„Bárum okkur vel en vorum í áfalli“

Fjölskyldan komin á beinu brautina. Fremstur er Jóhann Davíð Snorrason …
Fjölskyldan komin á beinu brautina. Fremstur er Jóhann Davíð Snorrason og Markús Orri heldur á laxinum með honum. Yngri bróðirinn, Matthías Kári beygir sig og aftast er Valdís Ólafsdóttir. Ljósmynd/Jóhann Davíð

Veiðidagurinn 18. október í Eystri Rangá er tileinkaður SKB eða Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna. Tólf stangir eru til sölu og rennur andvirði þeirra að fullu til félagsins. Þetta er aðferð Jóhanns Davíðs Snorrasonar og Valdísar Ólafsdóttur konu hans til þakka SKB fyrir mikinn og dýrmætan stuðning í baráttu sonar þeirra við erfitt og illskeytt krabbamein sem hann greindist með þrettán ára. Jóhann Davíð segir þessa lífreynslu hafa verið hreinustu martröð og tekið gríðarlega á fjölskylduna. „Við fengum fund með lækni sem upplýsti okkur um að drengurinn okkar væri með krabbamein. Við vorum í dágóða stund að hreinlega trúa þessu. En svo er ekkert sem grípur mann eftir að fá svona fréttir. Ég veit ekki hvernig við hefðum farið að hefði ekki verið fyrir aðkomu Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. Þau reyndust okkur mikil stoð og stytta og þetta er okkar leið til að þakka fyrir þann ómetanlega stuðning sem öll fjölskyldan fékk,“ sagði Jóhann Davíð í samtali við Sporðaköst. Hann sendi okkur frásögn af því hvernig hlutirnir gengu fyrir sig á þessum erfiðu tímum fjölskyldunnar.

Markús Orri er með veiðidellu og á ekki langt að …
Markús Orri er með veiðidellu og á ekki langt að sækja hana. Hér er hann með lax frá í sumar. Aðgerð og lyfjameðferð tókst vel og nú er hann í reglubundnu eftirliti. 18. október rennur andvirði allra seldra stanga til SKB í þakklætisskyni fyrir stuðninginn. Ljósmynd/Jóhann Davíð

„Sumarið 2022 var Markús Orri bara venjulegur 13 ára strákur sem æfði fótbolta með Val og æfði þar að auki skák með Breiðablik. Þetta sumar fór að bera á því að honum var illt í fótleggnum, rétt fyrir ofan við vinstra hné. Við héldum að þetta væri álagstengt út af fótboltaæfingum eða jafnvel vaxtaverkir. Markús fór til læknis sem fann ekkert í fyrstu en benti honum á að fara til sjúkraþjálfara. Markús fór til þjálfarans og tíminn leið en ekki skánaði verkurinn og versnaði bara ef eitthvað var.

Síðla ágúst var ákveðið að senda hann í myndatöku og eftir það hrundi veröldin okkar. Í myndatökunni kom í ljós æxli rétt fyrir ofan vinstra hné. Tekið var sýni úr æxlinu og var það staðfest þá að þetta var illkynja krabbamein. Afskaplega sjaldgæft krabbamein sem heitir Osteosarcoma og vex í beinum.

Eftir aðgerð. Æxlið fjarlægt og skipt um hnjálið. Markús Orri …
Eftir aðgerð. Æxlið fjarlægt og skipt um hnjálið. Markús Orri er haltur og fótboltaæfingar bíða betri tíma. Batavegurinn er hins vegar greiður. Ljósmynd/Jóhann Davíð

Markús fór strax í lyfjameðferð auk þess sem hann þurfti að fara í stóra aðgerð þar sem meinið var fjarlægt með því að taka hluta af beininu og komið var fyrir gervilið í staðinn.

Markús var ótrúlega duglegur í gegnum þess þolraun en þó við létum ekki á neinu bera fyrir framan hann vorum við foreldrarnir alveg í áfalli.

Það að frétta að barnið manns sé með krabbamein er martröð hvers foreldris og lítið sem grípur mann. Þó er sem betur fer til Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna og fengum við ómetanlegan stuðning þaðan í gegnum allt ferlið.

Félagið sem Jóhann stýrir – Kolskeggur ætlar því að gefa félaginu andvirði allra seldra stanga í Eystri Rangá þann 18. október næstkomandi.

Af Markúsi Orra er það að frétta að allt hefur gengið vel frá meðferðarlokum. Hann er núna bara nokkuð venjulegur 15 ára strákur en heltin er þó svolítið að stríða honum eftir aðgerðina. Markús Orri hefur mikinn áhuga á skák og er nokkuð lunkinn í henni. Hann tefldi til að mynda fyrir Íslands hönd á EM ungmenna nú í sumar. Markús hefur líka brennandi áhuga á veiði og reynir að komast með pabba sínum eða vinunum þegar færi gefst.“

Mættur á EM ungmenn í sumar, þar sem hann keppti …
Mættur á EM ungmenn í sumar, þar sem hann keppti fyrir Íslands hönd. Markús Orri hefur æft skák í fjölmörg ár. Ljósmynd/Jóhann Davíð

Þetta er saga fjölskyldunnar í stuttu máli og sett saman af Jóhanni Davíð sem er framkvæmdastjóri félagsins Kolskeggs sem meðal annars leigir Eystri Rangá og fleiri ár. Fyrir þá sem vilja styrkja gott málefni og skella sér í loka veiðitúrinn er kjörið að kíkja inn á kolskeggur.is og undir Eystri Rangá er 18. október merktur sem styrktardagur SKB. Stöngin kostar 45 þúsund krónur og rennur öll upphæðin óskipt til félagsins.

Veitt er frá klukkan 8 til 20, án hlés en veiðimenn mæta í hús til að draga um svæði klukkan 7:30. Skipt er um svæði á miðjum degi.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert