Gular og appelsínugular veðurviðvaranir höfðu sitt að segja í laxveiðinni í nýliðinni viku. Sérstaklega fengu veiðimenn á norðanverðu landinu að finna fyrir skapsmunum veðurguðanna. Ytri–Rangá heldur sínu striki og gaf bestu veiðina í síðustu viku eða 350 laxa. Þar spilar inn í að annað agn en fluga var leyfð 10. september.
Ef við horfum til náttúrulegu laxveiðiánna, bera Þverá/Kjarará og Miðfjarðará höfuð og herðar yfir aðrar ár. Báðar komnar vel yfir tvö þúsund laxa og þó svo að sú fyrrnefnda haldi toppsætinu er líklegt að Miðfjarðará sigli fram úr henni þegar líður meir inn í september, þar sem veitt er lengur í Miðfirði, enda opnaði hún síðar. Einungis munar nítján löxum á þeim. Besta vikuveiðin var í Miðfirði, 133 laxar. Þá voru góðar vikur í Grímsá, 119 laxar og Jöklu 111 laxar.
Á hinum endanum voru Laxá í Aðaldal með 13 laxa og Vatnsdalsá með 10 laxa, en sú síðarnefnda var óveiðandi drjúgan hluta vikunnar vegna vatnavaxta og leiðinda veðurs.
Tíu ár státa nú af þúsund laxa veiði eða meira og möguleiki er á að í þeim hópi fjölgi. Aðstæður það sem eftir lifir veiðitíma ræður þar mestu um hversu margar ár ná fjögurra stafa tölu.
Lokatölur eru komnar úr Haffjarðará og er það fyrsta áin til að loka í sumar. 802 laxar veiddust í henni á móti 905 í fyrra. Fleiri ár loka í næstu viku og í mörgum tekur við klakveiði. Þannig er veiði hætt í Selá í Vopnafirði en veiði vegna merkinga og slíkra hluta tekur við. Nú eru framundan lokametrarnir í laxveiðinni. Þeir geta verið drjúgir og skilað góðri veiði verði aðstæður veiðimönnum hagfelldar.
Hér er listi yfir tuttugu og tvær efstu árnar. Fyrsti dálkurinn er talan í viðkomandi á í lok dags, 11. september. Dálkur tvö, veiðin í fyrra segir til um hver talan var í loks dags 13. september í fyrra. Þriðji dálkurinn er svo veiðin vikuna 4. til 11. september, samkvæmt tölum frá angling.is sem er vefur Landssambands veiðifélaga. Fjórði og síðasti dálkurinn segir til um prósentubreytingu milli ára miðað við 12. september 2023 þar sem þær upplýsingar eru fáanlegar.
Vatnasvæði Í sumar 2023 Vikuveiðin Breyting í %
Ytri–Rangá 3434 2970 350 --
Þverá/Kjarará 2207 1287 99 72%
Miðfjarðará 2188 1199 133 85%
Eystri–Rangá 1642 1966 95 --
Norðurá 1641 1067 86 58%
Selá í Vopnafirði 1348 1234 84 11%
Langá á Mýrum 1134 593 50 96%
Laxá í Dölum 1083 436 51 --
Jökla 1079 450 111 141%
Hofsá 1010 1009 79 2%
Laxá á Ásum 943 630 55 --
Grímsá 921 564 119 --
Elliðaár 903 614 67 50%
Haffjarðará 802* 905 20 --
Víðidalsá 754 599 41 32%
Laxá í Aðaldal 751 632 13 20%
Laxá í Kjós 740 405 74 73%
Laxá í Leirársveit 727 454 79 --
Urriðafoss 719** 701 -- --
Stóra Laxá 619 302 58 --
Vatnsdalsá 573 344 10 --
Við skoðum fleiri ár á morgun og hvernig veiðin hefur gengið í þeim í sumar.
*Lokatala sumarið 2024
**Tala frá 24. júlí.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |