Veiðiálag hefur minnkað í mörgum ám

Samkvæmt gögnum sem Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur hefur skoðað hefur veiðiálag í mörgum ám á Vesturlandi minnkað til mikilla muna. Þetta kom fram í spjallþætti Sporðakasta hér á mbl.is þar sem Sigurður Már var gestur um síðustu helgi.

„Hvað veiðist mikið af laxinum sem gengur í árnar. Þetta snýst um það. Hvert er þetta hlutfall?“ spyr Sigurður. Hann bendir á að með tilkomu teljara í ánum hafi verið hægt að fara skoða þetta hlutfall betur. „Við tókum þetta saman árið 2007 og þá var staðan yfirleitt þannig að fimmtíu prósent af smálaxinum veiddist og á milli sextíu og sjötíu prósent af stórlaxinum. Þannig að það var ansi mikið tekið af stofninum,“ upplýsir Sigurður. 

Ástæðan fyrir hærra veiðihlutfalli á stórlaxinum er einfaldlega vegna þess að hann kemur fyrr í ána og er því lengur inni í veiðinni en smálaxinn sem kemur að mestu leiti aðeins síðar.

Flugan fer betur með

Nú hefur orðið breyting á og það umtalsverð. Í viðtalsbútnum sem fylgir með fréttinni má sjá línurit sem Sigurður Már var búinn að taka saman og sýnir veiðiálag og þróun þess í Elliðaám, Norðurá, ofan Glanna, Langá fyrir ofan Sveðjufoss, Gljúfurá, Krossá og Búðardalsá. Meðaltalslína gengur svo í gegnum línuritið. „Veiðihlutfallið er að lækka. Byrjaði í yfir sextíu prósent og þar sem það endar á línuritinu er það komið niður í þrjátíu prósent. Af hverju gerist þetta?“ spyr Sigurður og svarar svo sjálfur. „Ég held að stærsta skýringin á þessu sé sú að það er farið að nota flugu mjög víða og í mörgum ám er fluga eina leyfða agnið. Flestar stóru árnar er alfarið komnar í þetta. Ég er að túlka þetta þannig að flugan fari betur með heldur en þegar blandað agn var leyft. Það virðist vera að það verði meira eftir í ánum ef flugu er eingöngu beitt í veiði,“ útskýrir hann.

Langá fyrir ofan Sveðjufoss, tekur Sigurður Már sem sérstakt dæmi. Það sem af er öldinni hefur veiðihlutfall á því svæði lækkað hreint ótrúlega. 2015 var farið eingöngu í fluguveiði og er nú svo komið að veiðihlutfall er orðið mun minna. Frá aldamótum og fram til 2014 var þetta hlutfall um fjörutíu prósent ofan við Sveðjufoss, þegar meðaltal er tekið. Meðaltal veiðiálags frá 2015 til dagsins í dag er hins vegar komið niður í 25%.

Viðtalið við Sigurð Má í heild sinni er hægt að nálgast með því að smella á linkinn hér að neðan.

Nýgengin lax úr Langá á Mýrum. Veiðiálagið hefur minnkað mjög …
Nýgengin lax úr Langá á Mýrum. Veiðiálagið hefur minnkað mjög mikið á svæðinu fyrir ofan Sveðjufoss. Morgunblaðið/Einar Falur
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert