vetur og ekki síst meðal erlendra veiðimanna. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Gott veiðisumar nú er ávísun á meiri áhuga. Veiðimenn eru jú oftast að kaupa veiði síðasta árs. Noregur er í mikilli óvissu og vandséð að veiðifólk sé að greiða inn á stangir þar þegar óvíst er hvort árnar verða opnar fyrir veiðimönnum. Rússland er lokað og veiði í Skotlandi hefur ekki verið upp á marga fiska. Ísland er síðasta vígið þegar kemur að Atlantshafslaxi, eins og staðan er núna. Vissulega kann það að breytast en þetta er staðan eins og hún blasir við fyrir sumarið 2025.

Hinn hefðbundni íslenski launamaður mun því halda áfram að sækjast eftir vor og haust veiði þegar leyfin eru ekki í hæstu hæðum.

Lax á í Bugðufossi í gær í Kjósinni. 24 laxar …
Lax á í Bugðufossi í gær í Kjósinni. 24 laxar komu á land þar í gær. Mikið vatn er í Laxá í Kjós og spennandi dagar gætu verið framundan hjá veiðimönnum sem verða þar á næstunni. Ljósmynd/Laxá í Kjós

Smálaxinn mætti loksins í einhverju magni og hefur haldið uppi veiðinni og stefnir í bestu laxveiði hér á landi frá árinu 2018.

Laxá á Ásum stendur í 888 löxum og telja verður líklegt að hún fari yfir þúsund laxa sem gerðist síðast árið 2017. Nóg magn af laxi er í Ásunum. Líklegra er að veðurguðirnir hafi mestu áhrifin á hvort að þúsund laxa markinu verður náð. Jökla mun ná þessu sama marki á næstu dögum. Er nú í 968 löxum eftir fjórtán fiska dag í gær. Svipuð staða er uppi í Hofsá sem væntanlega fer í þúsund laxa fyrir miðjan mánuðinn.

Besta vikuveiðin var í báðum Rangánum en Miðfjarðará gaf 159 laxa og hefur veiðin þar í sumar verið afbragðsgóð. Þverá/Kjarará fór yfir laxa í vikunni, eins og Selá í Vopnafirði.

Hér er listi yfir tuttugu og tvær efstu árnar. Fyrsti dálkurinn er talan í viðkomandi á í lok dags, 4. september. Dálkur tvö, veiðin í fyrra segir til um hver talan var í loks dags 6. september í fyrra. Þriðji dálkurinn er svo veiðin vikuna 28. ágúst til 4. september, samkvæmt tölum frá angling.is sem er vefur Landssambands veiðifélaga. Fjórði og síðasti dálkurinn segir til um prósentubreytingu milli ára miðað við 4. september 2023 þar sem þær upplýsingar eru fáanlegar.  

Vatnasvæði          Í sumar          2023          Vikuveiðin    Breyting í %

Ytri–Rangá            3084             2571                218               --  

Þverá/Kjarará        2108             1169                110             85%

Miðfjarðará            2055             1089               159             94%

Norðurá                1555               961                  95             67% 

Eystri–Rangá         1547             1874                145               --

Selá í Vopnafirði     1264             1138                114            12%

Langá á Mýrum      1084              528                  74            108%

Laxá í Dölum          1032              390                  84              --

Jökla                      968               450                  52            119%

Hofsá                     931               959                  74             -3%

Laxá á Ásum           888               597                  68               --

Elliðaár                   836               568                 76             50%

Grímsá                   802                492                 51               --

Haffjarðará             782                905                 38               --

Laxá í Aðaldal         738                 595                24              26%

Urriðafoss              719*               701                  --               --

Víðidalsá                713                 529                 69              43%

Laxá í Kjós             666                 340                 52              91%

Laxá í Leirársveit    645                 374                 40               --

Vatnsdalsá             563                 314                 39               --

Stóra Laxá             561                 256                 61               --

Við skoðum fleiri ár á morgun og hvernig veiðin hefur gengið í þeim í sumar.

*Tala frá 24. júlí.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert