Skemmtilegt Halldóra ætlar að vera í þrjá mánuði í Barcelona.
Skemmtilegt Halldóra ætlar að vera í þrjá mánuði í Barcelona. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HALLDÓRA Kristjánsdóttir er tvítug og nýútskrifuð af málabraut Menntaskólans við Sund. Eins og margir í hennar stöðu þarf að taka ákvörðun um framtíðina en í stað þess að hefja strax háskólanám ákvað hún að halda á vit ævintýranna í Barcelona.

HALLDÓRA Kristjánsdóttir er tvítug og nýútskrifuð af málabraut Menntaskólans við Sund. Eins og margir í hennar stöðu þarf að taka ákvörðun um framtíðina en í stað þess að hefja strax háskólanám ákvað hún að halda á vit ævintýranna í Barcelona. Þar ætlar hún að leggja stund á spænsku við Don Quijote-skólann og stunda ballett.

"Ég byrjaði í fimleikum í Gróttu en ég hef stundað ballettnám frá því ég var ung. En ballettskólinn í Barcelona er ekki mjög akademískur og ég geri þetta meira til þess að halda mér í æfingu en að ég stefni að frama í listgreininni," segir Halldóra.

Hún er heimavön í Barcelona því hún var þar í sex vikur í fyrrasumar í spænskunámi við Don Quijote-skólann og ætlar núna að ná ennþá betri tökum á málinu.

"Systir mín býr ásamt katalónskum kærasta sínum í Badalona sem er í austurhluta Barcelona. Ég verð hjá þeim en það tekur ekki nema 20 mínútur að komast með lestinni í skólann," segir Halldóra.

Hvað er það við Barcelona sem svo margir Íslendingar hrífast af?

Halldóra segir að borgin sé mátulega stór og einstaklega fjölbreytileg. "Það er svo margt hægt að gera í Barcelona. Það er hægt að fara á ströndina, skemmta sér eða stunda menninguna. Þarna eru ótrúlega margir merkilegir staðir til að skoða. Svo eru góðir veitingastaðir þar líka og auðvitað veðurfarið, sem er einstakt."

Hún segir Don Quijote-skólann mjög skemmtilegan. Þar séu nemendur frá öllum heimshlutum og kennararnir séu skemmtilegir. Þar sem hún var á málabraut hefur hún líka lagt stund á frönsku og latínu ásamt spænsku, en hún segir að það trufli sig ekki svo mikið í spænskunáminu að hafa lært svo skylt tungumál sem frönsku. En hvað um katalónskuna, sem margir tala í Barcelona? "Katalónskan er einhvers konar blanda af spænsku og frönsku en mér virtist eins og Katalóníumenn töluðu frekar spænsku við útlendinga. Ég varð því ekki svo mikið var við katalónskuna. En vinir kærasta systur minnar kenndu mér nokkrar setningar sem ég lærði svo seinna að væru mjög dónalegar. Ég ætla ekkert að nota af þeim," segir Halldóra, sem heldur til Barcelona í næstu viku og verður þar fram til áramóta.