Rjúpnaveiði hafin með nýju fyrirkomulagi

Fyrsti dagur á rjúpnaveiðitímabili er í dag. Nú er veiðunum …
Fyrsti dagur á rjúpnaveiðitímabili er í dag. Nú er veiðunum stýrt með nýju fyrirkomulagi þar sem gefinn er út fjöldi veiðidaga fyrir hvern landshluta. Dagarnir eru allt frá 20 upp í 43. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Rjúpnaveiðar hefjast í dag og er þeim nú stýrt með nýju fyrirkomulagi samkvæmt stjórnunar- og verndaráætlun sem samþykkt var af ráðherra 11. september síðastliðinn.
Stærsta breytingin frá síðustu árum er að nú hefur verið tekin upp svæðisbundin veiðistjórnun og því er veiðitímabilið mislangt eftir landshlutum.
Veiða má fimm daga í senn, föstudag til og með þriðjudegi, en bannað er að veiða miðvikudaga og fimmtudaga.
Veiðidagar eru heilir og skiptast þannig eftir landshlutum:
Austurland: 43 veiðidagar
(25. okt – 22. des)
Norðausturland: 20 veiðidagar
(25. okt – 19. nóv)
Norðvesturland: 20 veiðidagar
(25. okt – 19. nóv)
Suðurland: 20 veiðidagar
(25. okt – 19. nóv)
Vesturland: 20 veiðidagar
(25. okt – 19. nóv)
Vestfirðir: 25 veiðidagar
(25. okt – 26. nóv)
Sölubann er á rjúpu og áfram er við líði verndarsvæði á SV–landi líkt og verið hefur undanfarin ár.
Nýja fyrirkomulagið við veiðarnar var kynnt á vef Stjórnarráðsins í október. Þar sagði í fréttatilkynningu sem birtist 7. október.
„Stjórnunar- og verndarætlunin er afrakstur samstarfs Umhverfisstofnunar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, Náttúrufræðistofnunar, SKOTVÍS og Fuglaverndar. Þá naut samstarfshópurinn aðstoðar frá Dr. Fred A. Johnson, bandarískum sérfræðingi í veiðistjórnun og stofnlíkanagerð.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kynnir drög að …
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kynnir drög að verndaráætlun vegna rjúpnaveiða fyrir skotveiðimönnum. Kynningarfundurinn var haldinn í mars og nýtt fyrirkomulag gefur loksins einhvern fyrirsjáanleika varðandi veiðitímabil. Ljósmynd/Sporðaköst

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Þetta er í fyrsta skipti sem veiði fer fram samkvæmt nýrri stjórnunar- og verndaráætlun. Áætlunin er mikilvægur liður í því að stuðla að því að veiðar séu sjálfbærar og að rjúpnastofninn haldi sínu hlutverki sem lykiltegund í sínu vistkerfi. Með þessu nýja kerfi viljum við enn fremur stuðla að gagnsæi, fyrirsjáanleika og skilvirkni veiðistjórnunar á rjúpu svo traust geti ríkt á milli opinberra stofnana, hagsmunaaðila og almennings.“

Stefna stjórnvalda er að nýting rjúpnastofnsins, líkt og annarra auðlinda, skuli vera sjálfbær. Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin neyslu. Til að vinna að sjálfbærri veiðistjórnun eru stundaðar mikilvægar rannsóknir og vöktun á stofninum og fyrir hendi er stjórnkerfi til að stýra veiðinni að viðmiðum um hvað telst sjálfbær nýting.“

Það hefur oft þurft að bíða fram á síðasta dag eftir ákvörðunum um hvernig rjúpnaveiðum verður háttað. Nú er nýja fyrirkomulagið með þeim hætti að slík bið á að vera úr sögunni. Margir veiðimenn hafa þakkað sínum sæla að slíkt fyrirkomulag tók gildi áður en ríkisstjórnin gaf upp laupana. Viðbúið að rjúpnaveiði hefði verið eitthvað sem hinir ólíku flokkar í þriggja flokka ríkisstjórninni hefur þurft að takast á um. Nú þarf ekki að hafa áhyggjur af því.

Framundan er spennandi tími fyrir veiðimenn en rétt er að benda veiðimönnum á að fylgjast vel með veðurspám, gera ferðaplön og vera rétt og vel útbúnir. Veiða hóflega og ganga vel um sín veiðisvæði.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert