Aðilar vinnumarkaðarins, eins og samtök launþega og vinnuveitenda eru gjarnan kölluð, eru farnir að hita upp fyrir samningaviðræður í haust og vetur, en samningar eru flestir lausir í febrúar á næsta ári. Miklu skiptir að vel takist til og að samið verði til langs tíma að þessu sinni, en síðast þóttu aðstæður ekki leyfa annað en skammtímasamninga. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands, ASÍ, kom saman í gær og ræddi það sem framundan er. Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, sagði í samtali við Rúv. að fleira héngi á spýtunni en hinir eiginlegu kjarasamningar enda fælist margt annað í kaupmætti, þar með talin húsnæðismálin.
Meira