Með tilkomu brúar yfir Eyrarsund fyrir sex árum varð til eitt atvinnusvæði sem nær yfir Kaupmannahöfn og Malmö í Svíþjóð. Malmö er þriðja stærsta borg Svíþjóðar og í hana hefur hlaupið enn meiri vöxtur eftir að hún varð hluti af Eyrarsundssvæðinu. Eyrarsundsbrúin er flott mannvirki sem gaman er að skoða og keyra yfir. Nokkrir tugir þúsunda hafa einnig fengið að hlaupa yfir brúna í árlegu hálfmaraþoni sem haldið var í sjötta og síðasta skipti á 17. júní.
Þegar komið er yfir í Svíaríki er upplagt að fá sér hádegismat í bryggju- og strandhverfinu Västra Hamnen í Malmö, t.d. á veitingastaðnum Salt & Brygga sem byggir á grundvallarreglunni um "slow food" - andstöðu skyndibita. Gott ráð fyrir ferðapyngjuna er að fá sér hádegismat á fínu veitingastöðunum en velja ódýrari veitingastaði fyrir kvöldmat.
Í Västra Hamnen stendur Turning Torso upp úr. Allt önnur upplifun er að sjá þessa byggingu í raunveruleikanum en á myndum. Hún hefur hlotið mikla athygli fyrir frumlegan arkitektúr Santiago Calatrava og er að verða einkennismerki Malmö.
Höfuðborg Skánar er vinsæll verslunarstaður, m.a. hjá Kaupmannahafnarbúum. Hagstæðara er að versla í Svíþjóð en Danmörku og það geta Íslendingar líka haft í huga. Í Malmö hafa á síðustu árum skotið upp kollinum margar skemmtilegar tískuverslanir. Nefna má tvær slíkar í gamla bænum, þ.e. Lilla Svarta á Adelgatan og Issue á Stora Nygatan, sem er orðin vinsæl verslunargata. Hefðbundnu búðirnar eru þarna líka og léttur göngutúr um bæinn því upplagður eftir hádegismat.
Þegar kemur að því að velja gistingu í hringferð sem þessari er vert að hafa í huga að það getur borgað sig að velja hótel fremur en farfuglaheimili. Sérstaklega ef bara á að stoppa eina nótt á hverjum stað og fjölskylda ferðast saman. Kostnaðurinn við gistingu á farfuglaheimili safnast saman þegar kaupa þarf rúmföt og morgunmat fyrir fjóra og verður að lokum sambærilegur við herbergi á hóteli þar sem allt er innifalið.
Strandbæirnir Skanör og Falsterbo
Stuttir útúrdúrar úr Eyrarsundshringnum eru t.d. háskólabærinn Lundur þar sem margir Íslendingar hafa stundað nám eða "litlatáin" á Skáni, Skanör med Falsterbo. Um 20 mínútna akstur er á milli Lundar og Malmö og vel þess virði að kíkja á einn af elstu bæjum Svíþjóðar. Dómkirkjan og háskólasvæðið er aðalsmerki Lundar. Á sumrin tæmist bærinn reyndar því sem næst þar sem íbúarnir flykkjast í sumarhúsin sín við ströndina eða í skerjagarðinum.Til Skanör med Falsterbo er um hálftímaakstur frá Malmö og þegar komið er út á einhverja af sandströndunum er eins og tíminn standi í stað. Af hverju að fara til Majorka? Sjórinn er reyndar aðeins kaldari í Svíþjóð, en sólin yljar jafn vel eftir sundsprettinn.
Sveitarfélagið Skanör med Falsterbo er í raun tveir litlir strandbæir, Skanör norðan megin og Falsterbo sunnan megin á litlu nesi. Í Skanör fylla skúturnar fallega höfnina og baðströndin er þar við hliðina. Í höfninni eru fiskbúðir fullar af fólki að ná í fisk á grillið eða í lautarkörfuna og veitingastaðurinn Fiskrögeriet sem sænsku konungshjónin heimsækja víst oft á Skánarferðum sínum.
Góð strönd er rétt við golfskálann í Falsterbo og í smá göngufjarlægð er einnig Falsterboviti, sem er bygging frá átjándu öld.
Hafnarstemning í Helsingborg
Eftir afslöppunina við syðstu strendur Eyrarsunds er ekið norðureftir á ný. Landskrona er næsta borg á vegi ferðalanga frá Malmö. Þaðan er hægt að taka ferju út í eyjuna Ven, einnig kölluð eyja stjörnufræðingsins Tycho Brahe. Þar má skoða safn tileinkað honum sem opnað var á síðasta ári.Helsingborg er síðasti áfangastaðurinn Svíþjóðarmegin í Eyrarsundshringnum. Við höfnina er skemmtilegt svæði fyrir gangandi vegfarendur, Kajpromenaden. Skútur og snekkjur vagga við bryggju og hægt að velja úr veitingastöðum og kaffihúsum til að njóta útsýnisins yfir til Danmerkur. Margar fallegar byggingar standa við höfnina, þ. á m. er Dunkers kulturhus, menningarhús sem m.a. á frægðina að þakka sérstökum arkitektúr danska arkitektsins Kim Utzon.
Tveir ísar á dag eru nauðsynlegir í sænska sumarhitanum og í Glassfabriken við Kungsgatan í Helsingborg er mikið úrval. Almennt er Skánn þekktur fyrir góðan mat og í Helsingborg eru margir góðir veitingastaðir. Rétti staðurinn til að leita að þeim er við göngu- og verslunargötuna Kullagatan og hliðargötur hennar. Í leiðinni er hægt að rekast á litlar hönnunarverslanir. Vinsæll sænskur sjónvarpskokkur, Niklas Ekstedt, rekur t.d. veitingastað undir eigin nafni við Norra Storgatan, þar sem hægt er að velja á milli "bistro" á neðri hæðinni eða þess dýrasta og fínasta á efri hæðinni.
Frá Helsingborg er hægt að gera nokkra útúrdúra áður en haldið er til Danmerkur. T.d. til Höganäs þar sem kaupa má afgangs glervörur og postulín frá Kosta Boda og Orrefors á góðu verði. Mölle er einnig hugsanlegur útúrdúr, vestasti oddi Skánar þar sem tíminn hefur staðið í stað.
Louisiana skyldustopp
En Helsingjaeyri á Norður-Sjálandi í Danmörku er næsti áfangastaður í hringnum góða. Kronborg kastalinn blasir m.a.s. við frá höfninni í Helsingborg og þangað liggur leiðin nú með ferju. Ferjuleiðin á milli Helsingborgar og Helsingør var alfaraleiðin á milli Svíþjóðar og Danmerkur áður en Eyrarsundsbrúin var byggð. Ferðin tekur einungis um tuttugu mínútur og auðvelt er að finna ferjuna niðri við höfn.Stolt Helsingjaeyrar er Kronborgkastalinn sem reistur var á 16. öld. Þar er upplagt að fá sér kaffi og skoða höllina og virkið. Kronborgkastali er af og til notaður af dönsku drottningunni fyrir veislur og er helst þekktur sem heimili Hamlets í samnefndu verki Shakespeares.
Ferðalangar ættu að stoppa á Louisiana nútímalistasafninu sem er á fallegum stað nálægt Humlebæk. Barnafólk getur líka notið þess að fara á listasöfn, ekki síst í Louisiana, þar sem börnin fá miklu meira en eitt lítið föndurhorn. Þar er sérstakt 500 m² barnahús á þremur hæðum sem er lagt undir skapandi starf með börnum.
Strandvegurinn niður til Kaupmannahafnar er skemmtilegur bíltúr en nauðsynlegt er að stoppa oft á leiðinni til að kíkja á kaffihús, fá sér ís eða stinga tá í sjó. Þetta er ein fallegasta leiðin sem hægt er að keyra í Danmörku þar til skiptis er keyrt inni í skógi og með útsýni yfir opið haf. Öll flottu húsin er líka gaman að sjá.
Rétt áður en komið er aftur til Kaupmannahafnar er keyrt í gegnum Charlottenlund sem telst úthverfi höfuðborgarinnar. Þar er strandhótel sem á rætur að rekja til 17. aldar, Skovshoved Hotel. Bandaríska ferðatímaritið Condé Nast Traveller telur það meðal 50 mest aðlaðandi hótela í heiminum og hefur útsýnið yfir Eyrarsund ábyggilega sitt að segja.
Eyrarsundshringinn er í sjálfu sér hægt að bruna á einum degi en þá er varla nokkurs staðar hægt að stoppa. Skemmtilegra er að gefa sér nokkra daga, gista á leiðinni og kynnast hverjum og einum stað aðeins.