Hvar var besta veiðin í sumar?

Alli leiðsögumaður með einn af þeim 1.008 löxum sem veiddust …
Alli leiðsögumaður með einn af þeim 1.008 löxum sem veiddust í Ásunum í sumar. Jón Aðalsteinn Sæbjörnsson gat reiknað með að fá 2,8 laxa á dagsstöngina. Ásarnir voru með hæsta hlutfallið á stöng á dag. Ljósmynd/Sturla Birgisson

Veiðimenn sem veiddu íslenskar laxveiðiár fengu mun meira fyrir peninginn en í fyrra. 22 laxveiðiár voru með hlutfallið lax á stöng á dag í sumar, eða meira. Þar af voru sex ár með hlutfallið tveir laxar eða meira á dagsstöngina. Sumarið 2023 voru aðeins tvær ár sem náðu því. Rangárnar eru ekki með í þessari upptalningu enda enn nokkuð eftir af veiðitíma í þeim báðum.

Við birtum vikulega heildartölur yfir veiði í fjölmörgum laxveiðiám. Þar er eingöngu horft til fjölda laxa sem veiðast á viðkomandi vatnasvæðum. Þegar veiði á dagsstöng er reiknuð út kemur í hins vegar í ljós hvar veiðin var best. Laxá á Ásum vermir nú toppsætið með hlutfallið 2,8 laxar á stöng á dag. Það er hörkuveiði. Við erum hins vegar ekki að horfa til verðs á veiðileyfum en ef þeirri tölu yrði bætt inn í útreikninginn mætti líka sjá hvar veiðimenn fengu mest fyrir hverja krónu. Það er hins vegar ógerningur að reikna það út og sérstaklega eftir sumar eins og í sumar þar sem fjölmargar stangir voru seldar með afslætti og jafnvel aðeins fyrir brot af uppsettu verði eða gegn því að borga einungis fyrir kostnað í veiðihúsi.

Veiði á stöng á dag í Miðfjarðará í sumar var …
Veiði á stöng á dag í Miðfjarðará í sumar var 2,58 laxar. Það er með því besta sem gerðist. Hér er Rafn Valur Alfreðsson með 95 sentímetra hrygnu sem hann fékk í Skiphyl. Ljósmynd/Jóhann Birgisson

Miðfjarðará er á kunnuglegum slóðum í öðru sæti með 2,58 laxa á dagstöngina. Hér er ekki tekið tillit til þess að fyrstu vikurnar er veitt á færri stangir í Miðfjarðará. Með því fæst betri samanburður milli ára. Í fyrra var dagstöngin að gefa 1,48 laxa. Veiðimaður sem veiddi í þrjá daga í Miðfirði í sumar var með tæplega átta laxa á stöngina, að meðaltali. Í fyrra hefði sami maður getað vænst þess að fá fjóra eða fimm laxa, eða 4,44.

Andakílsá í Borgarfirði er á frábæru róli með sínar tvær stangir. Nær hlutfallinu 2,57 laxar. Í fyrra var hún undir einum. Góðar smálaxagöngur eru að telja mjög sterkt þetta sumarið.

Fínasta veiði var í Andakílsá í sumar. Þó svo að …
Fínasta veiði var í Andakílsá í sumar. Þó svo að heildartalan hafi verið lægri en í mörgum ám, þá er bara veitt á tvær stangir þar. Helga Gísladóttir landaði þessum. Dagstöngin í Andakíl gaf 2,57 laxa, sem er virkilega góð veiði. Ljósmynd/Helga Gísladóttir

Laxá í Dölum var með góða veiði í sumar og hlutfallið 2,5 laxar á dagsstöng eins og Selá í Vopnafirði. Selá státar af svo háu hlutfalli annað árið í röð. Hofsá fer líka rétt yfir tvo laxa á dagsstöngina og báðar eru þær Vopnafjarðarsystur í hæstu hæðum þegar kemur að gæðum. Aftur er rétt að nefna að Laxá í Dölum er með færri stangir fyrsta hluta veiðitímans en við reiknum ekki með því og er þá samanburðurinn marktækur milli ára. Dalirnir gáfu í fyrra rétt rúmlega lax á dag á stöng. Mikill bati þar á ferð.

Fjölmargar breytur er ástæða til að nefna. Laxá í Kjós er með færri stangir framan af, Vatnsdalsá er skráð á angling.is með átta stangir, þó svo að flest holl hafi veitt á sex. Þar notum við sex stangirnar eins og í fyrra til að samanburðurinn skili sér. Stóra Laxá bætti við stöngum fram í gljúfrum en aftur horfum við á samanburðinn milli ára. Eflaust eru fleiri þættir sem mætti nefna en niðurstaðan er samt sú að af 33 laxveiðiám er aðeins fjórar með lakara hlutfall en í fyrra en yfirgnæfandi meirihluti með mun betri veiði.

Hér fyr­ir neðan má sjá list­a yfir 33 laxveiðiár. Inn­an sviga við hverja veiðiá er fjöldi stanga. Næsti dálk­ur til­grein­ir heild­ar­veiði í sumar og inn­an sviga er fjöldi laxa á hverja stöng yfir sum­arið. Loks er það svo aðal talan, lax á hverja stöng á dag og inn­an sviga sama hlut­fall í viðkomandi á í fyrra. Þá má sjá hvort veiði hafi auk­ist eða minnkað. Við deil­um með 90 dögum í veiði á hverja stöng og fáum þannig út hversu marga laxa hver stöng var að gefa dag­lega. Töl­ur eru fengn­ar af vef Lands­sam­bands veiðifé­laga, angling.is og úr rafrænu veiðibókinni angling iQ.

Veiðisvæði                  Heild­ar­veiði/​​per stöng                Á stöng á dag

Laxá á Ásum (4)               1.008 (252)                         2,8  (1,83)

Anda­kílsá (2)*                    525 (262)                          2,62 (0,94)

Miðfjarðará (10)               2.458 (246)                         2,58 (1,48)

Laxá í Döl­um (6)               1.353 (225)                        2,50 (1,11)

Selá í Vopnafirði (6)          1.349 (225)                         2,50 (2,28)

Hofsá í Vopnafirði (6)        1.089 (181)                         2,01 (2,01)

Elliðaár (6)                         938 (156)                          1,73 (1,16)

Þverá/​​​​Kjar­ará (14)             2.239 (159)                        1,73 (1,04)

Miðfjarðará í Bakkaf. (2)      305 (152)                          1,69 (1,06)

Hrúta­fjarðará (3)                470 (156)                          1,65 (0,66)

Grímsá (8)                        1.169 (146)                         1,62 (0,97)

Jökla (8)                           1.163 (145)                         1,61  (--)

Sval­b­arðsá (3)                     429 (143)                         1,58 (1,25)

Leir­vogsá (2)                      279 (139)                          1,55 (1,69)

Flóka­dalsá (3)                    414 (138)                          1,53 (0,92)

Haffjarðará (6)                    802 (133)                         1,48 (1,67)

Laxá í Lei­rár­sveit (6–7)        858 (132)                         1,39 (0,82)

Laxá í Kjós  (8)                   911 (114)                          1,26 (0,84)

Vatns­dalsá (6-8)                 684 (114)                          1,26 (0,78)

Norðurá (15)                     1.703 (113)                        1,25 (0,80)

Langá (12)                        1.292 (107)                        1,13 (0,66)

Mýr­arkvísl (4)                     406 (101)                          1,12 (0,78)

Víðidalsá (8)                       789 (98)                            1,09 (0,89)

Sandá (4)                           381 (95)                            1,06 (0,93)

Straum­fjarðará (4)              366 (91)                            1,01 (0,96)

Hauka­dalsá (5)                   428 (85)                            0,95 (0,80) 

Sæmundará (3)                  257 (85)                            0,95 (--)

Stóra - Laxá (10)                820 (82)                            0,86 (0,58)

Hítará (6)                           431 (72)                            0,80 (0,79)

Hafralónsá (4)                    287 (72)                            0,79 (0,92)

Laxá í Aðal­dal (12)              778 (65)                           0,68 (0,63) 

Miðá í Dölum (3)                 197 (65)                           0,72 (0,53)

Blanda (8)                          327 (41)                           0,45 (0,50)

*Andakílsá færðist upp í annað sætið þegar lokatölur bárust.

Hver sem er get­ur svo farið inn á angling.is og fundið sína á og reiknað út þetta hlut­fall. En list­inn er ansi frá­brugðinn þeim lista þar sem ein­göngu er horft til heild­ar­tölu, óháð fjölda stanga. 

Leiðrétting:

Þverá/Kjarará færist upp um sæti, eftir að bent var á reikningsskekkju. Hlutfallið á stöng er 1,73 og færist hún upp um eitt sæti við þetta. Þá olli innsláttarvilla því að hún var sögð með 1.239 laxa en hið rétta er 2.239. Hlutaðeigandi eru beðnir velvirðingar á þessu.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert