Veruleg verðlækkun í Blöndu

Tekist á við lax í Blöndu. Nýr rekstraraðili sem er …
Tekist á við lax í Blöndu. Nýr rekstraraðili sem er Fish Partner segir verðin lækka mikið þar í sumar. Veiðin síðustu tvö ár hefur verið léleg í Blöndu. Svo kemur nýtt ár og hvað gerist þá? Ljósmynd/Fish Partner

Nýr rekstraraðili er tekinn við Blöndu, eins og við höfum greint frá. Það er félagið Fish Partner sem sér um umboðssölu á veiðileyfum Blöndu og Svartá fyrir veiðifélagið. Félagið tekur við ánni á afar erfiðum tíma. Veiði í Blöndu hefur verið mjög döpur síðustu ár. Erfiðlega gekk að selja veiðileyfi í hana í sumar og veiðimenn jafnvel fúlsuðu við miklum afsláttar tilboðum. Síðustu tvö sumur í Blöndu eru með þeim allra lélegustu frá árinu 1974.

Það er ljóst að Blanda mun ekki selja sig sjálf fyrir næsta sumar. Kristján Páll Rafnsson, eigandi og framkvæmdastjóri Fish Partner er mjög meðvitaður um þá stöðu. „Við erum að bjóða upp á ýmis konar nýjungar og erum að lækka verðið umtalsvert frá því sem verið hefur. Vandamálið okkar er hins vegar það að við höfum ekki upplýsingar um verðskrána sem var í sumar og höfum því þurft að fara lengri leiðina til að ná þeim upplýsingum,“ segir Kristján Páll í samtali við Sporðaköst.

Besti tíminn undir 100 þúsund

Hann upplýsir að verðið á besta tíma yfir sumarið verður í kringum 94 þúsund krónur. Hann fullyrðir að það sé mikil lækkun frá því sem var i fyrra. Húsgjaldið verður 42 þúsund krónur fyrir sólarhringinn. Opnunin í Blöndu hefur alltaf þótt mjög spennandi en síðustu ár hefur hún skilað litlu. Verðið á stöng í opnuninni verður í kringum hundrað þúsund krónur, næsta sumar.

Fish Partner mun kynna nýjungar. Þeir ætla að bjóða upp á tvíhendu námskeið/veiðiferð í Blöndu. Þar er um að ræða tveggja daga kennslu og veiði. Fyrri hluta námskeiðsins verður fólki kennt að kasta og mun Glenda Powell flugukastkennari frá Írlandi annast þann hluta. Síðari hlutinn er svo veiði með tvíhendum á neðsta svæðinu í Blöndu. „Steini Haf mun hlaupa bakka á milli og leiðseigja fólki á námskeiðinu og þar munu þátttakendur hafa tækifæri til að setja í stórlax á tvíhendu. Tveggja daga pakki kostar 86 þúsund fyrir utan gistingu. Pláss verður fyrir átta manns á hverju námskeiði. Hægt er að sækja um niðurgreiðslu til stéttarfélags vegna þátttöku,“ upplýsir Kristján Páll.

Ein af nýjungunum verður að sigla niður gljúfrin á svæði …
Ein af nýjungunum verður að sigla niður gljúfrin á svæði þrjú. Þeir hafa þegar prófað þetta og hér er tvíbyttnan sem notuð verður í verkefnið. Ljósmynd/Fish Partner

Gljúfraveiði úr báti

Nýr valkostur verður í boði á svæði þrjú. Þar munu veiðimenn geta veitt gljúfrin af báti sem fer frá Skurðinum og verður veitt niður gljúfrin að brúnni ofarlega í Blöndudal. Kristján segir að nýr bátur verði í þessu verkefni. „Tvíbyttna sem við ætlum að vera með sérstaklega í þetta. Þetta hefur ekki verið gert áður og verður án efa skemmtileg og ný upplifun.“

Þá eru uppi hugmyndir um að veiða ósasvæðið og vera þar með tvær stangir fyrir silung. Ný nýtingaráætlun hefur verið send Fiskistofu og beðið er eftir viðbrögðum frá stofnuninni og þar með samþykkt á þessum áformum.

Allt eru þetta skemmtilegir hlutir og áhugaverðir. Hins vegar er sala laxveiðileyfa í Blöndu og Svartá stóra málið. Kristján Páll segir að veruleg verðlækkun verði á leyfum í Blöndu en að verð í Svartá verði á svipuðu róli og í fyrra. Hann segir jafnframt að aðalsölutímabilið þeirra fyrir Blöndu sé janúar og febrúar og þá komi betur í ljós hver viðbrögðin verða.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert