„Ég og mágur minn kolféllum fyrir henni“

Elmar í hlutverki Narraboths í óperunni Salóme eftir R. Strauss. …
Elmar í hlutverki Narraboths í óperunni Salóme eftir R. Strauss. Elmar er nú á heimleið eftir sautján ár erlendis. Hann hefur verið fastráðinn við óperuna í Stuttgart en nú stendur hugur hans heim. Ljósmynd/Staatsoper Stuttgart

Óperusöngvarinn, Elmar Gilbertsson er að flytja heim eftir sautján ára búsetu erlendis. Hann hefur verið fastráðinn við óperuna í Stuttgart sem er eitt af stærstu óperuhúsunum í Þýskalandi. Veiðidellan á stóran þátt í að hann er að segja upp því ráðningarsambandi og flytja aftur heim til Íslands.

Elmar var í hollinu sem landaði þúsundasta laxinum í Laxá í Dölum um helgina sem leið. Hollið var skipað Dalamönnum en Elmar var að veiða Laxá í fyrsta skipti þó að hann hafi alist upp á bökkum Laxár á bænum Hrappsstöðum í Laxárdal.

„Já. Það ríkti nokkur keppnisandi í mannskapnum og Skjöldur Orri leiðsögumaður hvatti okkur áfram með þeim orðum að við yrðum að koma ánni í þúsund laxa og það væri bókað að það ætti að gerast í þessu holli. Það tókst,“ segir Elmar og kímir.

Hann segir aðstæður hafa verið virkilega góðar. Passlegt vatn og mikið af fiski. „Það var vissulega rok enda sjaldan logn í dalnum mínum. Við köllum það gjarnan hamfaraveður ef að gerir logn í Laxárdal,“ hlær hann dátt.

Veiðisjúki óperusöngvarinn upplifði loksins drauminn að veiða Laxá í Dölum. …
Veiðisjúki óperusöngvarinn upplifði loksins drauminn að veiða Laxá í Dölum. Hún tók líka vel á móti honum og heiðraði hann með þúsundasta laxinum í sumar. Elmar fékk þennan í Svartfossi. Ljósmynd/Kristinn R. Guðlaugsson

Ég og mágur minn kolféllum fyrir henni

„Þetta var frábær hópur skipaður að mestu Dalamönnum. Bróðir minn, Sigurður Bjarni Gilbertsson hefur verið leiðsögumaður í Laxá og hann var að veiða með okkur ásamt fleiri góðum mönnum. Makkerinn minn er Kristinn Runólfur Guðlaugsson, mágur minn. Hann var að veiða Laxá í fyrsta skipti í fyrra og kolféll fyrir henni. Ég var að veiða hana í fyrsta skipti núna og kolféll líka. Það var mjög gaman, sérstaklega í ljósi þess að maður er alinn upp í dalnum og á bökkum Laxár.“

Hann viðurkennir að hann hafi ekki verið neinn engill þegar hann var að alast upp en mikil áhersla var lögð á að ekki mætti stelast í Laxá. „Föðurbróðir minn Leifur Steinn Elísson vann sem leiðsögumaður við Laxá þegar ég var pjakkur, þannig að manni var kennt að bera virðingu fyrir því að stelast ekki þangað. Freistnivandinn var vissulega mikill.“ Hann segist með góðri samvisku geta staðfest að hann hafi aldrei stolist í ána. „Vissulega voru aðrar ár sem við kíktum aðeins í en okkur var kennt að Laxá ætti að virða. Auðvitað dreymdi manni um að veiða í henni en sá draumur rættist ekki fyrr en núna.“

Hér er hann með Neil Shikoff sem Elmar telur einn …
Hér er hann með Neil Shikoff sem Elmar telur einn albesta tenór síðustu áratuga. Þeir unnu sama verkefni í Bochum í fyrra á Ruhrtrienalle hátíðinni. Elmar fékk nokkra söngtíma með meistaranum í bónus. Ljósmynd/Elmar Gilbertsson

Elmar á æskuminningu frá Laxá þegar „kallar frá Bandaríkjunum voru með ána á leigu,“ allt sumarið. Þetta var Pepsico og bauð fyrirtækið starfsmönnum sínum og fyrirmennum til veiða til Íslands. „Þeir héldu húllumhæ í veiðihúsinu í Þrándarkoti fyrir krakkana og buðu öllum fjölskyldunum í dalnum og það var sett upp dagskrá. Þarna voru flugdrekar og mikið af blöðrum og alls konar dót sem maður hafði aldrei séð áður. Þetta eru skemmtilegar minningar og var mikil upplifun á sínum tíma fyrir fimm ára gutta.“

Veiðihúsið í Þrándargili er nýuppgert og orðið „gígantígskt flott,“ segir óperusöngvarinn. Honum finnst öll aðstaðan hreint út sagt stórkostleg og ekki var maturinn síðri því kokkurinn hætti bara ekki að koma þeim á óvart með hverjum réttinum á fætur öðrum.

Runnin upp sú stund að koma heim

Elmar er stórt nafn í einu af stærstu óperuhúsum Þýskalands. Hann hefur verið fastráðinn þar sem tenór og sungið mörg stór hlutverk. Hann kom fyrst fram á sjónarsviðið hér heima hann söng eitt af stóru hlutverkunum í óperu Gunnars Þórðarsonar, Ragnheiði. Það var hans frumraun á stóra sviðinu hér heima. Skemmst er frá því að segja að verkið sló í gegn og Eldborg í Hörpu fylltist mörgum sinnum, þegar aðeins höfðu verið áformaðar tvær til þrjár sýningar. Þá söng Elmar hlutverk Daða Halldórssonar á móti Þóru Einarsdóttur, sem söng hlutverk Ragnheiðar. „Það var algjört ævintýri og virkilega gaman að taka þátt í því verkefni.“

Hann hefur vissulega sungið ýmislegt hér heima síðustu ár þó að stærsti vettvangurinn hafi verið í Þýskalandi.

„Ég fluttist til Hollands og var þar við nám og störf fram til 2018, að ég fluttist til Þýskalands. Fékk þá fastráðningu við óperuna í Stuttgart sem lýrískur tenór og hef búið þar síðan. En svo fer lífið menn mann í ýmsar áttir og ég kynntist íslenskri konu fyrir þremur árum og ég hef núna tekið ákvörðun um að koma heim. Ég er búinn að vera erlendis í sautján ár og þegar það er kominn tími til að koma heim þá finnur maður það. Sá tími er kominn núna. Ég er búinn að segja upp í Stuttgart en uppsagnartíminn er þó þannig að ég klára næsta tímabil og verð því með annan fótinn í Þýskalandi í vetur og næsta vor.“

Veiðifélaginn og mágur. Kristinn R. Guðlaugsson kolféll fyrir Laxá í …
Veiðifélaginn og mágur. Kristinn R. Guðlaugsson kolféll fyrir Laxá í fyrra. Í ár var komið að Elmari. Hér er Kiddi með hæng sem hann veiddi í Sólheimafossi í túrnum í síðustu viku. Ljósmynd/Elmar Gilbertsson

Það bíða ýmis stór hlutverk tenórsins í vetur. Hann syngur í óperunni Salome og túlkar þar persónuna Narraboth sem er yfirmaður varðliðsins í þessari vel kunnu óperu eftir Richard Strauss. Þá tekur við hlutverk í Casanova eftir Johann Strauss. Í vor sem leið var það óperan Magagonny eftir Kurt Weill. Töfraflautan er ein af þeim óperum sem Elmar hefur sungið í oftar en einu sinni og fer að þessu sinni með hlutverk Monostatosar. „Það er vondi kallinn og það er alltaf gaman að syngja slík hlutverk,“ hlær hann.

Stöðugt að missa af veiði

Og hvað tekur svo við? Hvað ætlarðu að gera þegar þú ert fluttur heim?

„Næstu tvö til þrjú árin verð ég með annan fótinn í Þýskalandi. Það er verið að endurflytja óperur og þá tekur maður þátt í því og þegar þeir þekkja mann þá eru alltaf í boði hlutverk af og til sem verktaki þó að fastráðningin sé ekki til staðar. Svo ætla ég bara að bregða mér í lausamennsku og minn umboðsmaður til tíu ára fær mikið af fyrirspurnum frá öðrum óperum þannig að ég óttast ekki að það verði verkefnaskortur.“

Hann viðurkennir að það hafi örlað á því að yfirstjórnin í Staatsoper í Stuttgart hafi verið farin að líta á sig þeim augum að hann ætti ekki að vera að taka að sér verkefni annars staðar en hjá þeim. „Ég hef verið að fá fyrirspurnir frá Íslandi og fleiri löndum í Evrópu um að koma og syngja hlutverk, en þeir hafa ekki viljað leyfa mér að fara. Svo er það hitt. Ég er búinn að vera með veiðidellu frá því að ég man eftir mér. Ég hef reynt að komast eins mikið og ég get í veiði. Hvort sem það er í vötn eða ár og það hefur undantekningalaust verið þannig að ef ég hef verið búinn að kaupa veiðileyfi þá hafa komið upp verkefni og ég þurft að sleppa veiðinni.“

Já. Þetta er náttúrulega ekki hægt.

„Einmitt. Það er ekki hægt. Ég er kominn með hundleið á því,“ hlær hann.

Elmar Gilbertsson og Þóra Einarsdóttir fóru með aðalhlutverkin í Ragnheiði. …
Elmar Gilbertsson og Þóra Einarsdóttir fóru með aðalhlutverkin í Ragnheiði. Þessi mynd er frá árinu 2014 þegar óperan var flutt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Raunar hefur Elmar ýmsa möguleika þegar horft er framtíðar. Hann er lærður búfræðingur og það var einmitt í Bændaskólanum á Hvanneyri þar sem hann smitaðist að stórum hluta af söngáhuganum. Tók þar þátt í kórastarfi sem síðar leiddi hann í söngnám hér heima og einnig á meginlandi Evrópu. En Elmar hefur fleiri spil á hendi. Hann er lærður rafeindavirki. Ef þetta er ekki uppskrift að „altmuligmann“ þá er hún ekki til. Óperusöngvari, búfræðingur og rafeindavirki.

Lenti í lögreglurannsókn í Dölunum

Þúsundasti laxinn í sumar í Laxá í Dölum kom í hlut Elmars. Hann var staddur á Þegjanda svæðinu. Þó að áin væri stöppuð af fiski, eins og hann lýsir því þá var lítil sem engin taka. Hann tók allt í einu eftir því að fiskur var stökkva í Þegjandastrengnum og var að færa sig upp. Hann kom sér fyrir á hentugum stað í stórgrýtinu og kastaði á stökkvarana. „Ég var með litla þyngda flugu og lét hana reka yfir staðinn þar sem hann hafði verið að stökkva. Rokið hafði áhrif og við komum okkur fyrir þannig að við gátum unnið með vindinum,„ útskýrir hann.

Skemmst er frá því að segja að fljótlega setti hann í fisk og landaði. Skömmu síðar setti hann í hann í annan fisk en sá lak af. Þegar í hús var komið beið leiðsögumaður númer eitt í Dölunum, Skjöldur Orri Skjaldarson veiðimanna. Skjöldur Orri er lögreglumaður á svæðinu og vanur að rannsaka mál til að upplýsa þau. Nokkrir laxar höfðu veiðst seinnipartinn og það kom í hlut Skjaldar að komast að sannleikanum. Ólíkt öðrum rannsóknum sem hann hafði tekist á við játuðu fleiri manns á sig verknaðinn. Ýmsir töldu sig hafa veitt þúsundasta laxinn og lengi vel leit út fyrir að Jón Egilsson bóndi á Sauðhúsum væri með þennan merkislax. Fáum hugnaðist það. Ekki vegna þess að fyrrum formaður veiðifélagsins væri ekki verðugur fulltrúi, heldur hitt að laxinn sem hann hafði veitt var óttalegur njálgur. Náði vart fimmtíu sentímetrum. 

Tenórarnir þrír tóku lagið í miðbæ Reykjavíkur á Þorláksmessu fyrir …
Tenórarnir þrír tóku lagið í miðbæ Reykjavíkur á Þorláksmessu fyrir jólin 2014. Nú togar Ísland fast í tenórinn. Jóhann Friðgeir Valdimarsson, Elmar Gilbertsson og Kolbeinn Ketilsson í jólaskapi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Við rannsókn málsins lagði Skjöldur hald á síma þeirra sem gerðu tilkall til nafnbótarinnar Þúsundkallinn. Fljótlega upplýsti hann málið og vitnaði þar til tímasetninga þegar myndir voru teknar á síma af veiddum löxum. Jón bóndi var með lax númer 999 en tenórinn átti þann þúsundasta. Málið var upplýst og mynd send Sporðaköstum hér á mbl.is til birtingar. 

Það eru ár og dagar síðan að lax númer þúsund veiðist í ágúst í Laxá í Dölum og það var skemmtileg tilviljun að Laxá tók á móti Hrappsstaðadrengnum með því að færa honum þúsundasta laxinn.

Elmar með merkislaxinn sem ávann honum nafnbótina Þúsundkallinn. Það þurfti …
Elmar með merkislaxinn sem ávann honum nafnbótina Þúsundkallinn. Það þurfti raunar lögreglurannsókn til að kveða upp úr með hver fékk lax númer þúsund. Fjölmargir játuðu á sig verknaðinn. Ljósmynd/Skjöldur Skjaldarson

...þegar feita konan syngur

Við erum sammála um að ópera og laxveiði eigi ekki mikið sameiginlegt. Þó er það vitað að lengi er von á einum og þeir fiska sem róa. Það má segja að þar sé hægt að vitna til þess að óperan er aldrei búin fyrr en feita konan syngur í lokin.

„Nákvæmlega, nákvæmlega," jánkar Elmar.

En eru þær ennþá feitar þær sem eru í því hlutverki að loka óperunum?

„Nei. Ég myndi ekki segja það sérstaklega. Það er fólk af öllum stærðum og gerðum í óperulistinni og sumir segja „prima la musika“ eða tónlistin á að koma fyrst. Röddin á að vera númer eitt og hvernig viðkomandi söngvari lítur út á að skipta minna eða engu máli. Hins vegar hefur maður alveg unnið með stjórnendum sem horfa á þetta öðrum augum. Því miður.

Næsta sumar mun Elmar Gilbertsson geta skipulagt veiðina sína án þess að vita nánast fyrirfram að hann muni ekki komast. Fyrst á dagskrá er að endurtaka hollið með Dalamönnum í Laxá. Ýmislegt fleira er líka í skoðun og ljóst að hann ætlar að bæta sér upp missinn á komandi árum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert