San Francisco Íbúar borgarinnar eru allt annað en ánægðir með hve sparlega Michelin útdeildi stjörnum sínum til þeirra fjölmörgu sælkerastaða sem þar er að finna.
San Francisco Íbúar borgarinnar eru allt annað en ánægðir með hve sparlega Michelin útdeildi stjörnum sínum til þeirra fjölmörgu sælkerastaða sem þar er að finna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Michelin-stjörnur eru eftirsótt viðurkenning fyrir veitingahús og stjörnugjöfin, segir Steingrímur Sigurgeirsson, er umdeild eftir því.

Eftir að hafa fyrr á árinu gefið út leiðarvísi um veitingastaði í New York ræðst Michelin nú til atlögu við annað stærsta veitingahúsavígi Bandaríkjanna, borgina San Francisco og nágrenni. Viðtökurnar við rauðu bókinni hafa vægast sagt verið blendnar, en hún kom út í byrjun vikunnar, og hafa margir af helstu sérfræðingum Bandaríkjanna farið háðuglegum orðum um nálgun Michelin.

Alls var 28 veitingastöðum úthlutað stjörnu en einungis einn þeirra hlaut æðstu viðurkenningu Michelin, þrjár stjörnur. Var það The French Laundry í Yountville og er veitingamaðurinn Thomas Keller þar með orðinn annar veitingahúsaeigandinn í sögunni sem rekur tvo þriggja stjörnu staði en hann er einnig eigandi Per Se í New York. Sá eini sem hefur leikið þetta eftir er Frakkinn Alain Ducasse sem nú á reyndar þrjá þriggja stjörnu staði; í París, Mónakó og New York.

Hentar ekki borginni?

Fjórir veitingastaðir státa nú af tveimur stjörnum; Michael Mina og Aqua í San Francisco, Manresa í Los Gatos og Cyrus í Healdsburg. Athygli vekur að einn af þekktustu stöðum svæðisins, Chez Panisse í Berkeley, fékk einungis eina stjörnu.

Fyrirfram höfðu margir veitingamenn á San Francisco-svæðinu lýst yfir efasemdum um að nálgun Michelin myndi henta borginni enda þykja "eftirlitsmenn" Michelin leggja mest upp úr því að matur og þjónusta sé í samræmi við franska staðla og venjur. Matarmenning San Francisco þykir hins vegar afslappaðri og óformlegri en sú franska og sú í New York, þó svo að maturinn sjálfur sé á hæsta heimsmælikvarða.

Michelin segir hins vegar að nær allir starfsmennirnir, sem tóku út veitingastaðina, hafi verið bandarískir og flestir þeirra frá Vesturströndinni.

Gagnrýni Vesturstrandarbúa virðist ekki síst snúast um það að ekki fleiri staðir hafi fengið tvær til þrjár stjörnur og menn velta upp mismunandi ástæðum. Michael Bauer hjá San Francisco Chronicle segir að það hái hugsanlega öðrum veitingastöðum - sem ættu skilið að fá þrjár stjörnur væru þeir bornir saman við þá staði í New York sem fengu þá upphefð - að French Laundry sé einfaldlega svo miklu, miklu betri en aðrir veitingastaðir. Samanburðurinn skekki myndina.

Harvey Steiman, sem ritar greinar um veitingahús fyrir hið áhrifamikla tímarit Wine Spectator , er hins vegar ómyrkur í máli og segir að Michelin hafi slegið blautri tusku framan í San Francisco. "Sem íbúi San Francisco verð ég að segja eins og er að þessi borg á meira skilið," segir Steiman.

Höf.: Steingrímur Sigurgeirsson