Fish Partner tekur við Blöndu og Svartá

Stjórn Veiðifélags Blöndu og Svartár með Kristjáni Páli Rafnssyni forvígismanni …
Stjórn Veiðifélags Blöndu og Svartár með Kristjáni Páli Rafnssyni forvígismanni Fish Partner. Samningurinn öðlaðist gildi í gær eftir samþykkt félagsfundar. Frá vinstri: Guðmundur Haukur Jakobsson, Guðlaugur Torfi Sigurðsson, Guðmundur formaður og Kristján Páll. Þá koma Guðmundur Guðbrandsson og Jón Ingi Guðmundsson. Ljósmynd/GRH

Félagið Fish Partner hefur samið við Veiðifélag Blöndu og Svartár um að taka að sér sölu á veiðileyfum á vatnasvæðinu næstu fimm árin. Um er að ræða umboðssölu fyrirkomulag en fram til þessa hafa leigutakar greitt fast leiguverð fyrir ána. Þetta fyrirkomulag hefur verið tekið upp víðar og eru Norðurá í Borgarfirði og Ytri Rangá dæmi um laxveiðiár þar sem slíkt fyrirkomulag hefur reynst vel.

Aðalfundur Veiðifélags Blöndu og Svartár samþykkti í vor að óska eftir tilboðum í vatnasvæðið. Í framhaldi af því var birt auglýsing og óskað eftir tilboðum. Fjórir aðilar buðu og eftir viðræður við tilboðsgjafa náðist samningur við Fish Partner.

Félagsfundur í félaginu var svo haldinn í félagsheimilinu á Blönduósi í gærkvöldi og þar lagður fyrir fundinn samningur sem stjórn hafði samþykkt með fyrirvara um afstöðu félagsfundar. Guðmundur Rúnar Halldórsson bóndi í Finnstungu og formaður Veiðifélagsins staðfesti í samtali við Sporðaköst að samningurinn hefði verið samþykktur með öllum greiddum atkvæðum og enginn verið á móti.

Blanda og Svartá hafa átt verulega undir högg að sækja síðustu ár og veiðin verið mun minni en hafa átt að venjast.

Samningurinn við Fish Partner gerir ráð fyrir því að sleppiskylda verði á öllum laxi á svæðinu, meðal annars í ljósi minnkandi laxgengdar í Blöndu. Eingöngu verður veitt á flugu. Veiðihúsið leigir Fish Partner allt árið.

Stefnt er að því að bæta við nýju svæði í Blöndu en það er ósaveiði neðst í ánni. Verða þar tvær stangir.

Guðmundur Rúnar Halldórsson, formaður segist ánægður með samninginn og væntir þess að vegur Blöndu og Svartár eflist á næstu árum. Hann staðfesti að nokkrir af góðkunningjum Blöndu hefðu þegar staðfest kaup á veiðileyfum næsta ár og þótti honum það góðs viti.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert