Það er erfitt fyrir Ian Watson að mæla með aðeins einni borg í Evrópu enda hefur hann ferðast um þær ófáar sem leiðsögumaður og höfundur nokkurra ferðahandbóka um lönd í álfunni. ,,Eftir margra ára ferðalög um heiminn get ég ekki nefnt eitthvert eitt land umfram annað," segir Bandaríkjamaðurinn Ian sem er doktor í félagsfræði og hefur verið búsettur á Íslandi í fimm ár. Hann er alþjóðafulltrúi við Viðskiptaháskólann á Bifröst þar sem hann kennir einnig.
,,Það er nánast hvert einasta land Evrópu í uppáhaldi hjá mér enda hefur hvert þeirra sín sérkenni og merkingu fyrir mig. Almennt þykir mér fólk einblína um of á stóru borgirnar þegar það skipuleggur ferðalög sín. Það er vitaskuld frábært að fara til Parísar, Amsterdam, Stokkhólms, Kraká, Tókýó, Auckland eða San Francisco en nýt ég þess betur að ferðast til smærri staða. Beaune, Haarlem, Kalmar, Pszczyna, Matsuyama, Napier eða Eugene myndu hins vegar verða mínir ákvörðunarstaðir í þessum löndum," segir hann og brosir. ,,Loftið er hreinna í minni borgum, verðið lægra, það er auðveldara að versla, minna um glæpi, auk þess sem manni gefst færi á því að kynnast staðbundinni menningu betur en í stórborgunum."
Ian tekur Ungverjaland sem dæmi. ,,Búdapest er heillandi en hún er stór og getur verið frekar yfirþyrmandi. Það er erfitt að fá yfirsýn yfir borgina á stuttum tíma. Í minni fyrstu ferð til Ungverjalands myndi ég því fara til Eger, sem er borg í um tveggja tíma akstursfjarlægð frá Búdapest. Hún er minni en Reykjavík en stærri en Akureyri. Eger er háskólaborg og í miðju eins besta vínsvæðis Ungverjalands. Þar er fallegt aðaltorg og göngustígar og leiðir út um allt í borginni. Í Eger er er hægt að klífa bænaturn í mosku frá valdatíma Tyrkja í Ungverjalandi á síðmiðöldum, skoða kastala, bragða á ungversku bakkelsi og borða frábæran mat, horfa á stúdentaleikhús svo fátt eitt sé nefnt. Gisting er nær helmingi ódýrari en í Búdapest en ég get mælt með hótelunum Senator-Ház, Szent János og DobóVendégház sem eru virkilega fín og á sanngjörnu verði."