Saga Bessastaða á Álftanesi er svo samofin sögu og örlögum íslensku þjóðarinnar að þar verður vart greint á milli og líklega kemst ekkert íslenskt höfuðból þar nærri í samjöfnuði. Bessastaðir hafa bæði verið í eign einstakra manna og ríkiseign. Þeir hafa verið stjórnarsetur, kirkjustaður og skólasetur og þar hefur verið rekin prentsmiðja með bóka- og blaðaútgáfu. Bessastaðir hafa verið í eign fræðimanna og skálda, eins og Snorra Sturlusonar og Gríms Thomsen. Þar hafa setið landstjórnarmenn og fyrirmenn, svo sem höfuðsmenn og amtmenn, fógetar, ríkisstjóri og forsetar. Þar hafa starfað merkir skólamenn eins og Hallgrímur Scheving og vísindamenn á borð við Sveinbjörn Egilsson og Björn Guðlaugsson. Þar hafa stundað skólanám ýmsir öndvegismenn, og skal ástmögur þjóðarinnar, Jónas Hallgrímsson, nefndur í þeim hópi.
Ýmis atvinnustarfsemi hefur farið fram á Bessastöðum og þar gerðar tilraunir, svo sem um fjárrækt og fálkafang, útræði og búskap, og þar var eitt sinn rekin ullarverksmiðja. Á Bessastöðum voru gerðar veðurathuganir og rekin rannsóknarstöð í stjörnuathugun. Þar fór fram læknakennsla og rekin lyfjabúð. Hinir ólíklegustu þættir þjóðarsögunnar hafa fléttast saman á Bessastöðum sem best sést á því að þar var eitt sinn fangelsi sakamanna og jafnframt leiknir fyrstu sjónleikir, sem leiknir voru á Íslandi, að því er best er vitað.
Saga Bessastaða er ekki eingöngu saga höfuðbóls og menntaseturs. Vegna embættisstöðu Bessastaðabænda um langan aldur voru örlög og lífskjör þjóðarinnar nátengd þessu höfuðbóli. Það er saga kúgunar, eymdar og yfirtroðslu. Og vegna embættistengsla Bessastaðamanna við dönsku krúnuna fyrr á öldum ber saga Bessastaða vitni um erlenda ásælni og yfirdrottnun. Á sama hátt má segja að hlutverk Bessastaða á okkar tímum, sem embættisbústaður forseta Íslands, sé tákn um sjálfstæði þjóðarinnar og þjóðlegt viðnám gegn ásælni erlends valds.
Fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós að búseta hefur verið á Bessastöðum allt frá landnámsöld. Álftanesið var í landnámi Ingólfs Arnarsonar, en hvergi verður ráðið af heimildum hver sá Bessi var, sem Bessastaðir eru kenndir við. Þegar endurbætur hófust á Bessastaðastofu árið 1987 kom í ljós að undir henni voru allt að 3,5 metra þykk mannvistarlög og hafa þar fundist minjar um fyrstu búsetu manna þar, meðal annars leifar af tveimur stórum skálum, eldhús og búr, jarðhús, útihús og garðar. Af fornleifarannsóknunum má ráða að Bessastaðir hafi verið allstórt býli allt frá upphafi. Bæjarhóllinn er einn sá stærsti á Íslandi, rúmlega 50 metra breiður og 150 metra langur, og hefur hann að geyma mikilvægar og áþreifanlegar upplýsingar um þróun búsetu á Bessastöðum.
Bessastaða er ekki getið í rituðum heimildum fyrr en um tveimur öldum eftir að búseta þar hófst. Það er ekki fyrr en á Sturlungaöld sem Bessastaðir fara að koma verulega við sögu, en þá voru þeir í eigu skáldsins og stórhöfðingjans Snorra Sturlusonar. Ekki er vitað með vissu hvernig Snorri hefur eignast jörðina, en hann var mikill jarðeigandi og leitaði víða fanga í þeim efnum og sótti þá oft fjármálin meira af kappi en rétti, svo sem farið hefur með fleirum bæði fyrr og síðar, en Sturlungaöldin einkenndist af hatrammri baráttu nokkurra höfðingjaætta um auð og völd í landinu.
Miðstöð konungsvaldsins
Eftir fall Snorra Sturlusonar taldi Hákon gamli, Noregskonungur, sig eiga tilkall til arfs eftir Snorra og sló eign sinni á staðinn. Þannig urðu Bessastaðir miðstöð konungsvaldsins á Íslandi, og um leið uppistaða í jarðeignum og jarðeignavaldi konungs hér á landi. Sátu umboðsmenn konungsvaldsins jafnan á Bessastöðum og á löngum kafla Íslandssögunnar voru Bessastaðir tákn æðsta valdsins í þjóðfélaginu.Bessastaðir komu mjög við sögu siðaskiptanna enda stóð konungsvaldið að hinum nýja sið og umboðsmenn þess veittust gegn biskupunum Ögmundi Pálssyni og Jóni Arasyni, sem þrjóskuðust við. Siðbótarmenn konungs fóru í herferðir frá Bessastöðum og þar voru lögð á ráðin um aftöku Jóns Arasonar og sona hans.
Af þeim umboðsmönnum erlenda konungsvaldsins sem sátu á Bessastöðum varð Henrik Bjelke, höfuðsmaður og lénsmaður, einna nafntogaðastur, enda gerðust í hans tíð einhverjir örlagaríkustu atburðir íslandssögunnar, sem tengjast Bessastöðum. Það voru hyllingareiðarnir 1662, þegar Friðriki konungi þriðja voru svarnir erfða- og einveldiseiðar. Við einveldistökuna urðu ýmsar breytingar á íslenskri stjórnsýslu og var hinn forni konungsgarður á Bessastöðum þá gerður að embættisbústað tveggja æðstu umboðsmanna konungs hér á landi, landfógeta og amtmanns, þar til landsstjórnin fluttist til Reykjavíkur á nítjándu öld.
Árið 1867 komust Bessastaðir í eigu skáldsins og alþingismannsins Gríms Thomsen, en hann fæddist þar árið 1820. Grímur bjó á Bessastöðum ásamt konu sinni Jakobínu Jónsdóttur, þar til hann lést árið 1896, en þá keypti Landsbanki Íslands jörðina. Tveimur árum síðar eignuðust hjónin Theodóra Thoroddsen skáldkona og Skúli Thoroddsen ritstjóri og þingmaður Bessastaði. Síðar bjuggu þar Jón H. Þorbergsson bóndi (1917-28) og Björgúlfur Ólafsson læknir (1928-40) og árið 1940 keypti Sigurður Jónasson forstjóri Bessastaði. Þegar embætti ríkisstjóra var stofnað var nokkur óvissa um hvar ríkisstjóri skyldi hafa aðsetursstað og kom þá upp sú tillaga að hann sæti á Bessastöðum. Hermann Jónasson, þáverandi forsætisráðherra, spurðist fyrir um það hjá eiganda jarðarinnar hvort hann vildi selja staðinn til þessara nota og bauðst Sigurður þá til að afhenda ríkinu Bessastaði að gjöf, og var því boði tekið. Þetta var árið 1941, en Bessastaðir hafa síðan verið aðsetur forseta Íslands frá stofnun lýðveldisins 1944.
Bessastaðakirkja
Bessastaðakirkja hefur vissa sérstöðu í íslenskri kirkjusögu að því leyti að hún stóð á höfuðbóli, en var ekki höfuðkirkja. Bessastaðir voru veraldlegt höfuðból, en ekki kirkjulegt og stundum stóð þar stríð milli hins veraldlega og andlega valds í afstöðunni til kirkjunnar.Ekki verður rakið með vissu hvenær kirkja var fyrst sett á Bessastöðum, en líklegt er að það hafi verið nokkuð snemma í kristni hér á landi og eru elstu heimildir um kirkju þar frá árinu 1200. Bessastaðakirkja hefur í upphafi verið bændakirkja, en í elsta máldaga hennar, frá 1352, segir að þar skuli vera "kvengildur ómagi úr kyni Sveinbjarnar". Er þar líklega átt við Sveinbjörn Ólafsson, sem var fimmti ættliður frá landnámsmanninum Ásbirni Özurarsyni, sem bjó á þessum slóðum á 11. öld.
Nokkrar tilraunir voru gerðar til að efla kirkjuna á Bessastöðum og hefja hana til vegs og virðingar, en það gekk illa eftir og gekk á ýmsu með viðhald hennar. Í byrjun 17. aldar var hún orðin hrörleg og var þá ný timburkirkja reist, allstór. Hún var þó vanviðuð og illa smíðuð og fauk í ofviðri 1619. Þá var reist þar torfkirkja, sem stóð alllengi með viðgerðum og var hún meðal annars timburþiljuð. Henrik Bjelke höfuðsmaður lét á sinni tíð gera við kirkjuna og gaf hann henni stóra klukku.
Kristján konungur sjöundi ákvað svo að láta reisa steinkirkju á Bessastöðum og var leitað frjálsra samskota um allt land og einnig í Danmörku og Noregi, auk þess sem konungur lagði fram fé til kirkjusmíðinnar. Við byggingu kirkjunnar var hafður sá háttur á að hlaða múrveggi nýju kirkjunnar utan um gömlu kirkjuna og voru múrveggirnir hafðir mjög þykkir, rúmur metri, úr hlöðnu, kölkuðu grjóti. Hin nýja steinkirkja var vígð 1796 og stendur enn og er með elstu steinbyggingum landsins. Smíði turnsins lauk þó ekki fyrr en 1823. Breytingar voru gerðar á innviðum Bessastaðakirkju á árunum 1945 til 47 og steint gler var sett í gluggana árið 1956. Þá fór gagnger viðgerð fram á Bessastaðakirkju árið 1998.
Bessastaðastofa
Húsnæðið á Bessastöðum þótti ekki alltaf upp á marga fiska og þótt ýmis hús hefðu verið reist þar í aldanna rás hafði sjaldnast verið vandað til verka og oft byggt af vanefnum. Það var ekki fyrr en Magnús Gíslason, fyrsti íslenski amtmaðurinn á Bessastöðum, kom til sögunnar að rofa tók til í húsnæðismálum þessa forna höfuðbóls. Þegar hann átti að fara að setjast þar að, fyrst settur amtmaður 1752 og aftur þegar hann var skipaður 1757, þótti honum í bæði skiptin að ekki væru íbúðarhæf húsin á Bessastöðum. Danska stjórnin réðst þá í byggingu tveggja steinhúsa samtímis, það er embættisbústaðar Bjarna Pálssonar landlæknis á Nesi við Seltjörn og Bessastaðastofu, embættisbústaðar Magnúsar Gíslasonar amtmanns. Bessastaðastofa var reist á árunum 1761 - 66 og þótti hið veglegasta hús, 33 álnir og 3 tommur að lengd, 16 álnir og 16 tommur á breidd og nálægt 5 álnum á hæð og veggir hlaðnir úr tilhöggnum kalklímdum grásteini. Verulegar breytingar voru gerðar á húsinu er ríkisstjóri fékk það til umráða 1941 og aftur þegar húsið var endurbyggt á árunum 1989-1990.Bygging Bessastaðastofu var að vissu leyti tákn um nýja tíma í landinu. Furðulegt má teljast hversu lengi hafði dregist að koma upp vönduðu og varanlegu húsnæði á slíku höfuðbóli sem konungsgarðinum á Bessastöðum. Þegar Bessastaðastofa loks reis var hlutverk staðarins sem stjórnarseturs á enda runnið. En þá reis þar annað og ekki ómerkara setur, íslenskt menntasetur, sem mikill ljómi hefur stafað af í vitund íslensku þjóðarinnar allt fram á okkar dag. Sú saga verður ekki rakin hér enda efni í aðra og lærðari grein.
Heimildir
Bessastaðir - Þættir úr sögu höfuðbóls,
eftir Vilhjálm Þ. Gíslason. Útg.: Bókaút-
gáfan Norðri 1947. - Myndir úr sömu bók.
Vefsíða embættis forseta Íslands, www.
forseti.is
Heimildir Bessastaðir - Þættir úr sögu höfuðbóls, eftir Vilhjálm Þ. Gíslason. Útg.: Bókaútgáfan Norðri 1947. - Myndir úr sömu bók. Vefsíða embættis forseta Íslands, www. forseti.is