Missti hausinn og breyttist í skrímsli

Ragnheiður Thorsteinsson formaður SVFR með Sandár tröllið. Það gekk á …
Ragnheiður Thorsteinsson formaður SVFR með Sandár tröllið. Það gekk á ýmsu, eins og hún opinberar núna. Ljósmynd/Einar Rafnsson

„Þetta var mjög gott sumar fyrir mig. Ég hef aldrei fengið svona marga stóra fiska á einu sumri. Ég fékk 84 sentímetra hrygnu í Elliðaánum. Þessar Elliðaár eru svo frábærar. Það er eitthvað galið við þær. Veiddi vel í Flekkudalsá og Langá. Í Haukadalsá fékk ég 74 sentímetra hæng og svo þennan gæja í Sandá. Hann var náttúrulega bara eitthvað annað,“ ryður Ragnheiður Thorsteinsson út úr sér um leið og hún svarar símanum. Við höldum áfram að fara yfir veiðisumarið 2024 með veiðimönnum.

Hún segir þetta hafa verið sitt besta sumar til þessa. Túrarnir voru ekkert fleiri en í venjulegu sumri. Hlutirnir gengu bara svo vel upp. „Ég var on it í sumar. Það var bara mojo í gangi.“

Hún er formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur, SVFR og sú setti heldur betur fordæmið fyrir sitt fólk. Gæinn sem hún talar um og hún kynntist í Sandá er 94 sentímetra hængur sem hún fékk í sumar. Hennar stærsti til þessa og sagan sjálf er eitt ævintýri. Þá sögu má lesa í hlekk sem fylgir fréttinni.

Stórlax úr Elliðaánum sem Ragga landaði í sumar. Hennar besta …
Stórlax úr Elliðaánum sem Ragga landaði í sumar. Hennar besta sumar til þessa, telur hún. Hún var on it. Ljósmynd/Ragga Thorst

En stundum þurfa sögur að gerjast og fólk að jafna sig. Reyndar er óvíst að Ragga jafni sig nokkurn tíma á þessum fiski. „Ég er með mynd af okkur sem skjáhvílu á símanum og monta mig af honum við öll möguleg tækifæri já og líka ómöguleg. Ég er ekki með mynd af börnunum mínum eða barnabörnunum. Heldur af mér og þessum laxi.“ Hún skellihlær og veit alveg hvað einhverjir kunna að hugsa. En henni er alveg sama.

„Ertu fáviti?“

Var ekki eitthvað í viðureigninni við stórlaxinn í Sandá sem nefndir ekki í fréttinni í sumar?

Það er hlátur í símanum. „Það var þannig að þegar að maðurinn minn háfar fiskinn þá leggur hann laxinn ofan á háfinn til að mæla lengdina. Ég sé bara fiskinn synda út úr háfnum og ég ekki búin að fá mynd af mér eða neitt. Ég sá asnaeyrun vaxa á Einar og verða mjög stór. Ég garga svoleiðis að ég var með í hálsinum í marga daga eftir það. Ertu fáviti? Öskraði ég. Þá sagði hann, af því að hann er svo rólegur og frábær, „Vertu róleg. Hann er hérna enn þá.“ Svo togaði hann fiskinn inn aftur á höndunum og í háfinn. Við vorum ekki búin að losa úr honum og eins og ég sagði frá þá var stöngin brotin og við vorum að vinna þetta á höndunum. Ég þorði ekki að nefna þetta þegar þú tókst viðtal við mig í sumar. Hann sagði að ég hefði alveg mátt gera það,“ upplýsir Ragga nú mánuðum síðar.

Einar Rafnsson, lambrólegur í veiðitúrnum í Sandá í sumar. Þau …
Einar Rafnsson, lambrólegur í veiðitúrnum í Sandá í sumar. Þau hjónin greinir á um hvað Ragga öskraði, en það er ekki aðalatriðið. Þetta fór allt vel og úr varð ævintýri. Þau spjölluðu mikið á heimleiðinni. Ljósmynd/Ragga Thorst

Hefði ekki yrt á hann

Þannig að þetta hefur ekki sett skugga á hjónabandið?

„Nei. En ég get lofað þér því að ég hefði ekki yrt á hann alla leiðina heim. Frá Sandá og til Reykjavíkur. Það hefði ekki verið eitt einasta orð sem hefði komið upp úr mér ef hann hefði farið þessi fiskur. Það bjargaðist þarna hjónabandið,“ hlær Ragga. Það heyrist hins vegar á henni að þögnin hefði vissulega verið til staðar. Veiðigyðjan var í liði með Einari Rafnssyni sem var á háfnum. Allir veiðimenn skilja hvað þetta hefði verið vond staða hefði stórlaxinn kvatt og Einari verið um að kenna.

Svo segir Ragga Thorst að lokum. „Já. Hann var heppinn.“

Það liggur líka fyrir að þær vangaveltur sem voru uppi með fluguna sem Ragga fékk þennan flotta hæng á, var Green Collie Bitch. Nafnið kannski vel við hæfi miðað við hvernig veiðikonan brást við yfirvofandi hörmungum.

Fiskurinn var gríðarlega vel tekinn og hefði aldrei farið. Væntanlega var Einar búinn að sjá það betur en Ragga og var því alveg rólegur.

Skammaðistu þín á eftir?

„Já. Hann vill meina að ég hafi sagt helvítis hálfviti. En ég var algjörlega ekki með sjálfri mér á þessu momenti. Það verður bara að viðurkennast alveg. Ég breyttist bara í eitthvert skrímsli og missti algerlega hausinn. En svo þegar upp var staðið þá er þetta eitt mesta ævintýri sem við hjónin höfum lent í, í veiði.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert