Sala á veiðileyfum er komin á fullt fyrir næsta sumar. Erfitt er að nálgast upplýsingar um verð á veiðileyfum í mörgum ám. Sporðaköst hafa nú sent beiðni á flesta veiðileyfasala landsins og óskað eftir upplýsingum um verðbreytingar. Hvort að verð á veiðileyfum fyrir næsta sumar, hækki, lækki eða standi í stað. Við óskuðum eftir breytingu í prósentum enda erfitt að eiga við krónutölu þegar verð eru ekki opinber.
Við munum undir lok mánaðarins birta svör frá þeim sem selja veiðileyfi í helstu laxveiðiár á Íslandi. Við höfum ekki tök á því að sannreyna þær upplýsingar sem munu berast en við vitum að veiðimenn eru á tánum og geta borið reikninga fyrir næsta ár saman við fyrri reikninga.
Ekki er óeðlilegt að reikna með afar hógværum hækkunum þar sem verðbólga hefur verið nokkur þó að hún sé að gefa eftir. Margir leigusamningar um laxveiðiár er verðtryggðir með einhverjum hætti. Mjög misjafnt er þó hvernig staðið er að því. Til eru dæmi um að samningar hækki milli ára um ákveðna krónutölu. Einnig er þekkt að prósentuhækkanir eigi sér stað og svo kann að vera að einhverjir samningar séu verðtryggðir að fullu. Væntanlega munu þessar samningsbundnu hækkanir að einhverju leit koma fram í verðlagningunni. Svo er það hitt að framlengdir samningar kunna að hafa verið hækkaðir og væntanlega gera menn þá grein fyrir því ef hækkanir milli ára eru umfram það sem verðtrygging gæfi tilefni til.
Þeir leigutakar eða félög sem óskað hefur verið eftir upplýsingum frá eru: Hreggnasi, með Grímsá, Laxá í Dölum og Svalbarðsá. Stangaveiðifélag Reykjavíkur, með Langá, Elliðaár, Korpu, Leirvogsá, Sandá í Þistilfirði og fleiri. Starir með, Þverá/Kjarará og Víðidalsá. Strengir, með Jöklu og Hrútafjarðará. Six Rivers Iceland, með Selá, Hofsá, Miðfjarðará í Bakkafirði og Hafralónsá ásamt fleirum. Iceland Outfitters, með Urriðafoss og Ytri Rangá. Kolskeggur, með Eystri Rangá, Affallið og Þverá. Þá höfum við óskað eftir sömu upplýsingum frá leigutökum og/eða umboðssöluaðilum sem leigja eða reka eftirtaldar ár: Laxá í Aðaldal, Mýrarkvísl, Laxá á Ásum, Vatnsdalsá, Miðfjarðará, Norðurá, Hítará, Laxá í Kjós og Laxá í Leirársveit.
Í þeim staðlaða tölvupósti sem við sendum á ofangreinda aðila er einnig óskað eftir upplýsingum um verðbreytingar á gistingu í viðkomandi veiðihúsum. Viðbúið er að þar megi sjá hækkanir. En sjáum hvað setur.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |