Völli vitjaði leiðsögumannsins í draumi

Fulldúðaður og dugði varla til. Guðmundur Helgi leiðsögumaður tók þessa …
Fulldúðaður og dugði varla til. Guðmundur Helgi leiðsögumaður tók þessa sjálfsmynd og veðrið sem þeir félagar glímdu við kemst ágætlega til skila. Ljósmynd/Guðmundur Helgi Bjarnason

„Þetta var 9. til 12. september og maður vonaðist eftir mildu og fallegu haustveðri, en nei. Veðrið var í einu orði sagt ömurlegt. Hífandi rok og aðeins litur í ánni og kirsuberið var svo skítakuldi,“ hlær Arnar Rósenkranz Hilmarsson, trymbill og fluguhnýtari, þegar hann rifjar upp áhugaverða sögu frá veiðisumrinu. 

Þeir veiðimenn sem voru við veiðar þessa daga muna illviðrið sem gekk yfir landið. Fullorðin haustlægð og veður sem enginn óskar sér í langþráðum veiðitúr. Arnar var á stöng með Sindra Rósenkranz frænda sínum og á hinni voru Guðmundur Orri Rósenkranz og félagi hans.

„Það var léleg veiði og veðrið hreinlega fráleitt. En maður getur bara valið sér dagsetningar í þessu sporti og svo þarf að taka því sem að höndum ber,“ sagði Arnar. Leiðsögumaður með honum var Guðmundur Helgi Bjarnason, lögreglumaður. Arnar var búinn að landa einum laxi í Oddahyl og þar hafði Guðmundur Orri frændi hans líka fengið lax. En þetta var rólegt.

Rennandi blautir. Samt var gaman hjá strákunum. Veiðin var róleg …
Rennandi blautir. Samt var gaman hjá strákunum. Veiðin var róleg en Völli vitjaði Guðmundar í draumi og gaf ráð. Nafnarnir Guðmundur Helgi og Guðmundur Orri brosa upp í veðrið. Ljósmynd/Guðmundur Helgi Bjarnason

Draumurinn með Völla

Þegar seinnipartsvaktin var að byrja og þeir félagar að gera sig klára, ekki bara í veiðina heldur fyrst og fremst í veðrið, segir Guðmundur, „Völli vitjaði mín áðan í draumi, þegar ég lagði mig.“

Arnar leit upp frá vöðluskónum og með vonarglampa í augum spurði hann, „Já. Og hvað?“

Völli, eða Völundur Þorsteinn Hermóðsson lést á fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri þann 26. október 2022. Hann var leiðtogi allra sem stunduðu og veiddu Laxá í Aðaldal. Hafði verið í leiðsögn í hartnær sjö áratugi við ána sína. Nafnið hans er sagt með virðingu í dalnum.

„Já. Þetta var svolítið magnaður draumur. Völli var að tala við mig og ég áttaði mig ekki á því hvar við vorum, en hann sagði mér að leita á jaðarstaði. Hann sagði mér líka að muna að vera rólegur. Völli stríddi mér oft og sagði að ég væri með of urriðavanar hendur þegar stóru laxarnir kæmu í fluguna hjá mér,“ svaraði Guðmundur spurningu Arnars.

„Hvert förum við?“ spurði Arnar. Guðmundur sagði honum að hann hefði hringt í pabba sinn, Bjarna Höskuldsson og beðið hann um að túlka drauminn með sér. „Pabbi stakk upp á Hrúthólmanum. Hann veiddi oft með Völla og lærði á Hrúthólmann af honum. Pabbi sagði að Völli hefði einmitt oft kíkt í Hrúthólmann í september.“

Fyrir þá sem ekki þekkja til þeirra feðga þá hafa fáir veitt Laxá meir og oftar en sérstaklega Bjarni Höskuldsson. Hann hefur vissulega mest veitt á efri hluta árinnar og ekki margir þekkja urriðahluta Laxár betur en einmitt Bjarni. En hann er alvanur í allri Laxá.

Arnar tók ekki mikið af myndum, aðallega sökum veðurs, en …
Arnar tók ekki mikið af myndum, aðallega sökum veðurs, en hrútarnir skammt frá Hrúthólma töluðu til hans. Ljósmynd/Arnar Rósenkranz

Vonin endurnýjuð

Arnar veðraðist allur upp. „Ég tengi svo við þetta. Ég er sjálfur hrútur og manstu hrútana sem ég var að skoða í morgun þar sem þeir lágu og jórtruðu og veðrið virtist ekki skipta þá nokkru máli.“

Það var því með endurnýjaða von sem þeir félagar óku veiðislóðann síðasta spölinn að Hólmavaðsstíflu en Hrúthólmi er þar skammt fyrir neðan. Guðmundur sagði Arnari að labba með sér en hinir þrír voru nýbúnir að landa hæng á Stíflunni þegar þeir röltu af stað. 

Skyndilega hafði rofað til og sást í bláan himinn. Arnar var með fluguna Phatakorva undir og honum fannst hún vera enn eitt púslið í þessa áhugaverðu stöðu. Þeir óðu út og komu sér fyrir á hentugum stað. Fyrst tuttugu köstin skiluðu engu. Þeir hugsuðu báðir það sama. Fyrst að Völli hafði oft veitt þennan stað í september þá væri góð von.

Arnar var að ræða drauminn við Guðmund og spyrja frekar út í hann. „Var eitthvað meira sem hann sagði?“ Guðmundur hugsaði sig um og sagði svo, „bara að vera rólegur.“ Arnar leit á leiðsögumanninn eitt augnablik en sá líka út undan sér hvar stórlax kemur upp í yfirborðið og ræðst á fluguna. Arnar var einmitt að búa sig undir að kasta á nýjan leik og það kom sjaldgæft fát á trommuleikarann. Fiskurinn reif út línu og svo var allt slakt. „Úff. Ég strækaði hann.“ 

Veðurguðunum runnin reiðin og eins og hendi væri veifað var …
Veðurguðunum runnin reiðin og eins og hendi væri veifað var komið fínasta veður. Það var þó ekki lengi og fljótlega reif hann sig upp aftur. Hér er komið lopapeysuveður og Arnar skartar þessari líku huggulegu peysu sem tengdó prjónaði. Ljósmynd/GHB

Þessi fágæti möguleiki, að setja í lax við þær erfiðu aðstæður sem þeir glímdu við, var farinn. Þeir vissu það báðir. Vindurinn hafði orðið í nokkrar sekúndur og þeir einblíndu á staðinn þar sem hann hafði komið upp. „Var eitthvað meira í draumnum?“ Spurði Arnar. „Nei. Bara að passa okkur að stræka hann ekki. En Völli var hlæjandi.“ Eftir stutta þögn fara þeir báðir að hlæja. Skellihlæja. „Hann hefur vitað þetta, kallinn,“ segir Arnar enn hlæjandi.

Guðmundur sagði í samtali við Sporðaköst að þetta hafi verið í eina skiptið sem hann hafi séð Arnar stræka lax. „Völla hefur grunað þetta,“ brosti hann. Guðmundur staðfestir söguna og viðurkennir að það komi fyrir að hann dreymi fyrir hlutum. „Ekki oft en þetta var bara svo skírt að ég varð að hringja í pabba og hann túlkaði þetta svona. Sem reyndist heldur betur rétt.“

Það náðust nokkrir laxar þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Hér er …
Það náðust nokkrir laxar þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Hér er Guðmundur Orri Rósenkranz með laxinn af Hólmavaðsstíflu. Kuldalegur en hann er hættur að rigna. Ljósmynd/GHB

Þeir Guðmundur Helgi og Arnar eignuðust þarna minningu sem mun fylgja þeim alla tíð og verður tilefni til upprifjunar næstu áratugi. Það eru ekki bara fiskarnir sem landast sem eru minnisstæðir. Stundum er það eitthvað allt annað.  

Sindri Rósenkranz fékk þennan í Oddahyl. Vatnsveðrið í hápunkti. Arnar …
Sindri Rósenkranz fékk þennan í Oddahyl. Vatnsveðrið í hápunkti. Arnar fékk lax þarna líka en myndatökur voru í lágmarki sökum aðstæðna. Ljósmynd/GHB

Lilla kom ekki aftur

Það að Völli fylgist áfram með Laxá í Aðaldal þarf ekki að koma neinum á óvart og að andi hans svífi sem lengst yfir „Big Laxá“ er ómetanlegt.

En fleiri hornsteinar í Laxá hafa horfið. Lilla Black sem veiddi Aðaldalinn í ríflega þrjátíu ár er látin. Síðasta heimsókn hennar í dalinn sem hún unni svo mjög var sumarið 2019, þegar Sporðaköst tók upp þátt með henni og hluta af fjölskyldunni hennar við veiðar í Nesi. Hér fylgir með hlekkur á brot úr þættinum sem Sporðaköst mynduðu. Líkast til er þetta síðasti laxinn sem Lilla landaði í Aðaldal. Hún og Völli voru miklir vinir og var hann með hana í leiðsögn á meðan að heilsa hans leyfði. 

Þegar við mynduðum Lillu var mikil gæfa með í för. Hollið á undan Lillu og fjölskyldu hafði á þremur dögum fengið einn lax. Stöngin hennar Lillu landaði fimm og þar af voru þrír stórlaxar. Laxá kvaddi Lillu með sóma en vert er að hafa í huga að þetta var myndað þurrkasumarið mikla þegar veiði var víðast hvar afar léleg.

Völundur Þorsteinn Hermóðsson á græna Cherokee jeppanum og að sjálfsögðu …
Völundur Þorsteinn Hermóðsson á græna Cherokee jeppanum og að sjálfsögðu er Laxá í baksýn. Völli lést fyrir tæpum tveimur árum en andi hans svífur yfir Laxá. Ljósmynd/ÁPH

Blessuð sé minning þeirra Völla og Lillu. En framtíðin í dalnum er björt. Heimildamyndin Strengur sem forsýnd var fyrir helgi staðfestir það. Fjórar ungar konur eru að taka við keflinu og eru þær dætur bræðranna, annars vegar Árna Péturs og hins vegar Hermóðs Hilmarssona sem í dag annast Laxá í Aðaldal.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert