Þegar þú beygir inn Whitfield Street í vesturhluta London er lítill veitingastaður þar rétt við hornið. Þetta er vel upplýstur staður en einhvern veginn er erfitt að átta sig á hvað er handan við hurðina. Lítil uppljómuð verönd er fyrir framan og þegar stigið er inn fyrir dyrnar heyrist skrítið hljóð því viðskiptavinir stíga á smásteina sem vekur furðu hjá ýmsum.
Archipelago er veitingastaður sem á engan sinn líka og er matseðillinn blanda af matseld víðsvegar að þó aðallega sé einblínt á Kyrrahafið. Staðurinn er málaður í dökkgrænum og rauðum litum og veggirnir eru þaktir af dóti frá öllum heimshornum. Þarna ber m.a. að líta stór olíumálverk, búddastyttur, afrískar grímur og landakort. Borðin eru troðin af alls lags dóti; blævængjum, páfuglsfjöðrum, styttum og kistlum og glösum af mismunandi stærðum og gerðum enda fær hver gestur ólíkt glas. Matseðlarnir eru annaðhvort á diskunum snyrtilega rúllaðir upp með rós eða geymdir í fjársjóðskistu. Niðri í kjallara er lítil skrautleg setustofa og geta gestirnir í raun skemmt sér bæði þar og við borðin við að velja hvaða hluti þeim líst best eða verst á, svona til að stytta sér stundir ef umræðuefnin eru af skornum skammti.
Nú hefur Bruce Alexander, eigandi staðarins, prentað á matseðlana að margir af hlutunum séu til sölu og ef að hlutir hverfi þá verði gestirnir rukkaðir um þá. Bruce líkir staðnum við háaloft gamallar frænku og það sé einmitt hugmyndin á bak við staðinn. Staðurinn eigi að vera heimilislegur og fólki á að líða vel. "Þú getur borðað með hnífapörum, prjónum eða hreinlega með puttunum allt eftir því hvað þú vilt - hér eru engar reglur og engir fordómar."
Þar af leiðandi er heldur engin krafa gerð um formlegan klæðnað og gestir koma í gallabuxum og bolum eða í galakjólum allt eftir því hvernig liggur á þeim.
Þjónustan er á hinn bóginn í hágæðaflokki og ef fólk skreppur t.d. frá borðinu þá er búið að brjóta munnþurrkuna fallega saman þegar fólk sest aftur að borðinu.
Vegna þessa er Archipelago einstaklega vinsæll staður og þekktir einstaklingar koma þangað gjarnan eins og bresku prinsarnir William og Harry, tískuhönnuðirnir Julian MacDonald og John Galliano, fyrirsætan Kate Moss, Ken Livingstone borgarstjóri London og fyrrverandi tengdadóttir Íslands, Mel B.
Viðskiptavinir mega staldra við eins lengi og þeir vilja en á mörgum stöðum í London er einfaldlega ætlast til að fólk sé farið innan tveggja stunda. Borð eru því aldrei tvíbókuð á kvöldin.
Hráefnið í matargerðina er fengið hvaðanæva að en allt er það lífrænt ræktað. Bruce er ekki kokkur en hann veit hvað hann vill bjóða upp á svo hann sér um að setja saman matseðilinn ásamt kokkinum. Þeir breyta matseðlinum um það bil fjórum sinnum á ári, samkvæmt árstíðunum, þó að sumt sé alltaf á seðlum þeirra.
"Þegar við breytum matseðlinum þá sest ég niður og segi hvað ég vil og hann eldar og svo smakka ég og þannig vinnum við saman þar til við erum báðir ánægðir."
Krókódíll og eþíópískt lamb
Á matseðlinum er m.a. krókódíll með taílenskri sósu, páfugl með tómata- og vanillumauki, eþíópískt lamb, froskalappir og kryddlegnar kengúrulundir með rótargrænmeti.Svo er hægt að fá hliðardiska með salati, hvítlauks- og piparkrydduðum kartöflum en einnig pöddusalat. Fyrir þá sem vilja ekki svona framandi mat þá er líka boðið uppá andabringur, fisk, svínakjöt og ýmsa grænmetisrétti. "Við viljum ekki bjóða upp á neitt sem fólk hryllir við eins og augnasúpu í Indiana Jones-stíl. Eitt sinn vorum við með lunda á matseðlinum en það var ekki sérlega vinsælt þar sem lundar eru taldir vera í útrýmingarhættu á Englandi."
Eftirréttirnir eru líka skemmtilega öðruvísi, þar sem m.a. er hægt að fá osta með ávöxtum eða frauð með gulli, en til að toppa allt þá geta viðskiptavinir pantað súkkulaðihúðaðan sporðdreka. Og fyrir þá sem þora þá er hægt að fá heimsókn frá lækninum. Læknirinn kemur með úttroðna ferðatösku af alls lags áfengi, þar á meðal kanilvodka með gulli eða absinthe sem snákur hefur legið í og í lokin fá "sjúklingarnir" pillu frá lækninum og vatnsskál svo að allir geti læknast og skemmt sér enn betur.
Um það bil 10 rúllur
1 kg krókódílahalar (mega vera kjúklingabringur eða
kjúklingalundir í staðinn)
125 ml kókosmjólk
40 g pálmasykur
15 ml fiskisósa
20 ml grænmetisolía
75 g rautt karrímauk
1 súraldinslauf vínlauf
Karrímaukið sett í olíuna ásamt öllu innihaldinu fyrir utan krókódílinn eða kjúklinginn og þetta látið malla í 15 mínútur og síðan leyft að kólna. Setjið kjötbitana út í kryddlöginn og látið liggja í honum í að minnsta kosti einn dag.
Rúllið hverjum bita inn í vínlauf og gætið þess að allur krókódíllinn eða kjúklingabitinn sé þakinn. Steikið krókódílinn á háum hita í 1-1 1/2 mínútu á hvorri hlið, þangað til hann er svartur en kjúklingurinn þarf lengri steikingu.
Berið fram með því sem hentar.
Höfundur hefur verið búsettur í London.