Sömu staðir gefa best hálfri öld síðar

Tóti tönn með lax úr Kjarará á opnunardegi sumarið 2021. …
Tóti tönn með lax úr Kjarará á opnunardegi sumarið 2021. Þessi veiddist í Efri - Johnson, eða Johnstone eins og hann var kallaður. Það er áhugavert að sjá að lykilstaðir eru þeir sömu í dag og fyrir hálfri öld. Ljósmynd/IÁ

Sumarið 1967 var mjög góð veiði í Kjarrá. Samtals voru færðir til bókar 835 laxar. Síðasta sumar var einnig mjög gott í ánni en samtals skiluðu Þverá og Kjarará 2239 löxum. Skiptingin á milli veiðisvæðanna liggur ekki fyrir enda skiptir hún ekki öllu máli í þessu samhengi. Í bókinni Kjarrá og síðustu hestasveinarnir á Víghól birtir Stefán Þórarinsson, einn af höfundum bókarinnar niðurbrot á hvar laxar veiddust sumarið 1967. Þá kemur í ljós að sex veiðistaðir gáfu fjörutíu laxa eða fleiri og þessir sömu veiðistaðir voru á bak við um helming sumarveiðinnar þetta ár.

Sporðaköst ákváðu að bera þetta saman við bestu veiðistaðina í Kjarará í sumar. Hér má sjá lista yfir þessa veiðistaði og veiðina í þeim árið 1967. Í sviga fyrir aftan er svo veiðin í sumar ríflega hálfri öld síðar.

Neðri–Johnstone gaf 94 laxa (39 laxar)*

Réttarhylur gaf 77 laxa (65 laxar)

Neðra–Rauðaberg gaf 70 laxa (21 lax)

Efra–Rauðaberg gaf 65 laxa (35 laxar)

Langidráttur gaf 43 laxa (13 laxar)

Runki gaf 40 laxa (90 laxar)

Samtals voru þessir sex veiðistaðir með 47% af sumarveiðinni umrætt ár.

*Ef við horfum á Johnstone hyljina báða, efri og neðri, þá voru þeir sumarið 1967 samtals með 103 laxa. Í sumar gáfu þeir 123 laxa. Í dag eru þeir reyndar nefndir efri og neðri Johnson, sem höfundur segir að sé í raun misritun og vitnar í manninn sem þeir taka að öllum líkindum nafn sitt af en það var skoski veiðimaðurinn Colonel Johnstone.

Forsíða bókarinnar, Kjarrá og síðustu hestasveinarnir á Víghól. Bókin er …
Forsíða bókarinnar, Kjarrá og síðustu hestasveinarnir á Víghól. Bókin er skemmtileg flétta af fróðleik og áhugaverðum sögum. Ljósmynd/Skrudda

Staðir á Eyrunum breytast mest

Besti hylurinn í sumar í Kjarará var German Pool. Sá hylur finnst ekki í upptalningunni frá fyrri árum enda þekkt að einna mest breytir áin sér á hinum svokölluðu Eyrum og þar detta inn og út veiðistaðir eftir því hvernig árfarvegurinn kemur undan vetri. Áin rennur á þessu svæði frá austri til vesturs og á það til að færast suður eða norður á Eyrunum og verða þá til nýir staðir og aðrir hverfa eða gefa eftir. Þannig voru staðirnir Ólafía og Svanafljót í hópi bestu veiðistaða á tímum hestasveinanna. Ólafía gaf ekki lax í sumar en Svanafljótið var drjúgt.

En það er gaman að sjá að sömu staðir eru að gefa vel í dag eins og þeir gerðu fyrir rúmlega hálfri öld. Þeir eru til sem telja að veiðin hafi verið svo miklu meiri og betri hér áður. Vissulega spila margir þættir inn í. Fyrst er þar að nefna veiða og sleppa sem í dag er allsráðandi. 1967 var sú staða ekki uppi. Enda var það svo þetta ágæta sumar að 583 laxar voru veiddir á maðk, 197 á flugu og 55 á spún. Veiðiálag var með öðrum hætti en nú er. Sumarið 1967 var stöngum á Víghólssvæðinu fjölgað úr fimm í sex. Í dag er veitt á sjö stangir þar efra.

Fyrsti laxinn úr Kjarará í sumar. Sigurður Valtýsson tók þennan …
Fyrsti laxinn úr Kjarará í sumar. Sigurður Valtýsson tók þennan á Hregg í veiðistaðnum Runka sem er einn af gjöfulustu veiðistöðum í ánni. Fyrr og nú. Ljósmynd/BH

Sex tíma ferðalag í Svartastokk

Stefán Þórarinsson, einn höfunda bókarinnar sem hér er vitnað til hefur haldið mikla tryggð við Kjarrá og veitt þar árlega eftir að hann hætti sem hestasveinn. Hann sagði í samtali við Sporðaköst að gaman væri að sjá að þessir sömu staðir hefðu verið og væru enn lykilstaðir þegar kemur að veiði í ánni. Vissulega hafa nokkrir þeirra gefið eftir og nefna má þar til dæmis Langadrátt en Stefán vill meina að dregið hafi úr veiðinni þar eftir að Víghóll, veiðihúsið reis. Þá hafi umferð aukist mjög mikið við veiðistaðinn og algengt að gengið sé fram á gljúfurbarminn og svipast um eftir laxi. Það einfaldlega fæli fiskinn og kann að vera ástæða fyrir minni veiði þar.

Neðra–Rauðaberg hefur aðeins gefið eftir við það að grjóthrun varð ofan í veiðistaðinn sem breytti honum nokkuð.

Veiðiálagið var margfalt minna en nú til dags. Eini staðurinn sem bjó við eitthvað álag að mati Stefáns var veiðistaðurinn Wilson, en þar var gjarnan veitt bæði á leið fram eftir og einnig þegar komið var til baka á hestunum. Annars voru flestir staðir einungis veiddir einu sinni á dag og jafnvel ekki allir. Eins og nærri má geta fór mikill tími í ferðalög á hestunum upp og niður með ánni. Í töflu í bókinni má sjá áætlaðan ferðatíma á hestum frá veiðihúsinu Víghól. Þannig var þriggja tíma reið upp í Neðra–Rauðaberg og vildu menn fara upp í Svartastokk var ferðatími áætlaður sex klukkutímar.

Bókin Kjarrá og síðustu hestasveinarnir á Víghól kom út nú fyrir jólin. Höfundar eru Stefán Þórarinsson og bræðurnir Einar og Arnór Sigurjónssynir. Skrudda gefur bókina út.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert