Það eru tæpir níutíu dagar þar til nýtt veiðitímabili hefst formlega. Sumarið 2025 verður hnúðlaxaár. Spurningin er ekki hvort hann kemur, miklu frekar hvort það verði mikil aukning. Hvernig stendur á stórstreymisflóðum þetta sumarið? Við ætlum að velta hér upp nokkrum atriðum sem munu skipta veiðimenn máli í sumar og jafnvel hafa umtalsverð áhrif.
1. apríl er fyrsta stóra dagsetningin sem margir horfa spenntir til. Þá hefst vorveiði á sjóbirtingi og fjölmörg vatnasvæði opna fyrir veiðimenn. Að þessu sinni ber 1. apríl upp á þriðjudag. Páskahelgin er ekki fyrr en 19. og 20. og skömmu síðar stimplar vetur sig út. Síðasti vetrardagur er 23. apríl og eðli málsins samkvæmt er sumardagurinn fyrsti því 24. apríl. Sá dagur stendur reyndar sjaldnast undir nafni reyndar.
Á þessum tíma fjölgar líka hratt vötnum sem opin eru fyrir veiðimenn. Vissulega eru þó nokkur vötn opin allt ár. Sumar miða við að veiði hefjist þegar ísa leysir, önnur hafa fast settar dagsetningar. Veiðikortið er alltaf góður kostur og þar er að finna 37 vötn og vatnasvæði um allt land. Greinagóður bæklingur fylgir Veiðikortinu með upplýsingum um allt sem nauðsynlegt er að vita.
Stórstreymi í maí er dagana 13. og svo aftur 27. Þarna má gera ráð fyrir að fyrstu laxarnir vitji heimkynna sinna. Í það minnsta á Vesturlandi og Suðurlandi.
Stórstreymt er aftur 12. júní og 26. júní. Þarna fara leikar heldur betur að æsast fyrir laxveiðiárnar.
Stórstreymi í júlí ber upp á 13. annars vegar og svo 26. hins vegar.
Svo erum við að tala um 11. ágúst og 24. ágúst.
Svo má deila um hversu miklu máli stórstreymið skiptir þegar kemur að göngu laxins. En það er fínt að hafa trú á þessu eins og öðru. Þeir eru til sem segja að stórstreymi skipti ekki svo miklu máli. Laxagöngur nái alltaf hámarki sínu á sömu dagsetningunum óháð tungli. Hér verður ekki lagt mat á það.
Laxveiðin hefst svo væntanlega í Þjórsá 1. júní. Það er alltaf mjög spennandi dagur. Er hann mættur? Hvernig lítur vorlaxinn út? Það er margt hægt að ráða í fyrstu dagana í Urriðafossi.
Sporðaköst heyrðu í veiðimönnum síðustu daga 2024 og tónninn var býsna svipaður. Margir búast við góðu stórlaxaári 2025 í kjölfar þess að smálaxagöngur í fyrra voru með besta móti í mörg ár. Stórlaxinn, eða tveggja ára laxinn mætir fyrr en smálaxinn þannig að vorveiðin í sumar gæti orðið spennandi. Þar er þó ekkert öruggt svo því sé haldið til haga. En vissulega er líkurnar betri en undanfarin ár. Það er þekkt fylgni milli þess að gott smálaxaár, eins og var í fyrra gefi af sér aukningu í stórlaxi árið eftir. Seiðin sem skiluðu sér sem smálax í fyrra fóru til sjávar vorið 2023. Stórlaxinn sem vonandi kemur í sumar er sami árgangur en sá hluti stofnsins sem ákvað að vera tvö ár á fæðuslóð í sjónum. Þetta eru laxarnir frá 70 plús sentímetrar og upp í hundrað sentímetra.
Frekari stjórnun á hvaða flugur má nota og hvernig aðferðum má beita er víða til skoðunar hjá leigutökum. Six Rivers Iceland reið á vaðið fyrir nokkrum árum og herti veiðireglur í sínum ám á NA–horninu. Eingöngu má veiða í yfirborðinu og ekki nota stórar þungar túbur. Um þetta hafa verið skiptar skoðanir. Nú hafa fleiri leigutaka fetað í fótspor Six Rivers. Starir hafa tekið skref í þessa átt fyrir næsta sumar. Í Víðidalsá sem dæmi mun gilda sú regla í sumar að sökkendar eru bannaðir og ekki má nota stærri túbur en hálf tommu. Þessar reglur eru nú kynntar á reikningum útgefnum af félaginu. Fleiri leigutakar horfa í þessa átt. Hreggnasi beinir tilmælum til veiðimanna en hafa ekki kynnt þetta sem formlega reglu. Aðrir leigutakar stjórna þessu óbeint í gegnum leiðsögumenn í það minnsta yfir það tímabil sem flokkast sem besti tíminn. Viðbúið er að vatnasvæðum fjölgi á næstu árum þar sem settar verða reglur í þessa veru.
Hnúðlax verður að öllum líkindum áberandi í ár. Hann kemur á oddatöluárum og nú er þetta ekki spurning um hvort hann kemur, miklu frekar hvort við sjáum fram á enn frekari aukningu. Hrygning hnúðlaxa hefur verið staðfest í fjölmörgum ám á landinu. Síðasta hrygning hans var 2023 og þau seiði snúa nú aftur til síns heima í sumar. Ólíkt Atlantshafslaxinum er allur stofninn á sama ári og lífsferillinn er tvö ár hjá öllum einstaklingum. Ekki er um að ræða að sumir þeirra dvelji lengur í sjó og komi aftur sem stærri fiskar. Allur 2023 stofninn mætir í sumar. Stóra spurningin er hvort að hnúðlaxinn nái sér enn frekar á strik eða hvort náttúrulegar aðstæður, hverjar sem þær kunnar að vera, komi í veg fyrir það. Aukning hefur verið í stofninum hér á landi síðustu ár. Hins vegar óttuðust margir að sprenging yrði í fjölda hnúðlaxa sumarið 2023. Það varð ekki, þó svo að vissulega hafi sést töluvert mikið af honum. Þetta er ein af stóru spurningum í sumar.
Norðmenn hafa upplifað sprengju í þessum nýja landnema á oddatöluárunum og víst er að margur norðmaðurinn er með kvíðahnút í maganum vegna þessa í sumar. Á sama tíma hefur Atlantshafslaxinn þeirra verið í miklum vandræðum samanber fréttir í fyrra um lokanir á fjölmörgum laxveiðiám. Þær lokanir komu til vegna þess hversu laxagengd var víða léleg.
Það er margt sem verður athyglisvert að fylgjast með á nýju veiðitímabili. Eitt stærsta spurningamerkið er hversu mikið við fáum af smálaxi. Síðasta sumar var besta smálaxaár frá 2018. Smálaxinn heldur uppi veiðitölunum og sannaðist það heldur betur, sérstaklega í Borgarfirðinum, þar sem úr varð ágætis sumar í fyrra og veiðiár sem náði langtíma meðaltali.
Margir horfa til Blöndu. Þar hefur ástand laxastofnsins verðið alvarlegt. Hún sat eftir í fyrra og naut ekki sömu aukningar í smálaxagöngum og árnar í kringum hana. Nýr leigutaki verður með Blöndu í sumar. Fish Partner er að brydda upp á mörgum nýjungum á svæðinu. Hins vegar verður ekki hægt að komast framhjá því að fjöldi laxa hefur alltaf úrslita áhrif.
Þá verður ekki síður áhugavert að fylgjast með Jöklu. Þar eru að verki aðrir kraftar en flestar laxveiðiár búa við. Staðan á Hálslóni er hennar húsbóndi þegar kemur að veiði. Í fyrra naut hún þess að yfirfall kom ekki fyrr en mjög seint á tímabilinu og Jökla átti sitt besta ár.
Bleikja hefur verið að gefa eftir um allt land. Gildir þar einu hvort er horft til fjallavatna eða sjóbleikju. Við höfum fjallað um þetta áður og virðist þetta vera í takti við að sem er að gerast í Noregi. Hér fyrir ofan er hlekkur á viðtalþátt frá sumrinu 2021 þar sem Guðni Guðbergsson ræðir meðal annars um stöðuna á bleikju. Þau ummæli eru enn í fullu gildi.
Sjóbirtingur er víða að sækja í sig veðrið og það á við um fjölmargar ár. Við höfum tekið Ölfusá sem dæmi en þar hefur sjóbirtingsveiði verið mjög vaxandi síðari ár.
En framundan er spennandi veiðiár. Vissulega þrír mánuðir þar til það fer á flug en þeir hörðustu geta farið í veiði gegnum ís og eða beðið eftir að ísa leysi á þeim vötnum sem opin eru allt árið.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |