„Betra en bjartsýnustu menn áttu von á“

Þröstur Elliðason og Þorvaldur P. Hjarðar takast í hendur í …
Þröstur Elliðason og Þorvaldur P. Hjarðar takast í hendur í morgun og samgleðjast yfir þeim merkisáfanga að Jökla hefur gefið þúsund laxa. Ljósmynd/Strengir

Jöklan hans Þrastar Elliðasonar fór í þúsund laxa í morgun. „Já þetta er sögulegur áfangi. Það hefði nú enginn trúað því þegar lagt var upp með þetta að þessi áfangi myndi nást. Menn voru jafnvel efins um að það myndi nokkurn tíma veiðast lax í Jöklu,“ sagði Þorvaldur P. Hjarðar formaður veiðifélags Jökulsár á Dal þegar Sporðköst óskuðu honum til hamingju með áfangann.

Þúsundasti laxinn veiddist í morgun og var þar að verki Guðrún Smáradóttir. Hún veiddi merkislaxinn í veiðistaðnum Arnarmel og reyndist það vera sextíu sentímetra hængur sem tók rauða Frances. Í gærkvöldi var Jökla rétt sunnan við þúsund laxa markið og því var Guðrún Friðriksdóttir ráðskona í veiðihúsinu með allt klárt í pönnukökubakstur þegar leið á morguninn. 

Lax númer þúsund úr Jöklu. Guðrún Smáradóttir veiddi hann í …
Lax númer þúsund úr Jöklu. Guðrún Smáradóttir veiddi hann í morgun í Arnarmel. Besta veiði til þessa í Jöklu hefur verið 815 laxar. Ljósmynd/Guðrún Smáradóttir

Fram til þessa sumars var besta veiðin í Jöklu 815 laxar, en saga Jöklu er mörkuð nábýlinu við Hálslón. Búast má við yfirfalli úr lóninu þegar líður á sumar og þá verður Jökla sjálf óveiðanleg og tekur á sig fyrri mynd, að hluta. Í sumar hefur yfirfall ekki verið í kortunum. Þröstur Elliðason fékk þá hugmynd að gera Jökulsá á Dal að laxveiðiá eftir virkjun hennar. Félagið hans Strengir er með ána á leigu og gengur hún jafnan undir nafninu Jökla.

Þorvaldur formaður gerði sér ferð í veiðihúsið og heilsaði upp á veiðifólk og Þröst Elliðason í tilefni dagsins. Var það innilegt handaband þegar þeir óskuðu hvor öðrum til hamingju með áfangann.

„Já. Þetta er eiginlega stórmerkilegt,“ sagði Þorvaldur í samtali við Sporðaköst.

Þegar þú hugsar til baka er þetta ekki hálfgert ævintýri að þessi foráttu jökulá skuli í dag vera orðin laxveiðiá eins og þær gerast bestar?

„Jú. Það er náttúrulega ekkert öðruvísi. Ég er komin núna inn í Kverkfjöll og var að horfa á upptök Jökulsár á Fjöllum og hún er nokk svipuð og Jökla var. Svona hálfgert drullufljót. Það er eðlilegt að það hafi þurft að segja það einhverjum tvisvar að Jökla yrði laxveiðiá, eins og hún var fyrir virkjun,“ upplýsti Þorvaldur.

Pönnukökurnar voru ljúffengar. Eins og gerist á bestu bæjum voru …
Pönnukökurnar voru ljúffengar. Eins og gerist á bestu bæjum voru þær volgar. Ljósmynd/Strengir

Hann sagði að nú stæði yfir búsvæðamat á vatnasvæðinu og vonast er til að það klárist á næsta ári, en það er liður í því að meta hvort og hvenær Jökla verði sjálfbær hvað varðar laxastofninn í ánni sem búið er að rækta upp.

Í upphafi þegar Þröstur Elliðason landeigendur með hugmyndir sínar leist mönnum vel á þær hugmyndir sem hann lagði fram. „Jú, jú. Mönnum leist vel á þetta og sumir trúðu því að þetta myndi ganga eftir en aðrir voru vantrúaðir, eins og er. Heilt yfir held ég að megi segja að þetta hefur gengið betur en bjartsýnustu mönnum datt í hug, ef við horfum bara kalt á þetta. Að áin myndi byggjast svona hratt upp og veiðin teygja sig yfir svona stórt svæði er eitthvað sem ég held að fáir hafi þorað að vona.“

Hvaða þýðingu hefur það fyrir ykkar samfélag að þetta verkefni hafi þróast svona vel?

„Það hefur mikla þýðingu. Það er byrjaður að síast inn smá arður og það er náttúrulega bundið við landeigendur. Eins og ástandið er í landbúnaði í dag og hér erum við á hreinræktuðu sauðfjársvæði, þannig að það veitir ekkert af smá viðbót. Þetta styrkir það sem fyrir er og veitir ekkert af.

Svo eru líka störf sem hafa orðið til og þau skipta líka máli. Ég held að í sumar hafi orðið til ein tólf störf í kringum þetta. Það þarf leiðsögumenn og það verið að elda fyrir veiðimenn og verið að sækja fólk og koma því til baka. Það er orðið mikið stúss í kringum þetta og þetta var ekki áður.“ Þorvaldur nefnir fleira. Aðstaðan í Hálsakoti hefur verið byggð upp og þar er orðin fyrirmyndar aðstaða.

Þúsund laxar eru ávísun á pönnukökubakstur. Það var svo sannarlega gert í veiðihúsinu í Jöklu í morgun. Sporðaköst hafa sérstakan áhuga á framsetningu á pönnukökum og bestar eru þær bornar fram nýbakaðar og helst volgar. 

Voru þær volgar Þorvaldur?

„Já. Það var þannig. Boðið var upp á þrenns konar. Upprúllaðar með sykri og svo var búið að setja rjóma í nokkrar og einnig voru nýbakaðar til að setja á rjóma og rabarbarasultu,“ staðfesti Þorvaldur.

Það er ljóst að Guðrún Friðriksdóttir ráðskona hefur lagt sig fram og gert þetta upp á tíu, öllum viðstöddum til sóma.

Upprúllaðar pönnukökur með sykri eru bestar volgar þannig að sykurinn taki sig aðeins og jafnvel bráðni.

Sporðaköst óska Þresti og Þorvaldi og þeirra fólki til hamingju með þennan merkisáfanga.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert