Drottning norðursins – sagan öll um Laxá

Laxá í Aðaldal og hinir fögru Æðarfossar. Bókin Drottning norðursins …
Laxá í Aðaldal og hinir fögru Æðarfossar. Bókin Drottning norðursins gerir þessari mögnuðu á góð skil. Steinar J. Lúðvíksson er höfundur. Ljósmynd/Bjarki Már Viðarsson

Drottning norðursins. Þetta kraftmikla og fallega nafn ber nýútkomin bók Steinars J. Lúðvíkssonar um Laxá í Aðaldal. Um leið er hún 80 ára saga Laxárfélagsins. Bókin dregur dám af Laxá. Hún er 350 blaðsíður skrýdd fjölda mynda og efnismikil eins og viðfangsefnið.

Steinar skilur ekkert eftir. Sagan frá öndverðu, eins og heimildir leyfa er rakin á líflegan og áhugaverðan hátt. Hvernig veiðar hófust og það fyrir daga stangveiðinnar. Kistuveiðin, háfaveiðin og allt hitt dregur höfundur ljóslifandi fram í dagsljósið.

„Svo erfitt sem það var til forna að fanga lax í ám á Íslandi þegar menn höfðu ekki til þess tæki eða tól hefur það sennilega verið nær ógjörningur í því mikla fljóti, Laxá í Aðaldal,“ skrifar Steinar. Hann vitnar til þess að í margar aldir fór engum sögum af veiði í Laxá og þögn annála og annarra ritaðra heimilda bendi til þess að veiðar þar hafi ekki verið umfangsmiklar. Það er fyrst þegar þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín skráðu Jarðabók sína á árunum 1702 til 1714 að áreiðanlegar heimildir voru festar á blað. Á þeim tíma virðist laxveiði hafa „farið hrakandi og verið sáralítil á þessum tíma og ekki verið mikið stunduð.“ Steinar setur fram kenningu um að þarna hafi bændur við Laxá barmað sér og gert það vísvitandi og verið að skjóta sér undan mögulegum hlunnindaskatti.

Stílhrein kápa heldur utan um sögu Laxár. Í bókinni, sem …
Stílhrein kápa heldur utan um sögu Laxár. Í bókinni, sem er um leið áttatíu ára saga Laxárfélagsins er ekkert skilið eftir. Höfundur þekkir Laxá vel og verkið er óður til hennar að hluta. Ljósmynd/Bjartur&Veröld

Strengdu línu yfir ána með kastlínum

Ekki er vitað hverjir voru fyrstir til að veiða Laxá með stöng en vitnað er í bókinni til frásagnar Bretans Charles H. Akroyd sem skrifaði bókina A Veteran Sportsman´s Diary og kom út í Bretlandi árið 1926. Þar segir hann frá veiðiferð til Íslands árið 1877 í lok júní. Akroyd þessi lýsir því sem fyrir augu bar og hvernig veiðiskapurinn gekk. Leyfi til stangveiða var auðsótt en fyrst í stað reyndi hann og félagar hans að veiða fallega hylji en án árangurs. Brugðu þeir þá á það ráð að strengja línu þvert yfir ána og festu við hana kastlínur með tveggja yarda millibili. Þeir gengu svo hægt upp ána í leit að fiski. Það var ekki fyrr en eftir þriggja mílna gang að þeir settu í fisk og voru þar með búnir að finna hann. Skemmst er frá því að segja að Akroyd og félagar lentu í mokveiði. Fyrst í stað var mergð af stórri bleikju og urriða sem tók fluguna grimmt um leið og hún lenti í vatninu. Vissulega var svo líka mikið af laxi. Þess er getið að veiðafæratjórn hafi verið talsvert. Slitnar línur og brotnar flugur.

Fyrir nútímaveiðimenn er erfitt að ímynda sér þá paradís sem ósnert Laxá í Aðaldal hefur verið fyrir stangveiðimann. Vissulega var aðgengi víða erfitt en það er auðvellt að láta hugann reika um ósnortnar veiðilendur og möguleg ævintýri þar.

Það er líklegt að bókin Drottning norðursins verði til framtíðar eitt af höfuðverkum íslenskra veiðibókmennta. Aðdragandinn er langur og spannar um þrjátíu ár eða frá þeim tíma á miðjum níunda áratug síðustu aldar að Orri Vigfússon sem þá var formaður Laxárfélagsins kom að máli við Steinar J. Lúðvíksson að rita sögu félagsins. Áformin voru viðruð og það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Mál hins vegar æxluðust þannig að það var ekki fyrr en árið 2020 að aðstæður féllu saman og tekið var af skarið við að skrifa bókina. Raunar hafði nokkru fyrr verið búið að taka fyrstu skrefin, en þarna var ýtt úr vör. Það var þáverandi formaður Laxárfélagsins Jóhann G. Bergþórsson sem keyrði verkið af stað.

Sumarið 2017 féll Orri Vigfússon formaður félagsins frá eftir alvarleg veikindi snemmsumars þar sem hann laut í lægra haldi. Orri var mikill áhrifavaldur við Laxá og Maðurinn, hvort sem sneri að Laxárfélaginu sjálfu eða samningagerð fyrir þess hönd. Sjá má í gegnum lestur bókarinnar að Orri var límið í félaginu og ræktaði afar vel sambönd og samskipti við bændur og veiðiréttareigendur Laxár. Orri varð öllum sem honum kynntumst og þekktu harmdauði, ekki síst Laxárfélagsmönnum og eigendum veiðiréttar við Laxá, skrifar Steinar.

Jakob V. Hafstein, heitinn með með 36,5 punda hænginn sem …
Jakob V. Hafstein, heitinn með með 36,5 punda hænginn sem hann veiddi í Laxá í Aðaldal, Höfðahyl, 10. júlí 1942. Þetta er stærsti lax sem veiðst hefur á stöng á Íslandi.

Sá allra stærsti

Stórlaxaorðspor Laxár er eins og gefur að skilja fyrirferðamikið í bókinni. Stærsti stangaveiddi lax á Íslandi er enda veiddur í Laxá í Aðaldal af Jakobi V. Hafsteins og er hann skráður 36,5 pund. Veiddur í Höfðahyl árið 1942. Stærri laxar hafa veiðst eins og Grímseyjarlaxinn og Eldeyjarlaxinn og sögusagnir eru til, óstaðfestar af stórlöxum. Lax Jakobs er hins vegar staðfestur og óumdeildur sá stærsti á stöng.

Síðari hluti bókarinnar er helgaður veiðimönnum sem ólu manninn við Laxá og urðu margir hverjir goðsagnir, bæði í lifandi lífi og síðar. Fjölmargar veiðisögur eru skrásettar og hin besta lesning.

Sporðaköst settust niður með Steinari í tilefni af útkomu bókarinnar. 

Var eitthvað sem kom þér óvart í vinnu þinni og grúski við skrifin?

„Já. Ég get sagt hvað það var sem ég varð mjög hissa á. Að það skyldu finnast myndir af kistuniðursetningunni í Laxá. Það datt mér ekki í hug að væri til. Þessar myndir fundust í safnahúsinu á Húsavík og Birgir Steingrímsson lét mig vita af því að hann hefði séð þær og safnið tók því erindi vel að finna þessar myndir til og þær eru í bókinni.“ Steinar nefnir líka að það hafi komið honum á óvart hversu snemma rannsóknir á lífríki árinnar hófust, en það var fyrir aldamótin 1900.

Stjarnar og Korktappinn

Síðast veiddi Steinar J. Lúðvíksson í Laxá fyrir sex árum. Hann segist ekki eiga eftir að fara oftar á vit drottningarinnar. Hann býr nú við heilsubrest sem rakinn er til alvarlegrar Covid sýkingar frá því í október í fyrra sem hann hefur ekki náð sér almennilega af. „Þetta fór alveg djöfullega með mig,“ upplýsir hann.

Hólmavaðsstífla er sá staður sem hann nefnir fyrstan þegar spurt er um eftirlætis veiðistaði í Laxá. „Það fannst mér alveg rosalega skemmtilegur veiðistaður. Ég veiddi líka oft vel þar. Stíflan alveg dýrðlegur staður þegar áin var full af laxi. Ég átti oft erfitt með að festa svefn ef ég átti þennan stað að morgni,“ rifjar hann upp glaðlega.

Varðst þú þeirrar gæfu aðnjótandi að ná einhverjum sérlega stórum í Laxá?

„Nei. Aldrei. Ég veiddi engan tuttugu punda lax í henni. Stærsti laxinn sem ég fékk í henni vigtaði 19,8 pund og fékk ég hann á Heiðarendaflúð. Veiðifélagi minn, Þórarinn Sveinsson, krabbameinslæknir hann fékk 27 og 28 punda laxa á Óseyrinni og er sagt frá því í bókinni.“

En á hvaða flugu fékkstu 19,8 pundarann?

„Það var fluga sem hnýtt var af Ingva Guðmundssyni heitnum og hann gaf mér. Þess fluga var blá og hvít og Ingvi sem var mikill knattspyrnuáhugamaður skírði hana Stjörnuna. Mér leist vel á þessa flugu og hún reyndist mér líka vel.“

Er einhver ein fluga sem er þér efst í huga að gæti gefið góðar líkur í Laxá við eðlilegar aðstæður?

„Ég veiddi langmest á eina flugu í Laxá. Það var fluga sem ég keypti í veiðibúð í fríhöfninni í Anchorage í Alaska. Ég vissi ekki nafnið á henni en við kölluðum hana alltaf Korktappann. Hún var þeim eiginleikum gædd að hún flaut alltaf alveg í yfirborðinu. Þessi fluga var líka blá og hvít, eins og Stjarnan. Það voru oft mjög flottar tökur sem við urðum vitni að þegar hann tók Korktappann. Sáum hann jafnvel koma langar leiðir til að taka hana í yfirborðinu. Dásamlegar tökur.“

Kristrún Ólöf Sigurðardóttir með stærsta laxinn úr Laxá í Aðaldal …
Kristrún Ólöf Sigurðardóttir með stærsta laxinn úr Laxá í Aðaldal í sumar sem leið. Steinar J. Lúðvíksson höfundur bókarinnar hefur trú á því að Laxá muni rísa, en að að taki tíma. Ljósmynd/Árni Pétur Hilmarsson

Laxá mun koma upp aftur

Hvað heldur þú með framtíð Laxár? Hefurðu velt henni fyrir þér?

„Já, já. Auðvitað gerum við það allir. Ég held að Laxá eigi eftir að koma upp aftur. Auðvitað mun skipta máli hvernig verður staðið að veiðum en ég trúi því. Þó að Laxá sé stórt og mikið fljót þá er hrygningarstaðir ekki svo margir. Ég gæti trúað að það hefði verið gengið of nærri laxinum á þeim stöðum og það gæti tekið töluverðan tíma að ná því upp aftur. Hún mun koma upp aftur þó að það geti tekið tíma.“

Steinar J. Lúðvíksson hefur skrifað fjölmargar og ólíkar bækur. Nú …
Steinar J. Lúðvíksson hefur skrifað fjölmargar og ólíkar bækur. Nú hefur hann bætt Drottningu norðursins á langan lista. Ljósmynd/Styrmir Kári

Sporðaköst óska Steinari J. Lúðvíkssyni til hamingju með Drottningu norðursins. Hann er gamalreyndur höfundur en hæst á hans ferli ber bókaröðina Þrautgóðir á raunastund og taldi sú ritröð 21 bók. Þá hefur Steinar skrifað fjölmargar aðrar bækur, þar á meðal æviminningar og ekki má gleyma bókinni um Miðfjarðará sem kom út árið 1995.

Steinar naut stuðnings ritnefndar við vinnslu Drottningar norðursins. Í henni sátu þeir Jóhann G. Bergþórsson, Gunnar Þ. Lárusson og Sigurður Bjarnason. Bjartur & Veröld gefa bókina út. Eyjólfur Jónsson sá umbrot og Agnar Freyr Stefánsson hannaði kápu.

Sporðaköst ritdæma ekki bækur en hér hefur tekist afar vel til. Steinar J. Lúðvíksson hefur skilað af sér verki sem hefur alla burði til að verða klassískt og viðmið fyrir þær bækur sem síðar verða skrifaðar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert