Leit að nýrri fyrirsætu stendur yfir

Ilmspjaldið 2023/24. Það prýðir Árni Baldursson og lyktin var furunálailmur …
Ilmspjaldið 2023/24. Það prýðir Árni Baldursson og lyktin var furunálailmur ættaður frá Kanada. Hver verður næsta fyrirsæta? Það er spennandi spurning. Ljósmynd/Sporðaköst

Leit stendur nú yfir að fyrirsætunni sem mun prýða Ilmspjaldið 2024/2025. Þeir sem koma til greina eru veiðimenn sem skarað hafa fram úr og vakið þjóðarathygli. Á Ilmspjaldinu 2023/24 má sjá mynd af veiðimanni sem er ber að ofan með veiðistöng í hendi. Þetta er enginn annar en Árni Baldursson. Ilmurinn sem fylgdi var furunálailmur ættaður úr skógum Norður–Ameríku. Nánar tiltekið Kanada.

Mörgum fannst ilmurinn full ágengur fyrstu tvo dagana eða svo, en eftir það gaf hann hratt eftir og viku síðar var nánast engin lykt eftir í spjaldinu. 

Sigþór Steinn Ólafsson, leiðsögumaður og hlaðvarpsstjórnandi átti hugmyndina að Ilmspjaldinu. „Upphaflega var þetta til gamans gert og hver vill ekki hafa Árna Baldursson glottandi, dinglandi á speglinum í veiðibílnum? En þessu var furðu vel tekið og nú er ég að taka þetta aðeins lengra. Vissulega er heiður fólginn í því að komast á ilmspjöld sögunnar. Við erum að ræða við nokkra aðila og menn taka alla jafna vel í hugmyndina að vera fyrirsæta, en þó er það ekki algilt,“ upplýsti Sigþór Steinn í samtali við Sporðaköst.

Hann viðurkennir að ilmurinn hafi verið fljótur að fara úr Árna Baldurssyni og það er ein af þeim áskorunum sem framleiðslan stendur frammi fyrir.

Sigþór Steinn Ólafsson með glæsilegan fisk úr Geirlandsá. Hann átti …
Sigþór Steinn Ólafsson með glæsilegan fisk úr Geirlandsá. Hann átti hugmyndina að Ilmspjaldinu. Hvaða veiðimaður vill ekki komast á ilmspjöld sögunnar? Ljósmynd/HHH

Hverjir koma til greina sem fyrirsæta?

„Þessi vinna er á lokametrunum og ég tel ekki rétt að upplýsa það fyrr en allt er frágengið. Þetta hefur verið að taka breytingum síðustu daga og lokaniðurstaðan verður kynnt fljótlega,“ kímir Sigþór.

Vanilluspjaldið úr Baulu

En lyktin? Er búið að ákveða hana?

„Við erum líka á lokametrunum þar. Nýr framleiðandi tryggir okkur betri endingu og sá lagði til kirsuberjailm en hvort það verður niðurstaðan er erfitt að segja til um. Þegar maður klárar í veiðileiðsögninni þá hellir maður sér í þetta. Mér finnst kirsuberjailmurinn aðeins of ágengur en kannski þarf maður bara að venjast honum aðeins betur. Svo erum við líka að vinna með vanillu en ég hef ákveðnar efasemdir um þá lykt.“

Efasemdir Sigþórs varðandi vanilluilminn byggja á reynslu. Hann var einhverju sinni að fara í leiðsögn í Þverá í Borgarfirði og stoppaði í Baulu á leið sinni. Þar voru til sölu ilmspjöld og Sigþór skellti sér á vanilluspjald. „Þegar ég kem svo upp í veiðihús og hitti fólkið sem ég á vera með þá sest konan fram í og byrjar fljótlega að kúgast. Hún leit á mig og spurði hvort þetta væri vanilluilmspjald. Ég skal alveg viðurkenna að lyktin var frekar megn. Já, svaraði ég. Hún sagðist elska vanillu, nema þegar hún væri ófrísk þá kúgaðist hún af lyktinni. Ég flýtti mér að henda spjaldinu en hún kúgaðist alltaf aðeins þegar hún settist inn í bíl fyrstu tvær vaktirnar, þó að ég væri með alla glugga opna.“

Hvernig kviknaði þessi hugmynd?

„Það má rekja hana til barnæsku minnar og minna félaga. Hver man ekki eftir því úr sveitinni að ilmspjöld sem fáklæddar konur prýddu héngu á öllum speglum í jeppum og dráttarvélum. Lyktin var sterk og alltaf sú sama. Hugmyndin er að endurvekja þessa hefð en þó með nútímatvisti. Þar sem veiðikarlar og konur prýða útsýni veiðimanna, bæði á akstri og þegar beðið er í bílnum á meðan að makkerinn kastar.“

Sporðaköst hafa samið við Sigþór um að frumsýna Ilmspjaldið 2024/25 þegar framleiðsla hefst, hér á mbl.is.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert