Finnur varpar sprengju í veiðideilu

Ármót Stóru Laxár og Hvítár. Iða á þetta land og …
Ármót Stóru Laxár og Hvítár. Iða á þetta land og um kílómetra upp eftir Stóru Laxá. Um veiðirétt var gerður samningur 1978 sem nú hefur verið sagt upp. Ljósmynd/Finnur Harðarson

Harðar og á köflum harkalegar deilur hafa staðið milli Finns Harðarsonar, landeiganda og leigutaka að Stóru Laxá í Hreppum annars vegar og landeigenda að Hvítá við Iðu, þar sem árnar renna saman. Finnur hefur verið afar ósáttur við þær veiðireglur sem hafa verið í gangi meðal hluta veiðimanna sem stunda veiði á svæðinu. Hefur komið ítrekað til orðaskipta og stutt verið í að hreinlega til átaka kæmi. Enn oftar hefur verið óskað eftir lögreglu á svæðið vegna aðkomu Finns en tvennum sögum fer af þessum deilum.

Finnur Harðarson tilkynnti á facebook í morgun að Veiðifélag Stóru Laxár hefði sagt upp samningi um Iðuna. Sá samningur er frá árinu 1978 og dagsettur 21. ágúst. Samningurinn er einfaldur og hljóðar svo. „Við undirritaðir veiðiréttareigendur, að Stóru Laxá fyrir landi Iðu í Biskupstungum, gerum svofelldan samning við Stóru Laxárdeild Veiðifélags Árnesinga:

Veiði verði ekki leigð í Stóru Laxá frá ósi að mörkum Iðu og Eiríksbakka og þá heldur ekki greiddur arður fyrir árseiningar fyrir sama svæði.“

Undir samninginn rita fjórir fyrir hönd Iðu og þrír fyrir hönd Stóru Laxárdeildarinnar.

Nú hefur þessum samningi verið sagt upp. Finnur greindi frá þessari stöðu í færslu í morgun. Þar skrifaði hann meðal annars. „Samkvæmt lögum um lax– og silungsveiði þá þýðir það að veiðimenn í Stóru Laxá geta veitt vatnaskilin niður að brú og með kemur auðvitað aukið eftirlit og bætt umgengni.“

„Óskuðum eftir betri umgengni“

Finnur staðfesti þetta í samtali við Sporðaköst og sagði jafnframt að þetta væri ekki flókið mál. „Við óskuðum eftir bættri umgengni en við því var ekki orðið og því segjum við upp samningnum. Þau hafa átt rétt á setu á fundum veiðifélagsins en verið þar án atkvæðisréttar og arðgreiðsla. Þau hafa bara hlustað sem gestir. Nú breytist þetta þannig að þau eru einfaldlega komin inn í veiðifélagið og nú gilda lög um lax– og silungsveiði og samkvæmt þeim lögum þá er okkur heimilt að veiða vatnaskilin. Stóra Laxá og Hvítá renna þarna saman og því megum við veiða svæðið niður að brú yfir Hvítá. Þau á móti fá atkvæðisrétt og arðgreiðslur,“ upplýsti Finnur í samtali.

Eftir að samningnum var sagt upp hafa fulltrúar frá Iðu óskað eftir fundi með veiðifélagi Stóru Laxár. Ekki er komin tímasetning á þann fund en búist við því að hann verði haldinn fljótlega.

Finnur Harðarson sagar í sundur enn einn lásinn sem lokar …
Finnur Harðarson sagar í sundur enn einn lásinn sem lokar veginum að veiðisvæði Iðu. Finnur segist bæði hafa verið læstur inni og úti og hafnar því að þetta sé einkavegur. Ljósmynd/Aðsend

 Mikill misskilningur

Helgi S. Haraldsson er hluti af þeim hópi sem kallast Iða I. Hann segir málið vera mikinn misskilning og að það sé „galið“ að halda því fram að með þessu geti Stóra Laxá yfirtekið veiði í því einkalandi sem Iða á að Hvítá. „Samkomulagið snýr að því að landeigendur Iðu eiga land að Stóru Laxá á tæplega kílómeters svæði og eiga rétt á atkvæðum og arði. Gegn því að afsala sér þeim réttindum þá yrði ekki veitt í Stóru Laxá fyrir landi Iðu. Það kemur ekkert við landi Iðu að Hvítá. Það er gjör ólíkur hlutur,“ sagði Helgi í samtali við Sporðaköst.

En hvað tekur þá við? Dómsmál?

„Við þurfum að útskýra þetta fyrir þeim. Það liggur fyrir að eignaréttur og veiðiréttur landeigenda er bundinn í lög og fylgir jörðum og landareign. Það getur enginn vaðið yfir það og það er alger misskilningur á þessu samkomulagi og ótrúlegt af mönnum að vera svo skini skroppnir að halda að þeir geti yfirtekið veiðirétt í öðru veiðivatni. Það sér það hver heilvita maður að það þarf ekki einu sinni að spyrja lögfræðinga að því.“

Hvað gerist næst?

„Því hefur verið haldið fram að við höfum ekki viljað funda með stjórn Stóru Laxárdeildarinnar. Það er bara þvæla. Það hefur ekki borist formlegt boð um það fyrr en nú í sumar,“ upplýsti Helgi. Hann vitnar einnig til deilna við Finn Harðarson á veiðislóð og að það hafi hleypt mjög illu blóði í landeigendur. Þó hafi verið tekin ákvörðun um að hitta stjórn Stóru Laxárdeildarinnar en það hafi tekið tíma að ná tali af öllum í þeirra hópi. Í millitíðinni hafi svo borist tölvupóstur þess efnis að áðurnefndu samkomulagi hafi verið sagt upp einhliða og að þau gæfu landeigendum hálfs mánaðar frest til að bregðast við.

Samningurinn frá 21. ágúst 1978. Stjórn Veiðifélags Stóru Laxár hefur …
Samningurinn frá 21. ágúst 1978. Stjórn Veiðifélags Stóru Laxár hefur nú sagt þessum samningi upp. Helgi S. Haraldsson sem er í landeigendahópi Iðu I segir málið mikinn misskilning. Ljósmynd/Aðsend

„Okkar fulltrúi sem verður á þessum fundi er staddur erlendis og kemur heim nú um helgina og við erum að undirbúa að hitta þau. Þannig að næsta skref er fundur landeigenda við Iðu með stjórn Stóru Laxárdeildar Veiðifélags Árnesinga. Við skulum alveg halda því til haga að að þetta er ekki stjórn Veiðifélags Stóru Laxár. Þau hafa ekki fengið það samþykkt að kljúfa sig út úr Veiðifélagi Árnesinga, eins og þau hafa óskað eftir.“

Helgi hafnar þeirri túlkun að veiðimenn í Stóru Laxá geti nú veitt vatnaskil við Hvítá sem ná stundum alveg niður að brú. Hann segir ekki hægt að skilgreina vatnaskil eftir því hvernig vatnið er á litinn. Það hljóti að takmarkast við landareign.

Afskaplega ósammala

Miðað við svör Helga og Finns verður að teljast líklegt að sérfróðir menn muni fjalla um þetta í framtíðinni og þá væntanlega í réttarsal.

Veitt er á þrjár stangir í Hvítá við Iðu og má rekja tilurð þeirra aftur til ársins 1927 þegar þrír einstaklingar keyptu landið við Hvítá og voru þar með þrjár netalagnir. Síðar gerðist það að ein stöng kom í stað hverrar netalagnar þegar netaveiði var hætt. 

Veiðileyfi á Iðu hafa ekki verið á almennum markaði og þangað aðeins komist þeir sem tilheyra hópnum sem eru landeigendur eða með tengsl við þá. Sagðar hafa verið tröllasögur af veiði á svæðinu en að sama skapi hafa veiðitölur ekki verið opinberar. Ljóst er að aðdráttarafl Stóru Laxár myndi aukast verulega yrði svæðið tekið inn í skiptinu í ánni. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka