Miklar sveiflur í sjóbirtingnum

Sá stærsti úr Eldvatninu í haust. 94 sentímetra hængur úr …
Sá stærsti úr Eldvatninu í haust. 94 sentímetra hængur úr Villanum. Hannes Gústafsson Eyjamaður kampakátur með stórfiskinn. Jafn stór fiskur veiddist í vorveiðinni í Þórðarvörðuhyl. Ljósmynd/Hlynur Jensson

Gengi þekktustu sjóbirtingssvæða í ár var býsna misjafnt. Þannig var veiðin í Tungulæk mun betri en í fyrra. Þar var aukning upp á 46 prósent á meðan að veiðin í Tungufljóti dróst saman um þriðjung. Eldvatn í Meðallandi var á pari við veiðina í fyrra og Húseyjarkvísl aðeins undir, í samanburðinum.

Athyglisvert er að skoða síðustu dagana í Tungufljóti. Hundrað birtingar veiddust dagana 15. til 20. október og lagaði það býsna mikið stöðuna. Samt er samdrátturinn milli ára 33%. Hversu mikið þessi samdráttur vigtar í áhuga á ánni er erfitt að segja. En á morgun klukkan 15. er komið að því að skila inn tilboðum í leigu eða umboðssölu á Tungufljóti til næstu fimm ára. Áhuginn er mikill og búast má við fjölda tilboða.

Húseyjarkvísl er magnað veiðivatn. Ekki aðeins geymir Kvíslin öflugan og stórvaxinn sjóbirtingsstofn. Hún fóstrar líka töluvert magn af laxi og gaf í sumar ríflega tvö hundruð laxa. Það vantaði ekki stórlaxana í hana. Stærsta laxinn veiddi Thomas Holmes sem átti hreint út sagt magnaða vakt í Kvíslinni þann 12 september. Þá landaði hann 96 sentímetra laxi í Gullhyl á fluguna Mamba númer fjórtán. Mamba er fluga eftir Valgarð Ragnarsson leiðsögumann og hann var einmitt með Thomas í leiðsögn þegar þessum stórlaxi var landað. Einn fiskur í þessari stærð gerir hvaða veiðitúr sem er eftirminnilegan. En ævintýrið var ekki búið. Thomas setti í annan dreka og landaði honum. Hann mældist 99 sentímetrar og sá tók í Laxhyl. Flugan var númer fjórtán og að þessu sinni var það Mink. Þetta reyndist stærsti lax sumarsins í Húseyjarkvísl.

Thomas Holmes fékk stærsta laxinn í Húseyjarkvíslinni í sumar. Hann …
Thomas Holmes fékk stærsta laxinn í Húseyjarkvíslinni í sumar. Hann mældist 99 sentímetrar. Á sömu vakt fékk hann líka 96 sentímetra lax. Mögnuð vakt. Báðir laxarnir tók smáflugur númer fjórtán. Ljósmynd/Valgarður Ragnarsson

Húseyjarkvísl hefur oft gefið stærri sjóbirtinga en í ár. Sá stærsti sem var bókaður mældist 88 sentímetrar. Miklar sveiflur eru milli ára í stærðum sjóbirtinga. Í Tungulæk veiddust þrír sem náðu níutíu sentímetrum eða meira. Sá stærsti 95 sentímetrar. Eldvatnið var með þrettán slíka stórfiska og tveir þeir stærstu mældust 94. Tungufljótið gaf fjóra og sá stærsti var 95 sentímetrar.

Hér að neðan er listi yfir fjórar þekktar sjóbirtingsár og helstu lykiltölur ársins. Auðvitað eru árnar fleiri en tölulegar upplýsingar yfir þessar ár eru aðgengilegar í angling iQ appinu og tölur er fengnar þaðan. Talan innan sviga í dálki tvö er fjöldi veiddra fiska í fyrra.

Veiðisvæði  Veiði 2024   Breyting   Meðallengd

Tungulækur        1.136 (778)         46%           58cm

Eldvatn                 549 (531)          3%            68cm

Húseyjarkvísl        474 (594)        -14%           55cm

Tungufljót             486 (722)        -33%           65cm

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert