Einn allra stærsti lax sumarsins sem veiddist á Lanrick Estate svæðinu í ánni Teith í Skotlandi, var landað af íslenskum veiðimanni undir lok veiðitímabilsins. Oddur Ingason og Björn K. Rúnarsson voru í sínum árlega hausttúr í Teith þegar sá fyrrnefndi setti í stórlaxinn.
Oddur er enginn nýgræðingur þegar kemur að stórlöxum. Hann á skráðan 108 sentímetra fisk í Vatnsdalsá sem hann veiddi í Hnausastreng, stórlaxaárið 2016. Yokanga í Rússlandi var eitt ævintýrið en þar fékk hann fisk sem var yfir þrjátíu pund. „Með tímanum lærir maður, eða fer að ímynda sér hvar þessir stóru geta haldið til og það var einmitt tilfinningin sem ég fékk þegar ég var að veiða Castle flats sem er aðal staðurinn á Lanrick landareigninni. Veðrið var frábært og mér fannst ég vera einn í heiminum. Þetta er stór og mikill staður sem endar í broti og fellur svo fram af því nokkuð hratt. Mér fannst þetta svona ekta stórlaxalægi ef maður getur gert sér eitthvað slíkt í hugarlund,“ upplýsir Oddur í samtali við Sporðaköst.
Hann staldraði við hægði á veiðinni. Mikið var af föllnum laufblöðum á reki niður ána þannig að þríkrækjan var dugleg að safna þeim. „Ég ákvað að breyta aðeins um aðferð. Fór í fluguboxið frá Baldri Hermannssyni, sem ég hafði heimsótt fyrir ferðina. Keypti hjá honum nokkra svona orginal haust Frigga. Ég valdi þann rauða og ákvað að nota einkrækju í staðinn fyrir þríkrækjuna. Ég var með 13,2 feta Nám stöng og Chucker flotlínu frá Rio sem er góð skotlína og ræður við að koma út þyngri flugum. Þetta er svona pæling hjá mér á haustin og alls ekki Selár veiðigræjur,“ hlær Oddur.
Hann var með frekar langan taum og náði að skjóta línunni út í nokkuð löngu kasti. „Og viti menn hann algerlega truflaðist þessi fiskur og negldi fluguna. Ég var strax með aðeins ónotatilfinningu í maganum. Með einkrækju. En úff ókei. Nema þá heyri ég allt í einu í Grant leiðsögumanni fyrir aftan mig. Ég var feginn því að hann var á staðnum. Aðstæður þarna eru frekar erfiðar. Nokkur bakki niður í ána og djúpt við landið. Ég stóð í vatni upp í mitti og aðstæður til að takast einn á við svona fisk eru ekki auðveldar. Þannig að ég var mjög feginn að sjá hann koma þarna niður til mín.“
Grant Roxburgh er búinn að vera „Ghillie“ eða leiðsögumaður á svæðinu í rúma þrjá áratugi. Hann rúntar á milli veiðimanna, en veitt er á fjórar stangir á svæðinu. Fyrir tilviljun hafði hann sest á bekk skammt frá Oddi og var að fylgjast með honum að veiða staðinn, þegar fiskurinn tók.
„It looks like a big fish,“ sagði Grant.
Fiskurinn réði algerlega ferðinni sagði Oddur. Hann togaði og lagðist á víxl. „Ég var búinn að herða upp á Einarsson hjólinu, en fiskurinn var ekkert að sýna sig. Grant var búinn að lýsa því yfir að svona hegðuðu bara stórlaxar sér. Ég var alveg sammála því og svo kom að því að hann truflaðist og stökk. „Yes,“ missti Grant út úr sér og við vissum báðir að þetta var fiskur yfir tuttugu pund. Grant fór út í ána og beið þolinmóður með háfinn, enda reyndur gaur. Svo var þetta bara eitt skúbb hjá honum. Hann beið eftir að laxinn væri í skotfæri og tók hann í fyrstu tilraun í háfinn.“
Grant vigtaði fiskinn í háfnum og hann var 25 pund. „Hann vigtaði hann oft. En þetta var mjög fallegur og vel haldinn hausthængur. Ekki farinn að falla mikið.“
Grant leiðsögumaður var hinn kátasti og sendi á augabragði myndir af veiðimanninum með þennan eðalfisk til nánast allra í sveitinni. „Allt í einu var landeigandinn, óðalsbóndinn og kona hans mætt niður á bakka til að heilsa upp á veiðimanninn og sama gerðu veiðifélagarnir, Bjössi, Richard og Chris Adams félagi hans.“
Teith er stórfiskaá. Þessi lax hans Odds er líkast til sá stærsti sem veiddist á svæðinu í sumar. Leiðsögumaðurinn sem fylgist grannt með öllu vissi um einn svipaðan lax fyrr á tímabilinu og svo misstist mikill dreki eftir langa viðureign en óvíst er hversu stór sá fiskur var. „Við veiddum fyrst þarna árið 2007 og ég man að árið áður hafði tímaritið Trout and Salmon fjallað um fisk sem veiddist í Teith nokkru áður og vigtaði 42 pund. Þannig að Teith á sér stórlaxastofn.“
Þú varst með agnhaldslausa einkrækju. Það hlýtur að hafa setið í huganum þegar þú varst að slást við hann?
„Ha. Agnhaldslausa?“
Já. Ég sé það á myndinni af flugunni.
Þögn. Hann skoðar myndina. „Það er rétt hjá þér maður. Vá maður. Þetta er stórmerkilegt. Ég hafði ekki áttað mig á þessu. Sem betur fer vissi ég þetta ekki þegar ég var með hann á,“ hlær Oddar og úffar nokkrum sinnum.
„Stemmingin hjá okkur um kvöldið var svo engu lík. Það er svo gaman að veiða með mönnum af þessu kaliberi, sem hafa upplifað oft að fá þessa allra stærstu fiska. Eins og Bjössi í Vatnsdal sem er búinn að landa yfir þrjátíu hundraðköllum og Richard sem hefur veitt þá fjölmarga líka. Það var splæst í mjög góð vín sem Richard hafði tekið með sér upp til Skotlands. Þarna var ég með mönnum sem skilja þetta og þekkja þessa tilfinningu að fá svona fiska. Þetta er búið að vera áhugamálið manns í áratugi og það eru þessu augnablik sem eru svo dýrmæt og gefa manni svo mikið. Þetta er kikkið,“ Oddur þagnar og hverfur augnablik í huganum í þessar aðstæður. „Fullkomið,“ segir hann svo á innsoginu.
„Við Richard Jewell kynntumst í Rússlandi sumarið 2004 og höfum veitt saman reglulega síðan. Við veiddum oft í Rússlandi en nú er það lokað eins og menn vita.“
Skotland og Ísland hafa verið staðirnir sem þeir hafa stundað saman síðustu ár. „Richard hefur verið að koma til Íslands og veiða á ýmsum stöðum. Honum finnst það frábært, en finnst það mjög dýrt miðað við annað sem hann þekkir. Fyrir algera tilviljun rak á fjörur okkar veiðileyfi í Laxá í Aðaldal á besta tíma, í byrjun ágúst í sumar. Við enduðum með að taka tvær stangir. Ég tók aðra fyrir mig og félaga minn og Richard tók hina. Þetta var æðislegt holl. Helgi, Reiða öndin og Hörður Filipsson með honum. Þetta var hollið fræga þegar Krauni kom til þeirra og veiddi stórlaxinn á gömlu græjurnar á Knútsstaðatúni. En ekki nóg með það heldur fékk félagi minn, Agnar Jón Ágústsson 101 sentímetra fisk á Grundarhorninu og ég háfaði fyrir hann. Fannst eins og ég hefði veitt hann líka. Richard fékk svo hundrað sentímetra fisk í þessu sama holli á Hólmavaðsstíflu. Þetta er bara eitt magnaðasta veiðiholl sem ég hef verið í. Var alveg hreint ótrúlega magnað að svo mörgu leiti.“
Lanrick kastali sem nú er horfinn átti sér merkilega sögu og var verndaður samkvæmt lögum. Talið er að kastalinn hafði verið byggður um 1790 og gerðar voru á honum breytingar árið 1815. Það var svo aldamótaárið 1900 að hann var innréttaður á nýjan og nútímalegri hátt. Árið 1984 erfði Alistair Dickson, Lanrick jörðina. Það var svo tíu árum síðar að eldur kom upp í kastalanum og skemmdist hann mikið. Þakið varð eldi að bráð og í stað þess að byggja upp kastalann var hann rifinn og fjarlægður. Þetta var illa séð og endaði með því að Alistair fékk sekt, frá hinu opinbera upp á þúsund pund í janúar 2003. Ljóst er hins vegar að uppbygging hefði kostað margfallt meira en sem nam sektinni.
Teith hollið þeirra félaga landaði sjö löxum á þremur á dögum. Allt voru það tveggja ára laxar og hápunkturinn var svo að sjálfsögðu stórlaxinn sem Oddur landaði.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |