Spálíkan um laxveiði sem tekur mið af hitastigi á fæðuslóð laxaseiða þegar þau ganga út hefur vakið mikla athygli meðal veiðimanna. Í fyrra var spáð verulegum bata í smálaxi út frá þessu spálíkani. Það gekk eftir. Nú er búið að uppfæra líkanið fyrir sumarið 2025.
Það eru fiskifræðingarnir Jóhannes Guðbrandsson og Sigurður Már Einarsson sem hönnuðu líkanið. Hitastigið á fæðuslóðinni sumarið 2023 var ellefu gráður. Það var töluverð hækkun hitastigs og gaf líkanið þá til kynna að umtalsverð aukning yrði í göngu smálaxa í ár á Vesturlandi. Vissulega horfa áðurnefndir fiskifræðingar fyrst og fremst til þess landshluta en þó virðist sem áhrifin teygi sig lengra. Bæði hvað varðar Suðurland og drjúgan hluta Norðurlands.
Mæling meðaltalshita á sama svæði síðastliðið sumar sýndi hitastigið 10,3 gráður. Það er ofurlítil kólnun frá því í fyrra. En gráðubrotin eru býsna dýrmæt í þessum mælingum. Sigurður Már Einarsson mætti fyrir hönd þeirra félaga í myndver mbl.is á dögunum og fór yfir útlitið þegar hitatölurnar liggja fyrir. Það er skemmst frá því að segja að það verður minna af smálaxi í sumar en í fyrra, á Vesturlandi samkvæmt þessu. Þetta er ekki endilega stór sveifla en hún er niður á við. Á móti kemur sú staða að góðar líkur eru á góðu stórlaxasumri. Smálaxinn í fyrra var betri en í mörg ár og þá eru allar líkur á að árið á eftir sé ávísun á gott stórlaxasumar.
Í viðtalsbrotinu sem hér fylgir fer Sigurður Már yfir stöðuna. Græna örin sem merkt er inn á línuritið gefur til kynnar hversu margir smálaxarnir geta orðið á Vesturlandi í sumar. Punkturinn fellur á milli tíu og ellefu þúsund laxa. Þeir voru í fyrra um 14.200. Til samanburðar var laxagangan á Vesturlandi sumarið 2023 undir tíu þúsund löxum.
Gangi þessi spá eftir er líklegt að veiði verði spennandi fyrri hluta sumars, þegar stórlaxinn gengur. Það gæti hins vegar reynt á þolrif veiðimanna í ágúst ef lítið verður af smálaxi. Haustið gæti svo aftur orðið betra.
Í viðtalsbrotinu sem fylgir með fréttinni fer Sigurður Már yfir spálíkanið. Þeir sem vilja meiri og fyllri upplýsingar geta hlustað á viðtalið í heild sinni með því að smella á linkinn hér að neðan.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |