Lax sem veiddist í Bergsnös í Stóru Laxá í opnunarhollinu síðla júní var merktur með slöngumerki og sleppt. Þessi sami lax veiddist á nýjan leik í gær, þá tveimur sentímetrum lengri og hann veiddist aftur á sama veiðistað.
22. júní í sumar kom Matty, breskur veiðimaður að veiðistaðnum Bergsnös á neðra svæðinu í Stóru Laxá. Með honum í för var leiðsögumaðurinn Birkir Mar Harðarson. Menn voru spenntir enda hafði lax stokkið um leið og þeir stöðvuðu bílinn. Eftir bollaleggingar var ákveðið að sýna honum Collie dog áltúbu. Það virkaði líka svona ljómandi vel. Fiskur tók mjög fljótlega og þetta var stór lax. Eftir drjúga stund náðist þess lax í háfinn. Vissulega glæsilegt eintak. Mældist 92 sentímetrar og laxinn silfraður og allur hinn glæsilegasti. Matty hinn breski hafði nokkrar áhyggjur af því hvort að laxinum myndi reiða vel af, þar sem hann missti aðeins hreistur í meðhöndlun enda lét hann ófriðlega. Birkir Mar fullvissaði Matty um að áhyggjur væru óþarfar. Hann hefði margoft sannreynt að þeim yrði ekki meint af. Eftir myndatöku og áður en hængurinn silfraði fékk frelsi var hann merktur. Við bakugga var skotið í hann slöngumerki og númerið á því var 114604.
Í Stóru Laxá í sumar voru merktir fimmtíu laxar með slöngumerkjum meðal annars til kanna hlutfall endurveiði. Þessir fiskar voru merktir snemma veiðitímans. Fleiri fiskar verða merktir á næstu dögum, bæði með slöngumerkjum og radíómerkjum og eru merkingarnar hluti af metnaðarfullri rannsóknaráætlun í Stóru Laxá.
Ekkert spurðist til 114604, allan veiðitímann. Svo gerðist það í gær að Sindri Þór Kristjánsson var með veiðimann í leiðsögn í Bergsnös og setti hann í lax. Sindri sá strax að þetta var vænn fiskur. Kröftugur og hagaði sér eins og þeir gera þessir stóru. Viðureignin tók enda drjúgan tíma en að lokum var háfaður leginn og litfagur hængur. Slöngumerki við bakugga blasti við. Númerið á því var 114604. Þarna var hann kominn aftur hængurinn frá því í opnunarhollinu. Með þessari staðfestingu fengust svör við mörgum spurningum. Hann hafði greinilega ekki fært sig um set og haldið til í Bergsnös allt sumarið. Nú eða ferðast um ána en var kominn aftur heim. Varðandi áhyggjur Matty frá því í vor, sem lutu að hreisturlosi þá var ljóst að laxinum hafði ekki orðið meint af. Mælingin gaf niðurstöðuna 94 sentímetrar. Laxinn hafði lengst um tvo sentímetra frá því í opnun. Það er hefðbundið með hængana. Þegar nálgast hrygningu og þeir taka á sig riðbúninginn. Þá gengur neðri skolturinn fram og vígalegur krókur myndast. Þessi hafði lengst um tvo sentímetra og er allur vöxtur hænganna tilkominn vegna breytinga á höfði.
Fyrir utan að slöngumerkið segir sína sögu þá sést svo greinilega á doppusetningu laxins að þetta er sami fiskurinn. Doppusetning á höfði laxa er eins og fingraför á fólki. Hver og einn lax er með einstaka doppusetningu og hægt að þekkja þá aftur á henni með samanburði á myndum.
Af fimmtíu löxum sem merktir voru með slöngumerkjum í sumar í Stóru Laxá hafa átta veiðst aftur. Það lætur nærri að vera sextán prósent endurveiðihlutfall.
Veiðistaðurinn Bergsnös þar sem laxinn veiddist í gær, hefur verið besti veiðistaðinn í ánni í sumar. 135 laxar hafa veiðst þar. Í gærkvöldi hafði Stóra Laxá skilað 796 löxum og er það mun betri veiði en á sama tíma í fyrra, þegar áin stóð í 500 löxum. Nú taka við einhverjir dagar í vísinda og klakveiði en lokatala í Stóru er í kringum 820 laxa. Þetta staðfesti Finnur Harðarson leigutaki í samtali við Sporðaköst. Eftir er að skrá nokkra fiska af efra svæðinu og þá mun lokatala liggja endanlega fyrir.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |