Matvælastofnun, MAST hefur nú til rannsóknar seiðaeldisstöð í Borgarfirði en grunur leikar á að um ólöglega aðstöðu sé að ræða, þar sem hundrað þúsund seiði eru í eldi. MAST sendi frá sér fréttatilkynningu í dag um málið og þar er upplýst að rannsóknin tekur til aðstöðu á vegum veiðifélags og er jafnframt greint frá því að fyrirhugað var að sleppa seiðunum í veiðiá í vor. Fréttatilkynningin sem stofnunin sendi frá sér hljóðar svo:
„Matvælastofnun barst ábending um ólöglegt fiskeldi í Borgarfirði. Við eftirgrennslan starfsmanna stofnunarinnar kom í ljós að fiskeldi væri viðhaft í húsnæði í Borgarfirði án rekstrar- og starfsleyfa. Við nánari eftirgrennslan reyndist það vera veiðifélag sem hafði flutt seiðin í húsnæðið í þeim tilgangi að ala seiðin þar uns þeim yrði sleppt í veiðiá í vor. Húsnæðið þar sem starfsemin er stunduð uppfyllir ekki skilyrði laga og reglugerða um fiskeldi auk þess sem vörnum gegn stroki er ábótavant.
Matvælastofnun hefur málið til rannsóknar og mun upplýsa um málið að rannsókn lokinni.“
Ekki er upplýst hvaða veiðifélag á í hlut. Veiðifélag Ytri Rangár og Vesturbakka Hólsár brást hratt við og sendu frá sér yfirlýsingu þar sem þeir segjast ekki tengjast umræddu máli. Félagið er einmitt með aðstöðu í Borgarfirði til að ala og rækta sín seiði. Í yfirlýsingunni segir: „Okkar starfsstöð er með öll tilskyld rekstrar– og starfsleyfi og koma öll okkar seiði það sem og þau seiði sem við framleiðum fyrir aðrar ár.“
Karl Steinar Óskarsson, deildarstjóri fiskeldis hjá MAST sagði í samtali við Sporðaköst að ekki væri hægt að nafngreina þann aðila sem er til rannsóknar. Hann benti á að samkvæmt lögum þá yrði það ekki gert fyrr en að lokinni rannsókn.
Eftir því sem næst verður komist eru um hundrað þúsund seiði í stöðinni og miðað við upplýsingar sem Sporðaköst hafa viðað að sér gæti verðmæti þeirra verið rúmlega tuttugu milljónir króna.
Það húsnæði og sá rekstur sem hér er til rannsóknar er ekki að ala seiði fyrir laxveiðiá í Borgarfirði eða á Vesturlandi.
Karl Steinar segir þetta fyrsta mál sinnar tegundar sem hann og hans fólk hefur fengið til rannsóknar og markmiðið er að hraða rannsókninni. Karl Steinar fór sjálfur á staðinn ásamt fleirum úr hans teymi. „Okkur ber að stöðva starfsemina þegar ekki eru fyrir hendi starfsleyfi. Það er bannað að flytja fisk í aðstöðu sem ekki er með starfsleyfi. En við munum koma með ítarlegri frétt um málið þegar rannsókn er lokið og við höfum komist að niðurstöðu,“ upplýsti Karl Steinar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |