Laxveiðitímabilinu er lokið í náttúrulegu laxveiðiánum. Lokatölur voru að koma í hús allt þar til í gær. Niðurstöðan er gott veiðisumar, eftir fimm mögur ár. Lokatalan úr Andakílsá var ekki ljós fyrr en í gær. Laxá á Ásum og Andakílsá eru nánast jafnar hvað varðar veiði á stöng á dag. Ásarnir hafa þó naumlega vinninginn og er það fyrst og fremst vegna þess að þar er veiðitímabilið styttra.
Andakílsá gaf 525 laxa á tvær stangir eða 262 laxa á stöngina. Laxá á Ásum var með 1008 laxa veiði á fjórar stangir, eða 252 laxa á stöng. Hins vegar var veitt í færri daga í Ásunum og það færir henni efsta sætið. Ekki ólíkt því þegar reiknað er út hvaða knattspyrnumaður er markahæstur. Ef tveir skora jafn mörg mörk þá skiptir fjöldi leikja máli.
Laxá á Ásum er með hlutfallið 2,8 laxar á stöng á dag. Andakílsá er með hlutfallið 2,62 þegar tekið hefur verið tillit til lengd veiðitímabils. Magnaður árangur í á sem að margir óttuðust um eftir umhverfisslysið í maí 2017 þegar gríðarlegt magn af aur barst úr inntakslóni virkjunarinnar niður á fiskgenga hluta árinnar.
Með þessum síðustu „utankjörfundaratkvæðum“ fer Andakílsá upp fyrir Miðfjarðará hvað varðar veiði á stöng á dag og færist upp í annað sætið. Sveiflan í Andakílnum er afar mikil milli ára en í fyrra var hún með hlutfallið 0,94. Þessi mikla sveifla undirstrikar hversu mikilvægur smálaxinn er fyrir Vesturlandið en sumarið 2024 er besta smálaxaár í býsna langan tíma.
Listinn sem birtum í gær yfir bestu veiðina, það er veiði á stöng á dag hefur verið uppfærður til samræmis við lokatölur úr Andakílsá.
Ytri–Rangá var með fína veiði í síðustu viku og gaf 309 laxa. Sama vika í fyrra gaf 179 laxa. Veiðin í sumar í Ytri hefur verið umtalsvert betri en í fyrra. Eystri–Rangá er með rólegra yfirbragð en fór þó yfir tvö þúsund laxa í vikunni. Vikan þar gaf 76 laxa á móti 108 í sömu viku í fyrra. Eystri er nokkuð undir veiðitölum í fyrra. Hún hafði gefið 2455 laxa 4. október í fyrra.
Hér fyrir neðan er listi yfir þær fimmtíu ár sem við höfum fylgst með í sumar. Fyrsti dálkurinn er lokatalan 2024. Árnar sem alfarið byggja á seiðasleppingum eru enn opnar og miðast tölur í þeim við 2. október. Dálkur tvö, segir til um hver veiðin var í fyrra. Þriðji dálkurinn er svo prósentubreyting milli ára, þar sem þær upplýsingar eru fáanlegar. Lokatölur eru feitletraðar.
Vatnasvæði Í sumar 2023 Breyting í %
Ytri–Rangá 4379 3587 --
Miðfjarðará 2458 1334 84%
Þverá/Kjarará 2239 1306 71%
Eystri–Rangá 2013 2602 --
Norðurá 1703 1087 57%
Laxá í Dölum 1353 645 --
Selá í Vopnafirði 1349 1234 9%
Langá á Mýrum 1292 709 82%
Grímsá 1169 719 --
Jökla 1163 525 142%
Hofsá 1089 1088 0%
Laxá á Ásum 1008 660 --
Elliðaár 938 625 50%
Laxá í Kjós 911 603 56%
Laxá í Leirársveit 858 516 --
Stóra Laxá 821 794 --
Laxá í Aðaldal 820 685 20%
Haffjarðará 802 905 --
Víðidalsá 789 645 26%
Urriðafoss* 719 731 --
Vatnsdalsá 684 421 --
Andakílsá 525 177 --
Hrútafjarðará 470 185 154%
Hítará 431 426 1%
Svalbarðsá 429 340 --
Haukadalsá 428 373 13%
Flókadalsá 414 248 --
Mýrarkvísl 406 283 --
Skjálfandafljót 382 -- --
Sandá í Þistilfirði 381 336 13%
Straumfjarðará 366 345 6%
Blanda 327 359 -9%
Miðfjarðará í Bf. 305 191 60%
Hólsá Austurbakki 295 426 --
Hafralónsá 287 333 -14%
Leirvogsá 279 303 -8%
Úlfarsá (Korpa) 259 173 50%
Brennan 228 122 87%
Miðá í Dölum 202 144 38%
Gljúfurá í Borgarf. 191 171 --
Straumar 171 92 86%
Fnjóská 170 331 --
Flekkudalsá 148 -- --
Laugardalsá 124 -- --
Fljótaá 114 102 -9%
Svartá í Húnavatnss. 110 131 -15%
Affall* 100 381 --
Skuggi 81 77 --
Sunnudalsá* 72 73 -1%
Þverá í Fljótshlíð* 58 76 --
*Vantar nýjar tölur
Tölurnar er fengnar af angling.is sem er vefur Landssambands veiðifélaga og einnig var leitað til leigutaka, þar sem vantaði upplýsingar um lokatölur.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |