Nýtt útgáfufélag hefur tekið við útgáfu Sportveiðiblaðsins. Félagið heitir Sportveiðiblaðið útgáfufélag ehf. Nýir hluthafar eru teknir við blaðinu og það eru veiðihjónin Marteinn Jónasson sem jafnframt er útgáfustjóri og Vigdís Jóhannsdóttir sem er framkvæmdastjóri félagsins. Gunnar Bender er ekki að fara neitt. Hann verður áfram ritstjóri og ábyrgðarmaður eins og hann hefur verið undanfarna rúma fjóra áratugi.
Nýtt Sportveiðiblað er í dreifingu og í leiðara þess er greint frá breytingunum, en undir leiðarann skrifa Gunnar, Marteinn og Vigdís.
Í leiðaranum, sem ber yfirskriftina Breytingar segir; „Nýtt útgáfufélag tók við útgáfunni en gert er ráð fyrir að gefa áfram út 3 tölublöð á ári í apríl, september og nóvember.
Eins og í veiðiskapnum þá er best að gera allar breytingar hægt og rólega og auðvitað er ætlunin að þróa Sportveiðiblaðið áfram og gera gott blað betra, en allt verður það gert í rólegheitum,“ segir í leiðaranum.
Marteinn Jónasson er af mörgum veiðimönnum kunnur og verið lengi í bransanum. En af hverju Sportveiðiblaðið?
„Ég er náttúrulega með meiri veiðidellu en góðu hófi gegnir og hef bara áhuga á öllu sem viðkemur veiði. Maður hefur vaxið úr grasi með Sportveiðiblaðið komandi reglulega út og maður las það alltaf upp til agna. Svo gerist það aðfaranótt 20. júní í sumar að ég vakna klukkan hálf fimm um nóttina og sko glaðvakna. Hafði farið snemma að sofa og vakna bara eins og ég væri að fara að veiða. Þá heyri ég rödd í herberginu sem segir stundarhátt. „Marteinn. Nú kaupir þú Sportveiðiblaðið.“ Ég leit í kringum mig og það var enginn nema Vigdís sofandi í herberginu. Ég sendi Gunnari Bender strax skilaboð og sagðist vilja kaupa blaðið. Hann svaraði um morguninn, „Kaffi á mánudag.“ Þegar við hittumst spurði hann mig hvernig ég hefði frétt að hann væri að spá í að selja. Hann hefði bara rætt þetta við tvo menn. Ég sagði honum frá draumnum og eitt leiddi af öðru og nú eru þessar breytingar að taka á sig mynd,“ upplýsir Marteinn í samtali við Sporðaköst.
Vigdís kona Marteins er með honum af fullum krafti í þessu verkefni og þau ætla sér stóra hluti á þessu sviði í framtíðinni. „En svo það sé á hreinu, Benderinn fer hvergi og ritstýrir áfram af krafti.“
Nýtt útlit og hönnun blaðsins er í vinnslu og það er fyrirtækið Jökulá ehf sem sér um þá vinnu en það fyrirtæki hefur sérhæft sig í að vinna með vörumerki og notendavænt umhverfi þeirra. Forvitnilegt verður að sjá hvaða andlitslyfting verður gerður á blaðinu.
Á forsíðu nýja Sportveiðiblaðsins eru feðgarnir Bubbi Morthens og Brynjar Úlfur Morthens og blaðinu lýsir sá síðarnefndi hvernig hann setti í og landaði sínum fyrsta laxi í Laxá í Aðaldal. Hann klikkir út með því að þarna muni þeir veiða um ókomna framtíð.
Annars er blaðið fullt af áhugaverðu efni og ber þar hæst viðtal við Jón Þorstein Jónsson og veiðileiðsögukonuna Unni Guðnýju. Skemmtileg lesning þegar búið er að hengja upp vöðlurnar og þær fá loksins að þorna.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |