Stubbur á starfsdegi landaði níu löxum

Júlíus á starfsdegi. Áhyggjulaus að missa úr einn dag með …
Júlíus á starfsdegi. Áhyggjulaus að missa úr einn dag með félögum sínum. Skellti sér bara í Grímsá með pabba og þeir fengu níu laxa. Er þetta ekki veiðimynd ársins? Ljósmynd/Jón Þór Júlíusson

Síðasta föstudag var starfsdagur í leikskólanum hjá Júlíusi Þór Jónssyni fjögurra ára. Hann hafði nákvæmlega engar áhyggjur af því og beið þess sem verða vildi. Það eru frekar foreldrar sem glíma við hausverkinn, hvernig eigum við að leysa þennan dag? Júlíus er sonur Jóns Þórs Júlíussonar sem er framkvæmdastjóri félagsins Hreggnasa sem leigir laxveiðiár og selur veiðileyfi.

Pabbi átti stöng þennan dag í Grímsá, þar sem er búin að vera fín veiði í sumar. Það lá því beint við að Júlíus færi með pabba í vinnuna. „Já. Við lönduðum níu. En þegar leið á daginn og hann sagðist vera orðinn ofboðslega vanur þá var honum líka orðið mjög kalt þannig að við hættum snemma. Hefðum eflaust getað náð fleirum í Oddstaðafljótinu, þar sem við enduðum,“ hlær pabbi hans.

Enn einn laxinn fær frelsi. Þegar maður er fjögurra ára …
Enn einn laxinn fær frelsi. Þegar maður er fjögurra ára eru þeir allir stórlaxar. Öryggisgleraugun á sínum stað á meðan að verið er að kasta og landa. Ljósmynd/Jón Þór Júlíusson

Þeir feðgar voru mættir að Grímsá um klukkan tíu um morguninn og voru ekkert að flýta sér. Þeir byrjuðu að veiða á svæði tvö og því næst lá leiðin niður á svæði eitt. „Við fengum móment eftir hádegi í Grafarhyl, en þar er mikið af fiski. Þetta var milli tvö og þrjú og það kviknaði á því og þá hófst veislan. Júlíus var orðinn hálf óþolinmóður hvað þetta gekk eitthvað hægt hjá okkur feðgum.“

Júlíus tók millilagningu eftir Grafarhyl. Pabbi þurfti að bardúsa aðeins í veiðihúsinu og að setjast í þægilegan öryggisstólinn sem tekur svo vel utan um mann og fá hitann, slökkti á hinum unga veiðimanni og hann steinsofnaði. Það var kannski eins gott. Fjórum löxum hafði þegar verið landað og tveimur sjóbirtingum. En framundan var gullið. Oddstaðafljót, efsti veiðistaður í Grímsá og pakkaður af laxi á þessum tíma.

Ótrúlega gaman. Til í að hafa alltaf starfsdag. Vissulega varð …
Ótrúlega gaman. Til í að hafa alltaf starfsdag. Vissulega varð vart við óþolinmæði þegar lax tók ekki strax, en það átti eftir að breytast. Ljósmynd/Jón Þór Júlíusson

„Já þetta var millilagning. En eftir veiðina steinsofnaði hann á leiðina í bæinn og var gjörsamlega búinn á því. Það var ekki sinni hægt að gefa honum að borða þegar hann kom heim, hann var svo steinsofandi. Það var búið að græja ráðstafanir ef hann myndi vakna glorhungraður um kvöldið. Smurt og mjólk var til reiðu í ísskápnum, en það kom ekki til þess. Hann svaf nóttina í einum dúr.“

Júlíus er orðinn einstaklega veraldarvanur veiðimaður miðað við ungan aldur og segir reglulega af sér veiðisögur þegar hann mætir á leikskólann. Hann hefur enda farið víða. Brynjudalsá, Grímsá og Skugga. Allt eru þetta svæði sem Hreggnasi er með á leigu. „En hann er mikið búinn að skamma pabba sinn því hann fær aldrei að fara í Dalina. Þannig að við þurfum að bæta úr því vonandi næsta sumar. Þar hafa hins vegar ekki verið í boði stakir dagar eins og við bjóðum upp á í Grímsá í lok tímabils. En markmiðið 2025 verður að koma honum í lax fyrir vestan,“ brosir Jón Þór.

Millileggja, svokölluð. Eftir fjóra laxa í Grafarhyl var mönnum kalt …
Millileggja, svokölluð. Eftir fjóra laxa í Grafarhyl var mönnum kalt og þeir þreyttir. Rafhlöðurnar voru svo fjótar að fyllast eftir góða kríu. Spiderman buffið kom að góðum notum. Ljósmynd/Jón Þór Júlíusson

Starfsdagar koma reglulega í leikskólum og þá þarf að leysa málin og forráðamenn þurfa að leysa þau. „Ef það er ekki mannekla þá eru það starfsdagar. Þannig að það er eins gott að pabbinn sé sjálfstætt starfandi þegar kemur að leikskólum hjá Reykjavíkurborg. Ef það er ekki skyldufrí á þriðjudegi þá er viðbúið að sé starfsdagur á föstudegi. Það er væntanlega hægt að eiga verri starfsdaga en þetta þegar maður býr við þau forréttindi, sem ungur drengur að geta komist í bestu laxveiðiá landsins,“ segir kátur pabbi.

Júlíus hefur tekist á við marga laxa og landað. En maríulax hefur ekki verið bókaður á hann enn. Pabbi hans segir að hann hafi ekki náð laxi þar sem hann gerir allt sjálfur. „Við höfum verið að vinna með tökuvara og mjög smáar flugur og það er það næsta sem þú kemst flugu og flotholti. En maríulaxinn býður og það styttist í hann. Systur hans fengu sína þegar þær voru fimm og sex ára," upplýsir Jón Þór.

Júlíus Þór Jónsson afi með alnafna sinn eftir skírnina. Það …
Júlíus Þór Jónsson afi með alnafna sinn eftir skírnina. Það er ekkert skrítið að barnið hafi áhuga á veiði berandi þessi gen. Ljósmynd/Jón Þór Júlíusson

Stubburinn á ekki langt að sækja veiðidelluna og ekki dregur úr henni að hann er alnafni afa síns sem er Júlíus Þór Jónsson sem fjölmargir veiðimenn kannast við. Júlíus yngri er ekki rauðhærðar eins og afi sinn, en Jón Þór segir að það sé aldrei að vita hvað gerist með háralitinn þegar hann eldist.

„Þegar við ákváðum að hætta sagðist hann vera orðinn mjög vanur. Ég náði hins vegar varla að spenna á hann öryggisbeltið í heitum bílnum, áður en að hann var dottinn,“ hló pabbinn.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert