Hóflegar hækkanir með undantekningum

Veitt í Langá. Verðhækkun á veiðileyfum í Langá verður á …
Veitt í Langá. Verðhækkun á veiðileyfum í Langá verður á bilinu 2 - 10%, misjafnt eftir tímabilun. Hér er veiðimaður búinn að setja í lax í veiðistaðnum Lækjarósi. Ljósmynd/SVFR

Drjúgur hluti veiðileyfasala, landeigenda og leigutaka hefur svarað fyrirspurn Sporðakasta um fyrirhugaðar verðbreytingar á laxveiðileyfum, næsta sumar. Flestir horfa til hóflegra hækkana sem taka mið af verðlagsþróun, en þó má finna undantekningar í báðar áttir.

Leigusamningar um laxveiðiár eru margir hverjir verðtryggðir og hækka þá í samræmi við vísitölu. Þessu er þó afskaplega misjafnlega farið. Í sumum samningum sem, Sporðaköst þekkja er þessi verðtrygging ekki fullgild. Þannig hefur verið samið um ákveðna prósentuhækkun milli ára á samningstíma eða jafnvel fastar krónutöluhækkanir milli ára. En kíkjum á svörin, eftir hinum ýmsu ám. Fyrst eru það Strengir, sem eru með Hrútafjarðará og Jöklu á leigu.

Hrútafjarðará

Verðin hækka um 10 - 15% næsta sumar. Þröstur Elliðason, sem rekur Strengi segir að það komi vegna þess að leigusamningur um Hrútafjarðará er verðtryggður en vegna erfiðs sumars í fyrra var verðið fryst síðasta sumar, þannig að tvöföld verðtrygging kemur nú ofan á verðið. „Því miður verður ekki komist hjá þessum hækkunum fyrir næsta sumar,“ upplýsti Þröstur í svari við fyrirspurninni.

Jökla 

Leigusamningurinn um Jöklu hækkar næsta sumar. Hækkanir á veiðileyfum verða á bilinu 10 - 25% af þeim sökum. Fleiri kostnaðarliðir telja í þessu að sögn Þrastar. Þannig eru auknar seiðasleppingar í hliðarár Jöklu að kosta sitt. Þær sleppingar eiga að vega upp á móti yfirfalli úr Hálslóni, komi til þess. Þröstur tekur fram að þær hækkanir sem verða í Jöklu komi til fyrri hluta sumars, en verðskráin eftir miðjan ágúst er óbreytt frá því í fyrra.

Fæði og gisting hækkar

Fæði og gisting í Veiðihúsinu Hálsakoti mun hækka á bilinu 20 – 30% næsta sumar. Þröstur segir þetta koma til af því að ráðist hafi verið í miklar endurbætur og þjónustustig hækkað. Ekki verði komist hjá því að setja þann kostnað að einhverju leiti út verðlagninguna.

Ytri Rangá og Vesturbakki Hólsár

„Ef horft er á heildarverðskrána fyrir Ytri Rangá og Vesturbakka Hólsár þá hækkar hún um 3,18% milli ára. Vegið meðaltal á verðbreytingum fyrir Ytri Rangá er þó 4,38%. Ástæðan fyrir þessum mun er að það verður breyting á næsta ári sem felur í sér að stöngum í ánni fækkar um tvær. Hækkunin er mismikil yfir tímabilið ef horft er á einstaka daga eða á bilinu 0% - 8,5%,“ upplýsti Gunnar J. Gunnarsson formaður stjórnar Veiðifélags Ytri Rangár og Vesturbakka Hólsár. Hann bætti við; 
„Hækkun heildar verðskrár á milli áranna 2024 og 2025 er 3%, en breytileg eftir tímabilum.
Verð á fæði og gistingu á eftir ákveða fyrir komandi sumar.“

Laxá í Aðaldal

„Það er eftir að funda til þess að taka þessa ákvörðun og endanleg ákvörðun liggur því ekki fyrir,“ sagði Árni Pétur Hilmarsson einn af rekstraraðilum Laxár í Aðaldal. Hann taldi þó að hækkun í takt við verðlag yrði næsta sumar. Á bilinu 5 – 7%.
Kvíslarfoss í Laxá í Kjós í miklu vatni. Verðskrá í …
Kvíslarfoss í Laxá í Kjós í miklu vatni. Verðskrá í Kjósinni hækkar um 3% milli ára að sögn Haraldar Eiríkssonar, leigutaka. Aardvark McLeod

Laxá í Kjós

„Í tilfelli Laxár í Kjós hefur heildarhækkun verðskrár á árunum 2022-2025 verið um tuttugu prósent. Einhverjar vikur hafa staðið í stað, á meðan aðrar hafa hækkað meira sem því nemur. Á sama tíma hefur leigusamningur hækkað lítillega á hverju ári um fasta krónutölu og þegar tekið er tillit til breytinga á vísitölu neysluverðs á sama árabili má sjá að raunlækkun er á verði veiðileyfa til viðskiptavina okkar. Þetta hefur okkur tekist að gera með samstilltu átaki landeigenda og leigutaka, og með því að lækka ákveðna kostnaðarliði án þess að það komi niður á þjónustu við okkar veiðimenn. Þjónustu sem við teljum vera í hæsta gæðaflokki. 
Laxá í Kjós hefur verið uppseld frá árinu 2021 þegar nýr leigusamningur tók gildi.
Það er okkar mat að með því að vera með verðlagningu sanngjarna gagnvart okkar tryggu viðskiptavinum og um leið uppselda á, þá náist ásættanlegri framlegð í stað þess að laus veiðileyfi skerði sölutölur. 
Í stuttu máli vegur full nýting því upp verðhækkanir.
Niðurstöðuna teljum við því sanngjarna gagnvart öllum aðilum.
Hækkun heildar verðskrár á milli áranna 2024 og 2025 er 3%, en breytileg eftir tímabilum.
Verð á fæði og gistingu á eftir ákveða fyrir komandi sumar.“ Haraldur Eiríksson sendi okkur þetta svar vegna Laxár í Kjós. 

Hítará

„Við í Hítará á Mýrum horfum til sömu hugmyndafræði.
Áin hefur verið uppseld á þeim samningsárum sem við eigum þar að baki.
Hækkun heildarverðskrár til viðskiptavina milli áranna 2024 og 2025 er 3%.
Verð á fæði og gistingu á eftir ákveða fyrir komandi sumar,“ staðfesti Reynir Þrastarson fyrir hönd félagsins sem leigir Hítará.

Mýrarkvísl

Fyrirhugaðar eru endurbætur á veiðihúsinu og hefur laxveiði verið stóraukin í samstarfi við landeigendur með ýmsum kostnaðarsömum aðgerðum, upplýsti Matthías Þór Hákonarson leigutaki. Þetta leiðir til þess að verðskráin í Mýrarkvísl hækkar um 15 – 20% á næsta ári.
Svipuð staða er uppi í Reykjadalsá og þar verður meðaltalshækkun 10% milli ára. Matthías skaut því að engin hækkun yrði á verðskrá Lónsár fyrir næsta sumar.

Stóra Laxá

„Verð á veiðileyfum í Stóru Laxá verður óbreytt á milli ára. Einhverjar verðtilfærslur voru á milli holla, sum hækkuðu aðeins á meðan önnur lækkuðu, en brúttó engin hækkun,“ svaraði Finnur Harðarson, leigutaki fyrirspurn um verðbreytingar.

Verð á gistingu og fæði á neðra svæðinu fer úr 37,900 krónum á mann miðað við 2 í herbergi og verður 42,900 næsta sumar.

Verðskrá Kolskeggs, sem er með Eystri Rangá, Affallið og Þverá …
Verðskrá Kolskeggs, sem er með Eystri Rangá, Affallið og Þverá á leigu helst óbreytt milli ára. Jóhann Davíð Snorrason framkvæmastjóri félagsins upplýsti þetta. Fæði og gisting hækkar milli ára. Ljósmynd/Aðsend

Eystri Rangá, Affall og Þverá

„Það verða óbreytt verð á veiðileyfum á öllum okkar svæðum. Það eina sem hækkar er fullt fæði og gisting úr 34 í 37 þúsund krónur per mann per dag,“ upplýsti Jóhann Davíð Snorrason, framkvæmdastjóri Kolskeggs sem leigir ofangreindar ár.

Selá, Hofsá, Miðfjarðará og Hafralónsá

Við erum að hækka að meðaltali um 5% á öllum ársvæðum, sum tímabil eru að hækka örlítið meira en önnur, svaraði Helga Kristín Tryggvadóttir rekstrarstjóri Six Rivers Iceland.  Húsgjald er að hækka um 5% í Hofsá og Selá. Hækkunin er meiri í Miðfjarðará og kemur það til vegna nýja veiðihússins sem byggt var við ána.

SVFR

Ingimundur Bergsson, framkvæmdastjóri Stangaveiðifélags Reykjavíkur sagði að almennt væru verðskrár félagsins að hækka um 6 – 8%.

Hann tók Langá sem dæmi en þar eru hækkanir á bilinu 2 – 10%, misjafnt eftir tímabilum. Mývatnssveitin hækkar um 6 – 10%. Misjafnt eftir tíma.  

„En að öllu jöfnu eru heildarverðskrár að hækka um 6 – 8%“ upplýsti Ingimundur.

Lækkun í Blöndu

Þá eru upptalin svörin sem hafa borist. Við höfum áður rakið breytingar sem standa fyrir dyrum í Blöndu, en þar hefur ný rekstraraðili boðað lækkun.

Ef fleiri svör berast munum við gera grein fyrir þeim.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka