Nýr leigutaki hefur tekið við Hallá á Skagaströnd. Fyrirtækið Fly fishing in Iceland sem Guðmundur Atli Ásgeirsson rekur, hefur undirritað fimm ára leigusamning um ána. Hallá er tveggja stanga laxveiðiá þar sem veiðimenn hafa aðgang að veiðihúsi og elda sjálfir. Þetta er svokölluð sjálfsmennska sem mikil eftirspurn er eftir, sérstaklega í ljósi þess hversu dýr veiðileyfi eru orðin í stærri laxveiðiánum.
Guðmundur Atli staðfesti þetta í samtali við Sporðaköst og sagði verkefnið tilhlökkunarefni og að hann væri mjög spenntur fyrir þessu.
Veiðitíminn í Hallá byrjar 20. júní og stendur til 20. september. Öllum laxi ber að sleppa og einungis er veitt á flugu.
„Það er mjög mikill áhugi á að komast í hana, enda er þetta frábær á fyrir fjölskyldur og litla veiðihópa. Það er mjög mikil eftirspurn eftir þessum minni og ódýrari svæðum. Ég opnaði fyrir söluna í vikunni á veiða.is og áhuginn er mikill,“ upplýsti Guðmundur Atli.
Nokkur hækkun er á veiðileyfum í Hallá milli ára en nýr leigutaki segir hana klárlega flokkast með ódýrum kostum í laxveiði. Hann segir að fyrri leigutakar hafi hugsað vel um ána og að þar hafi verið stundaður hrognagröftur um nokkurt skeið og það er eitthvað sem muni klárlega skila sér í framtíðinni.
Hallá getur orðið lítil í þurrkasumrum, enda dragá. Guðmundur Atli segir að hún geymi stórlaxa eins og svo margar ár í nágrenninu. Veiðin getur í góðu ári farið yfir hundrað laxa í Hallá. Veiðisvæðið sjálft er um tíu kílómetrar að lengd.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |