Skarfur veiddi gullfisk við Elliðaárnar

Skarfurinn með bráð sína, sem að þessu sinni var myndarlegur …
Skarfurinn með bráð sína, sem að þessu sinni var myndarlegur gullfiskur. Þennan fisk veiddi hann í lítilli tjörn sem er skammt frá Elliðaánum. Hún er stutt frá Bónus við Ögurhvarf. Jóhannes náði þessum skemmtilegum myndum á föstudag. Ljósmynd/Jóhannes Birgir Guðvarðarson

Áhugaljósmyndarinn Jóhannes Birgir Guðvarðarson náði skemmtilegum og einkar athyglisverðum myndum af skarfi við veiðar í lítilli tjörn efst við Elliðaárnar. Skarfurinn náði sér þar í myndarlegan gullfisk og sporðrenndi honum, eins og skarfa er siður. Tjörn þessi er skammt frá verslun Bónus við Ögurhvarf, og rétt ofan við Breiðholtsbraut.

Jóhannes gaf Sporðaköstum leyfi til að birta þessar myndir en hann sagðist hafa verið búinn að fylgjast með skarfinum dágóða stund áður en hann náði sér í gullfiskinn. „Ég hef mjög oft séð gæsir á þessari tjörn en þetta er í fyrsta skipti sem ég sé skarf á henni. Hann veiddi fleiri fiska en þeir voru litlir. Ég veit ekki hvort eru fleiri gullfiskar þarna en væntanlega þyrfti að fara með myndavél ofan í vatnið til að kanna það ef menn hafa áhuga að komast að því. Ég var mjög heppinn að sjá þetta og ná að mynda hann með þennan fisk. Hann horfði á mig á milli þess sem hann kafaði og svo kom hann allt í einu upp með þennan gullfisk,“ upplýsti Jóhannes í samtali við Sporðaköst.

Volgt vatn rennur í tjörnina og væntanlega er það ástæðan …
Volgt vatn rennur í tjörnina og væntanlega er það ástæðan fyrir því að fiskurinn gat lifað þar. Jóhannes hefur oft séð gæsir á tjörninni en þetta er í fyrsta skipti sem hann sér skarf þarna. Ljósmynd/Jóhannes Birgir Guðvarðarson

Við hefðbundnar aðstæður ættu gullfiskar ekki að geta lifað í íslenskri náttúru. Hins vegar er þessi tjörn þannig úr garði gerð að volgt vatn rennur í hana og á frostdögum sést einmitt mikil gufa stíga upp af henni.

Hvaðan þessi fiskur er kominn er erfitt að segja til um en mjög líklega hefur verið þessum fiski verið sleppt af einhverjum sem átti hann og losaði sig við hann. Nú eða einhver er að gera tilraun með að sjá hvort fiskar geta lifað í þessari tjörn. Fiskurinn sem skarfurinn náði og át virðist vera hinn vænsti og líkast til þrifist vel. Hins vegar er erfitt að segja til um hvort hann er nýlega kominn í tjörnina eða ekki.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem gullfiskur sést á þessu svæði. Sumarið 2020 sást gullfiskur, líkast til svipaður þessum sem myndaður var, í Elliðaánum sjálfum og virtist hann hinn sprækasti þó að straumlagið reyndist honum erfitt. Myndband fylgir með fréttinni sem birtist í lok júní 2020 og þar sést fiskurinn vel. Það var Svavar Hávarðsson sem tók upp myndbandið. 

Og niður fór hann. Þetta eru síðustu forvöð að gera …
Og niður fór hann. Þetta eru síðustu forvöð að gera vel við sig áður en jólunum lýkur. Á morgun er þrettándinn og eftir hann tekur við hefðbundið líf. Gullfiskur hlýtur að teljast framandi fyrir íslenskan skarf. Ljósmynd/Jóhannes Birgir Guðvarðarson

Fjölmargir hafa tjáð sig um myndir Jóhannesar á facebook síðu hans og einnig í hópnum Fuglar á Íslandi. Margir hrósa Jóhannesi fyrir myndirnar og einnig veltir fólk fyrir sér hvernig fiskur þetta sé. Skiptar skoðanir eru um hvort þetta sé koi fiskur eða ekki. Þá benda nokkrir á að slíkir fiskar þrífist í volgri tjörn við Húsavík og sjálfsagt eru fleiri staðir þar sem gullfiskar lifa. Væntanlega eru það þó allt volgar tjarnir.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert