Heimildamyndin Strengur var forsýnd í gærkvöldi, fyrir aðstandendur myndarinnar, vini og vandamenn. Myndin fjallar um fjölskylduna í Árnesi sem hefur búið og starfað við Laxá í Aðaldal í sjö kynslóðir en aðalpersónur eru einmitt nýja kynslóðin sem er mætt á bakkann. Fylgir myndin fjórum ungum konum sem eru að stíga sín fyrstu skref sem leiðsögumenn við ánna, þróun þeirra og þroska, yfir heilt sumar, þar sem þær taka á móti innlendum sem erlendum veiðikonum.
Sporðaköst voru þess heiðurs aðnjótandi að fá boð á forsýninguna. Ungu konurnar fjórar, þær Arndís Inga og Áslaug Anna, Árna Péturs dætur og systurnar Andrea Ósk og Alexandra Hermóðsdætur eru umfjöllunarefni myndarinnar. Þessar fjórar ungu konur eru í einu orði sagt frábærar í myndinni. Þær munu engan láta ósnortinn. Fjórar stjörnur til viðbótar eru komnar fram á sjónvarsviðið í Aðaldal. Það sem gerir þær að stjörnum er að þær hrífa áhorfandann með sér. Þær ná að vera þær sjálfar þó svo að kvikmyndavélin beinist að þeim og jafnvel fjöldi fólks sé að taka upp þeirra samræður og athafnir. Þær efast um hvort þær séu tilbúnar til að sinna veiðimönnum og aðstoða. Sá efi er svo eðlilegur og í myndinni upplifa þær vandræði, spennu en standa uppi sem reyndari leiðsögumenn og sigurvegarar. Að koma þessum nagandi efa um eigin frammistöðu til skila til áhorfenda tókst fullkomlega. Það var einmitt þess vegna sem troðfullur salurinn í Smárabíó brast í dynjandi lófatak í hvert skipti sem þær háfuðu fisk fyrir viðskiptavini sína.
Það var gaman að sjá að þó að viðskiptavinir þeirra væru þekktar íslenskar konur í bland við alþjóðlegar stjörnur á borð við Katheryn Winnick sem leikið hefur í fjölmörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, þá skyggðu þær stjörnur aldrei á Aðaldalsstjörnurnar ungu. Þær voru umfjöllunarefnið og Gagga Jónsdóttir leikstjóri var með fullan fókus að raunverulegu stjörnurnar.
Fyrirsögn þessarar fréttar segir – fjórar stjörnur. Þar er vísað í frænkurnar fjórar en myndin mun án efa líka standa undir slíkri einkunnagjöf. Það er fallegur strengur sem gengur í gegnum myndina. Fjölskyldusaga sem fléttast saman við náttúru sem að steðja ógnir sem mögulega geta rænt þessar ungu konur framtíðaráformum.
Íslenska lopapeysan var í öflugu aukahlutverki í myndinni. Nú þegar kólnar og styttist í vetur mun marga langa til að klæðast slíkum peysum. Frænkurnar fjórar og feður þeirra skörtuðu öll þessum peysum. Þær voru ekki bara fallegar heldur komst vel til skila hversu vel þær héldu utan um þau öll.
Aðalframleiðandi myndarinnar er Aðalsteinn Jóhannsson, en hann þekkir vel til, bæði í Laxá og ekki síður í Aðaldal enda veitt ána til fjölmargra ára.
Strengur er ný heimildamynd framleidd í samstarfi við SagaFilm og leikstýrt af Göggu Jónsdóttur. Stjórn kvikmyndatöku er í höndum Björns Ófeigssonar, Anna Karín Lárusdóttir klippir og Davíð Berndsen semur tónlistina við myndina. Frekari dreifing hennar er áætluð eftir væntanlegt ferðalag hennar um kvikmyndahátíðir heims næstu mánuði.
Líklegt verður að teljast að myndin verði sýnd á RÚV, næstu jól og verður þá án efa einn af hápunktum jóladagskrár ríkisfjölmiðilsins.
Fyllsta ástæða er til að óska aðstandendum myndarinnar til hamingju með verkið.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |