Ólík hlutskipti Rangánna í sumar

Lax númer þúsund í Ytri Rangá sumarið 2024. Þessi veiddist …
Lax númer þúsund í Ytri Rangá sumarið 2024. Þessi veiddist í lok júlí en áin endaði í 4.931 laxi. Síðasti veiðidagur var í gær. Ljósmynd/IO

Tæplega sjö mánaða löngu stangveiðitímabili lauk í gær. Þá lokuðu sjóbirtingsárnar fyrir austan og víðar reyndar og árnar sem byggja alfarið á seiðasleppingum. Í þann flokk falla Rangárnar, Affallið og Þverá í Fljótshlíð.

Blessunarlega eru bara tólf mánuðir í árinu og þar af leiðir að ekki eru nema rúmir fimm mánuðir þar til leikurinn hefst aftur. Það eru 161 dagur þar til vorveiðin í sjóbirtingi hefst á nýjan leik, þann 1. apríl á næsta ári.

Lokatölur eru komnar úr Rangánum. Ytri Rangá og Hólsá endaði í 4.931 laxi og er það hennar næst besta ár frá 2017. Sumarið 2022 fór hún upp fyrir fimm þúsund og endaði í 5.086 löxum.

Breyting verður á fyrirkomulaginu í Ytri Rangá næsta sumar. Fjórar stangir hafa verið seldar sér í Hólsá og verið boðið upp á að veiðimenn sæju um sig sjálfir þar. Nú verður þetta svæði tekið inn í svæðaskiptingu en á móti kemur að stöngum verður fækkað um tvær. Þannig verður Ytri veidd í einni samfellu frá Guttlfossbreiðu niður að Borg.

Harpa Hlín Þórðardóttir sem ásamt Stefáni Sigurðssyni reka Ytri Rangá, segir þetta góða breytingu. „Við teljum að þetta sé mikill kostur fyrir veiðimenn í Ytri Rangá. Veiðisvæðið lengist umtalsvert og það koma inn góðir veiðistaðir. Þetta er frábær breyting,“ sagði Harpa í samtali við Sporðaköst.

Fram til þessa hefur verið veitt á 12 til 18 stangir í Ytri, eftir tímabilum og fjórar stangir verið leyfðar í Hólsá. Nú verður veitt á öllum svæðinu með 12 til 20 stöngum, að sögn Hörpu.

Haustbirta við Eystri Rangá. Veiðin í sumar var róleg. Síðasti …
Haustbirta við Eystri Rangá. Veiðin í sumar var róleg. Síðasti veiðidagur var í gær og komu alls 2.218 laxar á land í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Eystri Rangá var frekar slök í sumar og skilaði 2.221 löxum sem er hennar næst lélegasta ár eins langt aftur og við getum séð á vef angling.is. Hún var í sumar á svipuðu róli og árið 2017 þegar veiðin var 2.143 laxar. Er það mál manna að minna hafi verið af fiski í Eystri en til að mynda í fyrra. Aðstæður voru á löngum köflum erfiðar og óvenju margir dagar sem áin var lituð.

Sveiflur í Eystri hafa verið mjög miklar í gegnum tíðina. Hennar besta ár var 2020. Það sumar voru skráðir 9.076 laxar. Linkur á eina af mörgum fréttum um Eystri það sumarið fylgir hér með.

Ef reiknuð er út veiðin á stangardag þá er Ytri Rangá með hlutfallið 2,05 fiskar á stöng á dag. Eystri Rangá er með hlutfallið 1,02.

Við tókum á dögunum saman lista yfir veiði á stöng á dag fyrir helstu laxveiðiárnar og fylgir hlekkur á þá frétt. Veiðitímabilið í Rangánum er mun lengra en gerist í náttúrulegu ánum og munar þar mánuði. Við tókum tillit til þess í útreikningunum. Ytri er með mjög svipað hlutfall og Hofsá í Vopnarfirði sem gaf 2,01 laxa á stöng í sumar. Hlutfallið í Eystri lendir á milli Sandár í Þistilfirði sem var með 1,06 laxa og Straumfjarðarár sem var með hlutfallið 1,01.

Lokatalan í Affallinu er 140 laxar og Þverá skilaði 70 löxum. Báðar langt frá sínu besta. Gunnar Skúli Guðjónsson hjá Kolskeggi staðfesti þessar tölur. Silungsveiði í báðum ánum var með besta móti að hans sögn.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka