„Þetta er stærsta ævintýrið á mínum veiðiferli. Oh my lord,“ sagði Ragnheiður Thorsteinsson, formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur aðspurð um kynni sín af Sandárhöfðingja í vikunni. Ragga Thorst er hún iðulega kölluð og hún var enn í pínu jákvæðu uppnámi eftir ævintýrið í Þistilfirði.
„Þetta var síðasta vaktin okkar og það hafði ekki gengið vel hjá okkur. Skilyrðin voru mjög krefjandi,“ sagði formaðurinn. Krefjandi skilyrði eru samnefnari yfir hreinlega óþolandi veðurfar íslenska sumarsins. Þarna voru sextán metrar á sekúndu og hitinn datt niður í fjórar gráður og veðurguðirnir spiluðu á flest sín hljóðfæri í þessari veiðiferð.
Veiðihópurinn gekk frá húsinu um morguninn, áður en haldið var til veiða. Við komum til sögunnar þar sem Ragga er komin út í Þriggjalaxahyl efri. Flugan sem fékk fyrst að reyna sig var Undertaker. Stór ólga kom við fluguna. Greinilega stór fiskur og hann var áhugasamur. Kom samt ekki aftur í þá flugu. „Ég ákvað að smækka fluguna og Haugur númer sextán varð fyrir valinu. Hún hreyfði ekki við honum eða öðrum í hylnum. Mér fannst það áhugavert því ég hef tekið flesta mína fiska á Hauginn í sumar. Næst setti ég undir Cascade long tail. Hann elti hana með látum og þveraði brotið á eftir henni, en án þess að taka hana. Ég kastaði þessari flugu nokkrum sinnum aftur en fékk engin viðbrögð. Já, hugsaði ég með mér. Hann er svo lengi aftur á staðinn sinn. Ég beið og kastaði henni aftur. Engin viðbrögð. Þá varð fyrir valinu gul og svört fluga, svona Madeline gul, samt ekki Madeline. Hún var númer fjórtán. Það gerði ekki neitt.“
Þarna var Röggu orðið verulega kalt og hún fór upp úr skítköldu vatninu til að hlýja sér aðeins í fjögurra gráðu lofthitanum. Eftir nokkra stund setti hún undir flugu sem hún segist ekki vita hvað heitir. „Hún er lík Von, en samt ekki hún. Hún er græn, silfruð, pínu fjólublá og svört. Það er alveg hræðilegt fyrir mig að vita ekki hvað hún heitir. Einhver stakk upp á Green Collie Bitch, en ég held ekki. Ég er í bölvuðum vandræðum með þetta. Ég fór út í aftur og hann elti þessa og tók hana. Ég var búinn að sjá hann og þetta var stór fiskur.“
Þessar lýsingar Röggu eru dæmigerð haustveiði þegar fiskur sýnir viðbrögð og skák milli veiðimanns og fisks hefst. Þessar skákir geta staðið lengi og útkoman er algerlega óráðin. Ef fiskurinn snertir fluguna en tekur ekki er leik lokið. En haldi hann áfram að skoða ýmsar og ólíkar flugur er teflt áfram. Ragga fann leikinn sem mátaði hænginn. Nú tók við viðureignin.
„Hann fór um allan hyl og hafði þetta nákvæmlega eins og honum sýndist og stundum lagðist hann eins og hann væri ekki með mig í eftirdragi. En að lokum kom að því að hann var byrjaður að gefa eftir. Eftir tuttugu mínútur til hálftíma þegar ég var að gera mig líklega til að renna honum í háfinn, brotnaði Sage stöngin mín. Hún brotnaði alveg niður við kork og ég var eldsnögg að ná í línuna og með stubbinn og hjólið í annarri og náði með hinni hendinni að draga hann mjúklega inn í háfinn. Vúhúúú held ég að ég hafi öskrað.“ Ragga er enn á flugi þegar hún lýsir þessu ævintýri. Laxinn sem var gerðarlegur hængur mældist 93 sentímetrar. Sannkallaður Sandárhöfðingi og fjórði stærsti laxinn sem veiðst hefur í Þistilfjarðarperlunni til þessa. Sannarlega sá stærsti sem Ragga hefur veitt.
„Ég var að koma í Sandá í fyrsta skipti og þó svo að ég hafi ekki verið búin að fá högg fram til þessa var ég einhvern vegin viss um það að ég ætti stefnumót við lax í Þriggjalaxahyl efri. Það sat einhvern veginn í mér. Mér finnst áin mögnuð og það er eitthvert drama í henni. Maður veit aldrei hverju maður getur átt von á þarna. Úff þetta var svo gaman.“
Sandá hefur gefið mun betri veiði í sumar en í fyrra. Nú er búið að bóka í henni 349 laxa en á sama tíma síðasta sumar voru þeir 297.
Ragga bókaði laxinn á fluguna Von en veit að það er ekki rétt. Hún vildi svo gjarnan að einhver gæti upplýst hvað flugan heitir. Við látum fylgja með mynd af henni. Vissulega er hún tætt enda búið að japla á henni af fullorðnum hæng.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |