Starfsfólkið var vel með á nótunum og frótt um osta.
Starfsfólkið var vel með á nótunum og frótt um osta. — Ljósmynd/Sigrún Sandra Ólafsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Osta af öllum stærðum og gerðum er að finna í Neal's Yard Dairy í London. Sigrún Sandra Ólafsdóttir nældi sér í nokkra bita.

Því miður hefur matarmenning Bretlands haft það orð á sér að þar sé varla ætan bita að finna og Frakkland og Ítalía hafa frekar haft vinninginn þegar hugsað er um Evrópulönd með glæsilegan feril á matarsviðinu. Það er þó óþarfi að alhæfa á svo afgerandi hátt um mat og afurðir frá Bretlandi, enda þar hægt að finna veitingastaði og hráefni á heimsmælikvarða og eitt af því sem þeir framleiða með góðum árangri eru ostar.

Á göngu í London um daginn var blaðamanni bent á sérverslun með breska osta, nálægt Covent Garden, nánar tiltekið við hús númer 6 á Park Street, við Borough Market, sem heitir Neal's Yard Dairy. Þegar maður er svo heppinn að njóta leiðsagnar heimamanna á ferðalögum, þá eru meiri líkur á því að detta niður á skemmtilega gullmola eins og blaðamanni fannst hann hafa fundið í þessari verslun. Verið var í för með Lundúnabúa sem þekkir borgina út og inn - og vildi greinilega hækka álit ferðamannsins á breskum mat og afurðum.

Í Neal's Yard Dairy eru til sölu ostar sem framleiddir eru víðs vegar um Bretland og það var skemmtilegt að sjá að ostarnir voru oftast merktir ákveðinni fjölskyldu eða bóndabæ sem gaf þessu sveitalegan og heimilislegan blæ. Þannig var t.d. Sleightlet-osturinn gerður af þeim Mary Holbrook og Phyllis Teal á Sleight bóndabænum í Tinsbury í Somerset. Verslunin geymir bæði kúaosta og geitaosta, mygluosta sem milda osta, og bæði harða osta og mjúka. Sem sagt allt fyrir ostadýrkandann! Stórir óskornir ostar prýddu hillur upp um alla veggi, en í versluninni var líka hægt að fá hafrakex og sultur til þess að njóta með ostadýrðinni.

Bragðað var á Cornish Yarg, sem er afskaplega bragðgóður og mildur ostur, og svo Gorwydd Caerphilly, sem var með mildu sveppabragði og mælt með því að hans væri notið með brauði. Geitaosturinn sem smakkað var á nefndist Golden crust, en honum er rúllað upp úr ösku til þess að hann fái sitt einstaka bragð.

Starfsfólkið í versluninni var áhugasamt um að kynna vöruna vel og kunni greinilega sitt fag. Þau sögðu líka mjög mikilvægt að halda góðu sambandi við fjölskyldurnar sem "ættu" ostana því þannig væri frekar hægt að ganga úr skugga um að alltaf væru afbragðs ostar til sölu.

Það má því vel mæla með heimsókn í Neal's Yard Dairy í næstu Lundúnaferð, þar sem festa má kaup á nokkrum bitum af girnilegum ostum ásamt pakka af hafrakexi og leggjast svo í nestisferð í góða veðrinu.

Neal's Yard Dairy 6 Park street Borough Market London SE1 9AB www.nealsyarddairy.co.uk