Lopapeysur með laxa– eða fiskamynstri njóta mikilla vinsælda þessa dagana. Ein af þeim hamhleypum sem situr við prjónana í skammdeginu er Esther Guðjónsdóttir, formaður Veiðifélags Stóru Laxár. „Já. Þær eru mjög vinsælar í dag og ég er búin að prjóna á milli sextíu og sjötíu slíkar, síðustu misseri,“ upplýsir Esther í samtali við Sporðaköst.
Hún er reynslubolti þegar kemur að prjónaskap. Prjónaði fyrstu lopapeysuna sextán ára gömul. Nú rúmum fjórum áratugum og nokkur hundruð peysum síðar er hún snögg að snara fram einni peysu. „Ég er svona um þrjátíu klukkustundir að prjóna eina peysu. Fer aðeins eftir stærðinni en, já svona um það bil þrjátíu tímar fara í hverja. Þetta er mjög þægilegt þegar ekki er mikið við að vera og gott að grípa í prjónaskapinn yfir sjónvarpinu,“ svarar hún aðspurð hversu lengi taki að prjóna lopapeysu.
Fjölmargir veiðimenn við Stóru Laxá hafa keypt peysur af formanninum og líkast til er Gunnar Örlygsson stórveiðimaður, sá sem fest hefur kaup á flestum. „Hann hefur farið með þær til útlanda og gefið og þá skilst mér að mestu leiti til fólks sem hefur áhuga á veiðiskap.“
Peysur Estherar eru til sölu í Veiðibúð Suðurlands og Made in Ísland á Selfossi. Margir panta peysur beint frá henni og hún hikar ekki við að leika sér með liti. Bleikt og blátt í bland við sauðalitina. „Það er gaman að vera með ýmsar útfærslur í þessu. Svo eru nú ekki alveg allar peysurnar prjónaðar úr ull. Sumar eru úr öðru og þá sérstaklega ef þarf að þvo þær oft og þær þurfa að þola þvottavélar reglulega.“
En geturðu horft á sjónvarp og prjónað í leiðinni?
„Já. Það er ekkert mál. Maður þarf kannski að hafa augun á þessu þegar kemur að flóknu köflunum í mynstrinu, annars er það ekkert mál,“ svarar hún.
En Esther lætur ekki þar við sitja. Silfursmíði er nýjasta áhugamálið og þar horfir hún líka til sinni heimahaga. Laxar og hestar einkenna flesta silfurgripina. Hvort sem eru hringar eða hálsmen.
„Ég hef líka verið að vinna aðeins með hestinn, en tengdadóttir mín, Ragnheiður Hallgrímsdóttir er mikil hestamanneskja og ég prjónaði á hana peysu, sem er sú eina sinnar tegundar og hún segir marga græna af öfund út af peysunni,“ hlær Esther. „Og svo fengu náttúrulega ömmustrákarnir sínar peysur en þeir vildu gröfur og traktora á sínar.“
Ertu með nýja peysu á prjónunum núna?
„Já. Ég er einmitt að ljúka við eina. Sá sem fær hana er góður drengur en ég vil ekki upplýsa hver það er nema hann samþykki það.“
Ef hann samþykkir fáum við þá mynd?
„Ég skal spyrja hann,“ svarar Esther. Þetta kitlar forvitnistaugina en að sjálfsögðu skiljum við að Esther virðir trúnað við verðandi peysuhafa.
Esther er nýlega byrjuð að veiða og fékk maríulaxinn vorið 2022 og það að sjálfsögðu í Stóru Laxá. Þrátt fyrir stuttan veiðiferil hefur hún víða komið við, samanber fréttina sem fylgir hér með.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |