Sjö reynsluboltar standa að útgáfu Laxárbókarinnar, sem fjallar um urriðasvæðin í Laxá í Þing. Mývatnssveitin og Laxárdalurinn eru vettvangurinn. Við báðum þessa sjömenninga, sem standa að baki Veraldarofsa sem er útgáfufélag bókarinnar, að velja uppáhaldsveiðistað og flugur fyrir þá staði.
Fyrstur er það Ásgeir Steingrímsson sem bæði er í SVFR og Ármönnum. Uppáhaldsstaðurinn hans í Mývatnssveitinni er Hrafnsstaðaey. Tilgreinir hann í svarinu að það sé að hluta til vegna þess að sá staður er næstur Laxárdalnum. Þetta er eins konar yfirlýsing um að hann vilji helst ekki gera upp á milli svæðanna. Þegar kemur að Dalnum þá er segir hann það gefa augaleið. Ásgeirsstaðaflói og til vara Bárnavík. Á þessum stöðum og víðar eru uppáhaldsflugurnar hans þessar: Þurrfluga og púpa – Caddis. Hefðbundin fluga, eða votfluga er Teal & Black. Þegar kemur að straumflugu er það flugan Djúpmaður og fleiri.
Næstur er það Baldur Sigurðsson sem er Ármaður. Í Mývatnssveitinni er það Vörðuflóinn en í Laxárdal velur hann Slæðuna. Uppáhaldsflugurnar hans í Laxá eru Maticko black og MME. Fyrir áhugasama um þessar flugur er rétt að benda á Veiðimanninn númer 194 frá 1. júní 2012. Þar má sjá mynd af þessum gjöfulu silungaflugum. MME líkir eftir bitmýi á klakstigi.
Og talandi um reynslubolta. Friðrik Þ. Stefánsson hefur veitt í Laxá í samfellt 49 ár. Næsta sumar á hann fimmtíu ára sambandsafmæli við urriðasvæðin. Sama ár og Friðrik byrjaði að veiða urriða í Laxá í Þing. hófust Kröflueldar og fyrsti Kvennafrídagurinn var haldinn hátíðlegur. Og hverjir eru svo uppáhaldsstaðirnir hans? Í Mývatnssveitinni velur hann Hrafnsstaðaey en í Dalnum gerir hann ekki upp á milli Beygjunnar og Nauteyri. Fluguvalið er svo þetta: Þurrfluga, Caddis. Púpa, Pheasant tail. Votfluga, Watson´s fancy og straumfluga hin klassíska Black Ghost.
Jón Aðalsteinn Þorgeirsson er í Ármönnum en þekkir Laxá betur en flestir. Hans uppáhaldsstaður í Mývatnssveit er Vörðuflói. Þegar kemur að Laxárdalnum, sem hann kallar reyndar dal, dalanna þá er það Æsufit sem hann setur í fyrsta sæti.
Þegar kemur að fluguvali nefnir hann Drífu sem sjá má mynd af hér. Jón Aðalsteinn er höfundur Galdralapparinnar sem margir urriðar hafa látið glepjast af. Hann veiðir í dag nánast eingöngu orðið á þurrflugu í Laxá.
Jón Bragi Gunnarsson er bæði í SVFR og einnig í Ármönnum. Hann nefnir til sögunnar í Mývatnssveit Skriðuflóa og þá úr Hofstaðaey. Þegar kemur að Dalnum þá er það Djúpidráttur að austan, segir Jón Bragi. Fluguvalið er heimasmíði. Yellow Matuka straumfluga. Svört mýpúpa með silfurkúlu hefur reynst honum vel. Loks er það Caddis þurrfluga að hætti Gary Lafontaine sem er höfundur bók bókanna um vorflugur, eins Jón Bragi orðar það. Loks er það Teal and Black sem kemur sterk inn hjá honum.
Gísli Gíslason titlar sig Laxárdalsmann. Hefur einu sinni veitt neðan virkjunar og ekki í Mývatnssveitinni. Í staðinn nefnir hann tvo uppáhaldsstaði í Dalnum. Varastaðahólma sem er ofarlega í Laxárdal í landi Ljótsstaða. Svo er það Hjallsendabakki sem er nokkuð fyrir ofan Ferjuflóann að austanverðu, en fyrir neðan svonefndan Húspoll.
Fluguvalið er Caddis þegar kemur að þurrflugu og púpu. Votfluga þá nefnir hann fluguna Falconetti sem er heimasmíðuð úr fálkafjöðrum. Hann tekur fram að þær fjaðrir eru úr fálka sem fannst dauður. Straumflugan er líka úr hans smiðju og kallast Bládís.
Þá er komið að Jörundi Guðmundssyni sem ritstýrði bókinni um Laxá. Uppáhaldsstaður í Mývatnssveit er Lamhagastrengur og í Laxárdal er það veiðistaðurinn Sláttur í landi Halldórsstaða. Jörundur segist vera straumflugumaður og nefnir þær helstar, Rektor, Hólmfríði og svo Þingeyinginn hans Geirs Birgis Guðmundssonar.
Fyrir þá sem eru enn að þreifa sig áfram í urriðaveiði Laxá í Þing. og jafnvel lengra komna myndi flugubox sem geymir allar þessar flugur sem hér eru upp taldar, duga býsna vel og tryggja góða útkomu ef aðstæður eru réttar.
Kynning er hafin á bókinni og forsala en hún er væntanleg í verslanir þegar líður á nóvember.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |