Alvar Aalto Hér á áttunda áratugnum, orðinn heimsþekktur arkitekt.
Alvar Aalto Hér á áttunda áratugnum, orðinn heimsþekktur arkitekt.
Eftir Aðalstein Ingólfsson adalart@thjodminjasafn.is Um þessar mundir eru liðin sjötíu ár síðan fjórir hugumstórir einstaklingar í finnska hönnunargeiranum opnuðu verslunina Artek í hjarta Helsinki.
Eftir Aðalstein Ingólfsson

adalart@thjodminjasafn.is

Um þessar mundir eru liðin sjötíu ár síðan fjórir hugumstórir einstaklingar í finnska hönnunargeiranum opnuðu verslunina Artek í hjarta Helsinki. Þarna voru á ferð listgagnrýnandinn Nils-Gustav Hahl (1904-1941), sterkefnuð og smekkvís kona að nafni Maire Gullichsen (1907-1990) og arkitektahjónin Aino Marsio-Aalto (1894-1949) og Alvar Aalto (1898-1976).

Árið áður, 1935, höfðu þessir fjórmenningar stofnað félag undir sama nafni í því augnamiði að tengja saman sjónlistir og tæknihyggju, "art" plús "tek". Það markmið var mjög í anda alþjóðlegs módernisma og þess finnsk-sænska líberalisma sem þau voru fulltrúar fyrir, en hvorutveggja gekk út á að laga framsækna listsköpun að þörfum almennings. Eða eins og segir í metnaðarfullu "manífesti" þeirra: "Að hefja til vegs framsækna lifnaðarhætti og menningu".

Artek-versluninni var öðru fremur ætlað að markaðssetja húsbúnað þeirra Alvars og Aino konu hans og veita brautargengi nýjum hugmyndum í arkitektúr og húsainnréttingum, auk þess að hafa á boðstólum húsgögn eftir innlenda og erlenda hönnuði sem aðhylltust ný viðhorf.

Velgengni fyrirtækisins fyrsta áratuginn má ekki síst þakka því hve samhentir þessir fjórir ólíku einstaklingar voru. Alvar Aalto var frjór listamaður og um leið útsjónarsamur þegar kom að tæknilegri framkvæmd hlutanna. Þótt hann hafi ekki fundið upp formbeygingu á trjáviði einn og óstuddur - stundum gleymist að Otto Korhonen og smíðaverkstæði hans komu þar einnig við sögu - þá var það Aalto sem gerði sér grein fyrir helstu notkunarmöguleikum formbeygingar.

Aalto var einnig öflugur talsmaður nýrra viðhorfa í arkitektúr og hönnun við opinber tækifæri og ötull "networker", fljótur að setja sig í samband við alla þá sem gátu komið fyrirtæki hans og finnskri hönnun að gagni. Við upphaf þriðja áratugarins höfðu Aalto-hjónin komið sér upp tengslaneti þar sem var m.a. að finna arkitektana Walter Gropius og Le Corbusier og fjöllistamanninn Lazló Moholy-Nagy.

Á þriðja og fjórða áratugnum var líka til þess tekið hve Aalto hjónin voru dugleg að fljúga vítt og breitt um Evrópu á kaupstefnur og ráðstefnur, meðan flestir aðrir ferðuðust með bílum eða lestum. Þau hjón voru einnig fjölmiðlavæn, eins og það heitir í dag; myndir af þeim birtust bæði á samkvæmissíðum og fréttasíðum finnskra blaða, auk þess sem Alvar skrifaði reglulega frásagnir af skoðunarferðum þeirra utanlands og sendi dagblöðum. Aino Aalto tryggði þeim hjónum síðan jarðsamband á heimaslóðum, ef svo má segja, með hagkvæmri, einfaldri og stílhreinni hönnun sinni á nytjahlutum. 3